Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 11:27:57 (6628)

2000-04-26 11:27:57# 125. lþ. 102.14 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[11:27]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þegar kreppir að í atvinnumálum læðist óhugnanleg hugmyndafræði og hugsun inn í fyrirtæki landsins. Það má draga það saman í eina setningu: Þegiðu, vertu góður og hafðu vinnu. Það er þá sem maður heyrir starfsmenn hafa ótta af því að vera með gagnrýni uppi á vinnustað, það er þá sem maður heyrir starfsmenn vera með óttablandna virðingu fyrir vinnustaðnum og þora ekki að vera með neitt sem hægt væri að flokka undir andóf.

En út af orðum þingmannsins þá ætla ég að spyrja: Hvað er fyrirtæki? Er til eitthvert fyrirtæki sem er ekki með starfsmenn í vinnu? Við getum talað um einyrkja eða lítil fjölskyldufyrirtæki en um leið og menn eru farnir að reka fyrirtæki sem er með starfsmannahald skiptir það máli hvernig menn byggja þetta fyrirtæki upp. Þá þurfum við að svara spurningunni: Eru félagsleg réttindi starfsmanna þýðingarmikil og réttlætanleg? Gott fyrirtæki byggir nefnilega á traustu og ánægðu starfsfólki. Ánægt starfsfólk er fólk sem nýtur virðingar í starfi og atvinnuöryggis. Það er svo einfalt. Að njóta virðingar í starfi og atvinnuöryggis. Það er þá sem einstaklingurinn leggur af mörkum langt út yfir það sem einhver laun krefjast af viðkomandi.

Fyrirtæki sem ætlar að ná árangri verður að gera sér grein fyrir því að það kostar að hafa fólk í vinnu, borga sómasamleg laun og vera með fólk sem býr við félagsleg réttindi bæði vegna veikinda eða erfiðleika sína og sinna. Ég skil ekki hvers slags fyrirtæki það væri sem mundi vilja skerða réttindi eða búa við að sýna ölmusu og góðmennsku eins og eitthvað örlæti.

En ræða þingmannsins segir okkur svolítið um það að hér þýðir ekkert nema skýr lög. Við viljum ekki hverfa aftur að upphafi síðustu aldar þar sem fólk var upp á góðmennsku atvinnurekandans komið.