Lax- og silungsveiði

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 19:35:16 (6612)

2000-04-13 19:35:16# 125. lþ. 101.10 fundur 551. mál: #A lax- og silungsveiði# (gjaldtaka o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[19:35]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði. Mér var það á, herra forseti, að líta pínulítið á þetta frv. Þá sá ég allt í einu að í því leyndust skattalög vegna þess að í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir breytingum á 92. gr. laganna um lax- og silungsveiði. Þar er fjallað um það m.a. að 3‰ af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu skuli renna til fiskræktarsjóðs. Þetta er mjög skemmtilegt orð ,,óskírum`` tekjum. Nú er því breytt yfir í ,,heildartekjum``, ,,3‰ af árlegum heildartekjum vatnsaflsstöðva sem selja orku til almennings``. Í f-lið stendur svo ,,3‰ af árlegum heildartekjum vatnsaflsstöðva vegna sölu á raforku samkvæmt sérsamningum til nýrra stórnotenda``. Þetta eru greinilega skattalög. Lagður er skattur á vatnsaflsstöðvar og auk þess er lagður skattur á útborgaðan arð veiðifélaga sem er svona aukatekjuskattur á þau félög, en það er þessi skattur á vatnsaflsstöðvar sem ég ætla að gera að umtalsefni.

Hér er greinilega um skatt að ræða því að greiðendur komast ekki undan honum. Hann er lagður á með lögum og hann rennur til sjóðs sem heitir fiskræktarsjóður. Ég fór að kíkja dálítið á þann sjóð. Með stjórn fiskræktarsjóðs fer veiðimálanefnd, herra forseti, veiðimálanefnd, allt hugtök sem ég hafði ekki þekkt hingað til en maður lærir svo lengi sem maður lifir. Í 89. gr. laganna stendur: ,,Í veiðimálanefnd eiga sæti fimm menn. Ráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn ...`` Hér er sem sagt um að ræða skatt á vatnsaflsstöðvar, þ.e. raforkuframleiðslu, sem á að renna í veiðimálanefnd sem á svo aftur að veita lán og styrki til mannvirkjagerðar er lýtur að fiskrækt og fiskeldi. Nú er svo merkilegt að ein vatnsaflsstöð, þ.e. Blanda, bætti Blöndu sem veiðiá, þannig að Blanda sem var óveiðanleg þangað til var allt í einu orðin að tærri bergvatnsá og var veiðanleg. Þess vegna er dálítið undarlegt að til þess að gera Blöndu að veiðiá þurfi Blönduvirkjun að borga auk þess skatt, 3‰ í fiskrækt. Ég sé nú reyndar ekkert af hverju vatnsaflsstöðvar eiga að borga í fiskrækt, ég skil það ekki. Ég vildi bara vekja athygli á því að í þessum lögum eru dulin skattalög og það er mikil spurning, herra forseti, hvort eigi ekki að vísa frv. til efh.- og viðskn. eða a.m.k. að fá umsögn þeirrar nefndar til hv. landbn. þar sem það er efh.- og viðskn. sem fjallar um skattalög en ekki landbn. En þetta eru greinilega skattalög þó skatturinn renni í þessu tilfelli til fiskræktarsjóðs.