Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 17:21:41 (6594)

2000-04-13 17:21:41# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[17:21]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. utanrrh. um að það verður ákaflega fróðlegt út af fyrir sig að heyra nálgun Bandaríkjanna í þessum efnum þegar til viðræðna kemur síðar á þessu ári vegna þess umhverfis sem við búum í og ekki síst vegna þeirra breytinga sem eiga sér stað í öryggis- og varnarmálum í Evrópu. Menn hafa með réttu rætt eilítið þær breytingar og þá skörun sem verður sannarlega þegar Evrópusambandið tekur ábyrgð á eigin varnarmálum og hlutverki Atlantshafsbandalagsins og samspilið við þann veruleika og stöðu þeirra ríkja sem standa utan Evrópusambandsins. Þó að afstaða Bandaríkjanna sem hefur sumpart verið skýr og ákveðin um það að Bandaríkin ætli að standa plikt sína og skuldbindingar sínar í Atlantshafsbandalaginu, hygg ég að á verði á hinn bóginn ekki fram hjá því horft að í Bandaríkjunum hafa einatt komið upp raddir þess efnis að enn frekar skuli draga úr kostnaði við heri í Evrópu og við þátttökuna í vörnum Evrópu. Sumir stjórnmálamenn þar á bæ hafa gengið svo langt að vilja draga sig algerlega út, vilja spara þar stóra peninga, einangrunarhyggjan hefur verið alger, en þeir eru að vísu örfáir og hjáróma. Þess vegna er það dálítið mikilvægt og ég held að það skipti máli hvernig nálgun Bandaríkjamanna verður í þessu samhengi, hvort þeir vilja áfram nota Ísland sem tengilið við Evrópu í þessu samhengi eða hvernig þeir nálgast málið. Ekki það að ég sé sérstaklega að óska eftir því. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við ætlum að búa okkur undir þann veruleika sem blasir við okkur og birtist á þessum síðum að dregið hefur úr þessari starfsemi. Efnahagslegu áhrifin hafa snarminnkað og allt bendir til þess að sú þróun muni halda áfram og við eigum að ræða það og bregðast við henni og taka henni eins og menn.