Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 17:00:11 (6590)

2000-04-13 17:00:11# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[17:00]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla að leggja hér nokkur orð í belg vegna yfirlitsskýrslu hæstv. utanrrh. um alþjóðamálin.

Eðli máls samkvæmt hefur þessi árlega umræða tekið nokkrum breytingum í tímans rás og er núna á síðari árum kannski um margt flóknari og víðfeðmari en áður var og eru skýringar á því mjög nærtækar. Sú svart/hvíta heimsmynd sem við bjuggum við á tímum kalda stríðsins hefur tekið örum breytingum á þeim áratug sem nýliðinn er þannig að einföld afstaða til fjölmargra álitamála sem upp hafa komið er ekki eins svart/hvít og skilin ekki jafnskörp og gjarnan hefur nú verið og gjarnan var hér á árum áður.

Þess vegna er kannski hálfundarlegt og mótsögn í sjálfu sér þegar, þrátt fyrir allt á heildina litið, friðvænlegar horfir í heiminum að þörfin fyrir stærri og viðameiri starfsemi á vettvangi utanríkismála hér á landi er meiri en þegar ófriðvænlegt var í heiminum öllum og ekki síst í okkar álfu. Svona er þetta nú samt og skýringarnar eru nærtækar eins og ég sagði. Þróun mála hefur í auknum mæli verið í þá veru að þjóðir heims og þjóðir okkar álfu hafa verið að bindast bandalögum, samstarfi og samvinnu, laustengdri og fastmótaðri, um hin ýmsu mál. Hinar fjölmörgu alþjóðlegu stofnanir sem ber á góma í skýrslu ráðherra, ESB, NATO, VES, Sameinuðu þjóðirnar og fleiri og fleiri, byggja á gömlum grunni og undirstrika það að ef Ísland ætlar ekki að standa utan gátta og vera eitt síns liðs í þeirri umræðu og öru þóun sem á sér stað víða í álfunni og heiminum öllum, þá erum við ekki með. Það er bara svona.

Ég heyri á máli manna hér að skilningur hefur stóraukist í þessum efnum og ber að fagna því því að hann er ekkert mjög sjálfsagður og það er ekki endilega þannig að menn geti gengið að því sem vísu að hér á Alþingi Íslendinga frá einum tíma til annars taki menn undir það og undirstriki mikilvægi þess að Ísland sé virkur þátttakandi í samfélagi þjóðanna.

Ég man þá tíð --- það var raunar fyrir minn tíma á Alþingi Íslendinga --- að menn voru óttalega heimóttarlegir og vildu lítið vita af hlutum sem þóttu óþægilegir úti í heimi og jafnvel í okkar eigin álfu og vildu vera einir síns liðs, vildu láta aðra um að eiga við þau vandamál og viðfangsefni sem á dundu frá einum tíma til annars. Það ber eilítið á þessu enn þá í okkar ágætu samkundu á hinu virðulega, háa Alþingi. En mjög eru það orðnar hjáróma raddir og lágværar og það er út af fyrir sig fagnaðarefni.

Skýrsla sú sem hæstv. ráðherra hefur dreift hér er vandað plagg og víðtækt og margar upplýsingar er þar að finna. En það er líka því marki brennt sem ég gat um áðan að það er kannski erfiðara en fyrr að finna nákvæma stefnu ráðherrans og ríkisstjórnarinnar í einstökum málum. Ég undirstrika að það er af skiljanlegum orsökum á tímum mjög mikilla breytinga og hreyfanleika og ekki síst þegar við erum aðilar að fjölmörgum samkundum og samstarfsverkefnum þar sem leita þarf samkomulags um hin ýmsu mál. Ríkisstjórnin, þing eða stjórnmálaflokkar geta því ekki eins og fyrr tekið jafnsnögga og afdráttarlausa afstöðu til einstakra mála.

Í þessu sambandi er til að mynda einkar lærdómsríkt að minni hyggju það sem ég gerði að umtalsefni í stuttu andsvari áðan. Ég átti þá orðaskipti við formann Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um framgang jafnaðarmannastjórna í Evrópu og jafnaðarmannaflokka í Evrópu og hörð viðbrögð þeirra við þeim tíðindum sem gerðust í Austurríki með tilkomu hægri öfgaflokks þar í landi með nasískar tilhneigingar, flokks sem berst gegn minnihlutahópum og vill þá veg allrar veraldar, í stuttu máli sagt flokk andlýðræðis, flokk sem margir hafa líkt við þjóðernisflokk Hitlers forðum daga. Jafnaðarmannaflokkarnir hafa mjög myndarlega kveðið upp úr um það að þróun af þessum toga verði ekki liðin ef nokkur möguleiki er að koma í veg fyrir hana og vísa til þess að í nýfrjálsum ríkjum Austur-Evrópu, svo ég tali nú ekki um á Balkanskaga, verður stundum mjög stutt í þessar tilhneigingar. Ekki vegna þess að lýðræðishugsjónir séu þar ekki ráðandi nú um stundir heldur auðvitað vegna þess að þar er fátækt og þar eru erfiðleikar og almenningur grípur gjarnan til þeirra stjórnmálamanna sem lofa mestu og hrópa hæst. Það þekkja menn frá öllum tímum í fjölmörgum álfum í gegnum tíðina. Því er nú verr og miður.

Þannig sér maður að fjölþjóðlegt samstarf stjórnmálahreyfinga getur haft áhrif og mun hafa áhrif. Þetta er dregið hér ekki síst fram vegna þess að við jafnaðarmenn á Íslandi höfum ævinlega verið stoltir af því og aldrei farið í launkofa með að við höfum verið í nánu samstarfi og samvinnu við flokkssystur okkar og bræður um heim allan, á sama tíma og Sjálfstfl. fyrir nokkrum árum til að mynda taldi það sér sérstaklega til tekna að vera ekki í formlegu samstarfi við hægri flokka neins staðar og taldi sig vera einn flokka sem ætti sér enga hliðstæðu neins staðar í heiminum og var afskaplega feiminn þegar því var haldið fram að þeir ættu skoðanasystkini í hægri flokkum víða í Evrópu. Þetta hefur breyst sem betur fer. Þeir kannast nú við uppruna sinn, sjálfstæðisflokksmenn hér á Íslandi, og vilja með opinskáum hætti taka þátt í því alþjóðlega samstarfi sem m.a. fer fram á vettvangi hægri flokka í hinum fjölmörgu alþjóðlegu ráðum og nefndum sem við tökum þátt í og einnig utan þeirra. Það er fagnaðarefni og ég lýsi yfir ánægju minni með það.

Hið sama gildir um Framsfl. sem vildi til langs tíma ekki kenna sig við neina aðra hliðstæða flokka, taldi sig vera alíslenskan og ekki eiga neinn snertiflöt við miðjuflokka í Evrópu. Þetta hefur einnig breyst. Ég vænti þess að vinstri grænir sem eru nýr flokkur í íslenskri pólitík, tengist á sama hátt út í Evrópu og leiti eftir samstarfi við systurflokka og bræðraflokka á Norðurlöndum til að mynda og í Mið-Evrópu. Þar er að vísu vandamál á ferð þar sem grænir flokkar í Evrópu eru ýmist til vinstri eða hægri þannig að kannski verður leitin eilítið flóknari þar á bæ. En ég verð var við það og veit ekki betur en að sú leit sé yfirstandandi og þegar hafin og að einhverjir snertifetir hafi þegar fundist.

Þetta geri ég nú almennt að umtalsefni, herra forseti, því að ég held að mikilvægt sé að við glöggvum okkur á þessari mynd í ljósi sögunnar og þróunar mála.

Ég sagði að heimsmyndin væri eilítið flókin og ég vil taka dæmi þar um. Réttilega hefur verið á það minnst að hörmuleg átök áttu sér stað á Balkanskaga á síðasta ári þar sem Atlantshafsbandalagið réðst að Kosovo og fór þar í lofthernað með þeim afleiðingum og þeirri niðurstöðu sem öllum er kunn. Í kjölfar þeirra átaka átti ég þess kost að fara með félagsmálanefnd NATO-þingsins, með kollegum mínum úr öllum flokkum í þeirri nefnd, í heimsókn á síðasta hausti. Þá áttaði maður sig á því auðvitað í nálægð í fyrsta lagi við hvaða vanda var að etja í Kosovo sjálfu og þeirri eymd sem þar ríkti, í fyrsta lagi vegna þjóðernishreinsana Serba og þeirra gífurlegu eyðileggingar sem átt hafði sér stað vegna þeirra --- það hafi nú kannski mest áhrif á líf og starf þeirra einstaklinga sem áttu í hlut --- og einnig vegna loftárásanna, fram hjá þeim var ekki hægt að líta, en ekki síður vegna þess flókna samspils sem alþjóðasamfélagið þarf að viðhafa á svæðum eins og Kosovo þar sem hinir fjölmörgu aðilar komu að stjórn mála. Þar voru NATO-herirnir, KFOR. Þar voru Sameinuðu þjóðirnar, UNMIC, löggæslan þar á bæ. Þar var Rauði krossinn. Það var verið að reyna að laða að innlenda löggæslumenn hægt og bítandi, enda stefna hinna alþjóðlegu hjálpar- og friðargæslusveita að vera sem styst en þó nógu lengi til þess að hægt væri að koma á traustum innlendum yfirvöldum, löggæslu og dómurum o.s.frv.

Þetta samspil var býsna flókið og erfitt og það viðurkenndu allir sem við áttum viðræður við. Það var ekkert sjálfgefið og allar boðlínur og öll samskipti gengu hægt og stundum illa fyrir sig. Endinn á þessum línum var auðvitað hjálpin sjálf og að því leytinu til gekk hún treglegar en menn vonuðu.

Þess vegna var einkar lærdómsríkt að sjá í raun hvernig þessir hlutir gerst. Við lesum um þetta í blöðunum. Við ræðum það hér á fundum að eitthvað þurfi að gera. En þegar til kastanna kemur eru málin miklum mun flóknari en við viljum vera láta.

Ég átti þess kost til að mynda að heimsækja Mitrovica þar sem menn höfðu skömmu áður upplifað mjög hörð átök á milli tveggja hópa, Kosovo-Albana og Serba sem búa handan árinnar sem þar rennur. Og maður fann, gat andað að sér, spennunni sem í loftinu lá. Friðargæslusveitirnar, hvort sem þær voru frá NATO-ríkjunum, hjálparsveitir ÖSE eða frá Sameinuðu þjóðunum, það unga fólk sem þarna var að reyna að leggja hönd á plóg og aðstoða, átti mjög erfiða daga.

Þessa mynd vil ég draga hér upp, herra forseti, til þess að við glöggvum okkur enn betur á því en við höfum kannski gert, að vandi þessara mála er mikill og tilskipanir að ofan duga ekki einar sér. Framkvæmd verkanna og fyrirkomulag þeirra skiptir mestu.

Herra forseti. Ég hef kannski gerst orðlangur um minni háttar mál sem eru þó í raun meginmál þegar til kastanna kemur. Ég hafði ætlað að ræða ýmis mál önnur eins og Norðurlandaráð sem er að ganga í gegnum miklar breytingar og mikla þróun sem ekki hefur enn þá verið séð fyrir endann á. Við vonum þó að þar verði þróunin í farsæla átt.

Ég vildi líka ræða menningarmál af því ég staldraði við mjög ítarlegan kafla um aðild utanríkisþjónustunnar að menningarviðburðum víða um heim. Þó vil ég nefna sérstaklega, þó að það kunni ekki að vera stór þáttur í þessari umræðu, að íþróttastarfsemi á þeim vettvangi hefur því miður verið hverfandi þáttur í okkar samskiptum við aðrar þjóðir sökum þess að íþróttahreyfingin, til að mynda handboltahreyfingin, hefur ekki peninga til þess að senda lið í erlendar stórkeppnir. Handboltamenn í Evrópukeppnum eru til að mynda liðin tíð og svo hefur verið tíu ár. Þetta voru mjög góðir fulltrúar okkar á erlendri grundu. Án þess að ég sé að gera lítið úr okkar leikurum eða listamönnum þá þori ég nánast að fullyrða að góður árangur handboltaliðs á erlendri grundu vekur ekki minni og jafnvel meiri athygli en stórar listsýningar í sama landi. Þetta vil ég nefna sem dæmi.

Hins vegar vil ég að lyktum spyrja hæstv. utanrrh. um eitt og það lýtur að varnarliðinu hér á landi. Hann getur þess réttilega að bókun sú sem framkvæmd varnarsamningsins byggir á rennur út núna í aprílmánuði og ákvæði þeirrar bókunar getur um að segi annar hvor aðilinn upp samningnum þá beri að taka hann til endurskoðunar og ræða frekari framkvæmd hans og framlengingu.

Hafi þetta farið fram hjá mér þá biðst ég afsökunar á því, en er það svo að annar hvor aðilinn hafi nú þegar tilkynnt um að hann muni óska endurskoðunar á samningnum? Er það stefna íslensku ríkisstjórnarinnar og ráðherrans að óska eftir því að samningurinn verði framlengdur óbreyttur að einu og öllu leyti? Hvað er í pípunum í þessum efnum? Ég gef mér, og það hlýtur að vera svo, að einhverjar línur séu farnar að myndast í þessum efnum núna örfáum vikum --- raunar er nú tíminn þegar liðinn ekki satt, 9. apríl --- þannig að menn átti sig á því hvað fram undan er í þessu sambandi. Fyrir liggur að þarna hefur verið stórlega dregið úr allri starfsemi eins og fram kemur í skýrslunni og það er mikilvægt fyrir allra hluta sakir að menn fái einhverja mynd af því núna við þessa umræðu.