Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 10:53:20 (6619)

2000-04-26 10:53:20# 125. lþ. 102.14 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[10:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Að sjálfsögðu ber að fagna því að loksins hillir undir að Ísland samþykki samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156 með þessu lagafrv. og þáltill. sem einnig er til umfjöllunar hér á þingi. Það er mat þeirra sem um þetta hafa vélað að þetta sé eina beina lagabreytingin sem þurfi að gera og felst í þessu einfalda lagaákvæði um að banna uppsögn starfsmanna vegna fjölskylduábyrgðar þeirra, eins og þarna er nánar skilgreint. Með þessu gefum við samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar stjórnskipulegt gildi hér og gerum nauðsynlegar ráðstafanir í landslögum.

Ég verð þó að segja, herra forseti, að það eru mér nokkur vonbrigði að þetta frv. skilgreinir þá þætti samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem hér koma við sögu á eins þröngan hátt gagnvart starfsmanninum og mögulegt virðist. Einkum tel ég að tvennt orki mjög tvímælis að hafa jafntakmarkandi eða þröngt eins og frv. gerir ráð fyrir. Það er í fyrra lagi orðið ,,eingöngu`` í 1. málslið 1. gr. frv. en þar segir með leyfi forseta:

,,Óheimilt er að segja manni upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar sem hann ber.``

Ég óttast að þetta kunni að bjóða upp á þá túlkun við framkvæmd laganna að svo lengi sem menn geti tínt til eitthvað annað þá komist menn upp með að segja mönnum upp jafnvel þó hin raunverulega ástæða sé sú að viðkomandi starfsmaður sé frá vinnu vegna þess að hann er að annast veikt skyldmenni eða heimilismann. Ég hygg að til að mynda sé öðruvísi frá þessu gengið en í lögum sem eiga að vernda þungaðar konur frá því að þeim sé sagt upp á meðan á meðgöngu stendur vegna þungunar sinnar. Þar er orðalagið afdráttarlaust. Það er með beinum, pósitífum hætti óheimilt að rjúfa ráðningarsamband við starfsmann þegar þannig stendur á að viðkomandi er þungaður.

Hér er hins vegar boðið upp á þá útfærslu að svo fremi sem hægt sé að tína til einhverjar aðrar ástæður þá sé í lögunum ekki fólgin einhlít vörn fyrir starfsmanninn gegn því að honum verði sagt upp. Ég hygg að þetta skýri sig sjálft þegar menn fara að skoða málið og ekki þurfi að hafa um þetta frekari orð. Þegar af þessum ástæðum óttast ég að í þessu sé ekki sú lagalega vörn sem ég tel að ætlunin sé að veita með samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar þá loksins að undir það hillir að hún gangi hér í gildi.

Sönnunarbyrðin gæti af þessum ástæðum lent á starfsmanninum, að sanna að hin raunverulega ástæða uppsagnarinnar sé fjarvera starfsmannsins frá vinnu vegna umönnunar við skyldmenni en ekki einhver önnur ástæða.

Seinna atriðið, herra forseti, er að binda þetta alfarið við að viðkomandi aðili sem umönnunar þarfnast sé búsettur á heimili starfsmannsins. Það takmarkar að sjálfsögðu þetta ákvæði mjög. Sem dæmi má taka að væri um að ræða aldrað foreldri starfsmannsins sem byggi í sinni eigin íbúð eða annars staðar, á stofnun t.d., en þyrfti á stöðugri umönnun að halda, þá mundu lögin ekki veita starfsmanninum vernd fyrir uppsögn við slíkar aðstæður. Það er nauðsynlegt að menn átti sig á að hér er valin sú leið að skilgreina þetta eða túlka með mun þrengri hætti en víða annars staðar er gert. Ég held, herra forseti, að það hljóti að vera okkur nokkurt umhugsunarefni að þegar það er borið saman þá virðist niðurstaða nefndar aðila vinnumarkaðarins, Vinnuveitendasambands, Alþýðusambands og félmrn., sem lögðu til þessa tillögugrein, að túlka þetta eða setja fram nánast eins þröngt og kostur er. Þannig þarf að uppfylla öll þessi skilyrði:

Í fyrsta lagi verður að vera um að ræða skyldur gagnvart ósjálfráða börnum, --- eins og frv. segir en því leggur nefndin reyndar til að verði breytt --- maka eða nánum skyldmennum starfsmannsins sjálfs.

Í öðru lagi þarf viðkomandi að búa á heimili starfsmannsins.

Þriðja skilyrðið er að viðkomandi þarfnist umönnunar starfsmannsins sjálfs eða forsjár, svo sem vegna veikinda, fötlunar eða sambærilegra aðstæðna.

Það er nauðsynlegt að menn hafi í huga að öll þessi skilyrði verða að vera uppfyllt til að lögin veiti starfsmanninum þá vernd sem þeim er ætlað að gera. Þarna velur Ísland þá leið við fullgildingu þessarar samþykktar, áratugum á eftir mjög mörgum öðrum ríkjum og flestum nágrannaríkjunum, að takmarka verndina nánast með eins þröngri skilgreiningu og kostur er.

Þetta eru mér vonbrigði, herra forseti, og ég læt þessa fyrirvara mína koma hér fram. Engu að síður, eins og ég sagði í upphafi, er ánægjuefni að það hilli nú loksins undir að þessi samþykkt verði fullgilt. Það hefur verið baráttumál verkalýðshreyfingarinnar um langt árabil en endurspeglar kannski veika stöðu hennar hér og lítinn skilning á þessum málum í íslenskum stjórnmálum hversu seint það hefur gengið. En það er þó að sjálfsögðu jákvætt skref og því ber að fagna að þetta verði gert. Breytingin er tvímælalaust til bóta svo langt sem hún nær. Af þeim ástæðum munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs greiða þessu frv. atkvæði okkar og ég hef skrifað undir nál. félmn. án fyrirvara.