Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 17:43:44 (6598)

2000-04-13 17:43:44# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[17:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn hafa gert ákveðin mistök í gegnum tíðina og vanmetið efnahagsástandið í viðkomandi löndum. Ég hygg að þessar stofnanir hafi lært mikið af þeim mistökum í gegnum tíðina.

Hins vegar er það svo, og við getum tekið lönd eins og Indónesíu sem dæmi þar sem voru ekki lýðræðislegir stjórnarhættir, þar var verið að setja skilyrði m.a. til að knýja á um það að lýðræðislegum stjórnarháttum yrði komið á og til að tryggja að aðstoðin rynni til indónesísku þjóðarinnar.

Það er líka ljóst að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn vanmátu stöðuna í Suðaustur-Asíu á sínum tíma þegar efnahagskerfi nokkurra landa eins og Tælands og fleiri riðuðu til falls. Það kom í ljós að þessi lönd voru afar skuldsett. Það var mikill hagvöxtur en skuldirnar voru það miklar í löndunum að það réðist ekki neitt við neitt þegar fallið kom. Þetta liggur fyrir í dag að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og reyndar Alþjóðabankinn að einhverju leyti vanmátu stöðuna.

Hins vegar er munurinn sá að því er varðar Alþjóðabankann að hann er fyrst og fremst orðinn þróunarstofnun og stofnun sem hjálpar fátækustu ríkjum í heimi og er afar mikilvæg í því sambandi. Eitt af því sem Alþjóðabankinn hefur lagt áherslu á er að fá einkaaðila inn í þessi lönd til þess að fjárfesta og til að taka þátt í atvinnulífi sem er líka mjög mikilvægt fyrir þessar þjóðir.