Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 19:39:03 (6613)

2000-04-13 19:39:03# 125. lþ. 101.11 fundur 552. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva o.fl.) frv., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[19:39]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra en tilgangur þess frv. sem hér flutt er að aðlaga ákvæði laganna um innflutning dýra, nr. 54/1990, að þeirri reynslu og framkvæmd sem mótast hefur á gildistíma þeirra og þeirri þróun löggjafar á sviði landbúnaðar sem orðið hefur frá því lögin voru sett.

Eins og kunnugt er var sett á stofn sóttvarnastöð fyrir nautgripi í Hrísey árið 1973. Í fyrstu sá embætti yfirdýralæknis um þann rekstur, síðan var þessi sóttvarnastöð leigð Landssambandi kúabænda 1. jan. 1994, en árið 1993 var Svínaræktarfélagi Íslands heimilað að reisa sóttvarnastöð fyrir svín þar í eyjunni og síðan var stofnsett árið 1990 einangrunarstöð fyrir gæludýr á sama stað.

Innflutningur lifandi dýra sem hefur verið heimilaður á undanförnum árum hefur gengið í öllum meginatriðum áfallalaust og það er alveg ljóst að áframhald mun verða á slíkum innflutningi, m.a. vegna kynbóta, og jafnframt vegna gæludýra. Allt mótast þetta af því að við Íslendingar búum sem betur fer ekki við marga sjúkdóma sem herja á búfénað og önnur dýr í öðrum löndum og það er mikils um vert að koma í veg fyrir að þeir berist hingað til lands.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, gerð er ítarleg grein fyrir því í grg. og málið er þess eðlis að nauðsynlegt er að hv. landbn. fari ítarlega yfir það eftir því sem þurfa þykir. Fyrst og fremst felur frv. í sér aðlögun laganna um innflutning dýra, þróun annarrar löggjafar á þessu sviði sem orðið hefur frá því þessi lög voru sett 1990. Ég vil leggja til, hæstv. forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.