Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 11:07:52 (6621)

2000-04-26 11:07:52# 125. lþ. 102.14 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, Frsm. ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[11:07]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og nál. ber með sér vann félmn. þetta afskaplega vel og fór í gegnum þetta á mörgum fundum. Um þetta sköpuðust heilmiklar umræður þannig að ég tel að við höfum farið býsna vel í gegnum þetta.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir beindi til mín spurningu varðandi orðið ,,eingöngu``, sem er í frumvarpstextanum. Það er alveg ljóst að þessi frumvarpstexti, eins og kemur fram í grg. með frv., byggist á tillögu þríhliða samstarfsnefndar félmrn. og helstu samtaka aðila vinnumarkaðarins. Þessi texti sem slíkur er því niðurstaða af slíku samstarfi. Eins og hér er vitnað til þá byggist þetta á 8. gr. ILO-samþykktarinnar og hún er svohljóðandi:

,,Fjölskylduábyrgð sem slík skal ekki vera gild ástæða til uppsagnar starfs.``

Eins og fram hefur komið er þetta býsna opið en niðurstaðan varð sú að halda orðinu ,,eingöngu`` inni þar sem hér er efnislega verið að fjalla um uppsögn vegna fjölskylduábyrgðar en ekki vegna annarra efnisatriða. Þess vegna ákvað nefndin að halda sig við þennan texta sem varð til í samstarfi aðila vinnumarkaðarins og ráðuneytisins.