Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 11:00:00 (6620)

2000-04-26 11:00:00# 125. lþ. 102.14 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[11:00]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð að því beri að fagna að nú hillir undir að samþykkt nr. 156 frá Alþjóðavinnumálastofnuninni verði nú fullgilt hér á hv. Alþingi. Ég minni hv. þm. á að þegar hefur komið hingað inn fullgildingartillaga utanrrh. sem er til umfjöllunar í utanrmn. þannig að gagnvart Alþjóðavinnumálastofnuninni mun það einnig koma skýrt fram að við höfum tekið þetta ákvæði inn í lög okkar.

Þegar mælt var fyrir þessari tillögu við 1. umr. velti ég því fyrir mér hvers vegna orðið ,,eingöngu`` væri í tillögugreininni, hvort þar hefði þurft að ná málamiðlun við Samtök atvinnulífsins. Reynt hefur verið að ná þessari tillögu annaðhvort í kjarasamninga eða með lögum til að skapa þá vernd sem hér er stefnt að en ekki tekist hingað til. Var það krafa Samtaka atvinnulífsins að þrengja svo mjög að tillögunni og setja inn orðið ,,eingöngu``? Ef ég man rétt þá er það ekki að finna í þessari 8. gr. sem fyrst og fremst hefur verið til umfjöllunar varðandi ILO-samþykkt nr. 156.

Þess vegna langar mig að spyrja hvort það hafi verið skoðað í nefndinni hvort ástæða hafi verið til að breyta textanum sem slíkum eins og nefnt var við 1. umr. um málið. Var svo mikilvægt að ná samstöðu um texta sem hægt væri að setja hér fyrir þingið að ekki var talið æskilegt að hrófla mikið við honum?

Ég er hins vegar afskaplega ánægð að sjá að þarna er búið að taka út orðið ,,ósjálfráða``, mér finnst það til bóta og vek athygli á því sem hér hefur komið fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Það er afskaplega mikilvægt að hér sé búin til vörn fyrir fólk á vinnumarkaði sem ber fjölskylduábyrgð. Ég hef áður sagt í umræðu um þetta mál að mörg ár séu síðan starfsmannastjóri í einu af stærstu fyrirtækjum þessa lands spurði mig: Hvernig stendur á því að við erum eina landið, af löndunum sem við berum okkur saman við, þar sem ég get kallað í starfsmann og sagt við hann: ,,Þér er hér með sagt upp störfum``? Spyrji starfsmaðurinn hvers vegna þá er nóg fyrir mig að segja: ,,Af því bara.`` Það er engin vörn fyrir starfsmanninn.

Ég svaraði því til þá að ég hefði reynt að beita mér fyrir því frá því í ársbyrjun 1995 að Alþingi og reyndar ríkisstjórnin hefði frumkvæði að því --- þetta var borið fyrst inn á ríkisstjórnarborð í ársbyrjun 1995 --- að fella í lög að a.m.k. væri ekki hægt að segja starfsmanni upp vegna fjölskylduábyrgðar. Hér hefur jafnframt verið til umfjöllunar á þinginu af og til, sem þingmannatillaga, ILO-samþykkt nr. 158 um ákveðna vörn við uppsögnum og að ástæður þeirra verði að skýra. Ég vek athygli á því að það mál hefur ekki komist í gegnum ríkisstjórn. Þess vegna er það enn í höndum okkar þingmanna að ýta við og minna á eins og gert hefur verið með þetta mál nú um fimm ára skeið.

Það er afskaplega mikilvægt að 8. gr. ILO-sam\-þykkt\-ar\-innar verði virk. Ég bendi á það að samþykkt nr. 156 er talsvert víðtæk eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni sjálfri. Þar er farið yfir fjölmarga þætti sem skapa heilbrigðan ramma um tilveru foreldra á vinnumarkaði. Talið að Ísland hafi þegar uppfyllt öll atriði samþykktarinnar fram að þessu nema 8. gr., sem kveður á um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar.

Með því að koma þessu atriði í lög og fullgilda tillöguna eins og við munum væntanlega gera fyrir þinglok, þar sem tillagan er nú komin til utanrmn., erum við að stíga stórt skref til verndunar fjölskylduumhverfi. Þessi tillaga er hluti af þeirri fjölskyldustefnu sem Alþingi hefur falið ríkisstjórninni að útfæra. Ég vek hins vegar athygli á því að mörg önnur atriði eru enn þá óútfærð í þeirri tillögu að opinberri fjölskyldustefnu sem Alþingi hefur sent frá sér. Ég vænti þess að við sjáum fleiri slík mál á næsta þingi því að varla koma þau fyrir þingið héðan af.

Ég fagna því að þetta mál er hér til afgreiðslu og tel mikilvægt að því verði fylgt eftir sem ábótavant er, þeim álitamálum sem hér hefur verið bent á eftir umfjöllun í nefndinni. Ég bendi á að í nál. kemur fram að frv. tryggir ekki að launþegi fái greidd laun í fjarveru frá starfi vegna fjölskylduábyrgðar. Um kaup og kjör gildi samningar á almennum vinnumarkaði og laun í fjarveru frá starfi fara eftir kjarasamningum, það vitum við.

En það kom líka fram, alveg frá upphafi umfjöllunarinnar um að fullgilda ILO-samþykkt nr. 156, að til eru tvær leiðir og að löndin í kringum okkur hafa farið ólíkar leiðir, annars vegar að taka þetta í gegnum kjarasamninga og hins vegar með lagasetningu, eins og við erum að gera núna. Þess vegna lít ég svo á að málið sé nú í höndum launþegahreyfinganna og það hljóti að vera þeirra verkefni að fylgja því eftir að fjölskyldan sé tryggð þegar um þessi mál er að ræða. Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram, herra forseti.