Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 11:30:09 (6629)

2000-04-26 11:30:09# 125. lþ. 102.14 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[11:30]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég tók það einmitt fram í ræðu minni að atvinnuleysið væri kannski mesti bölvaldur fyrir launþega. Og að ríkisstjórninni hafi tekist að ná niður atvinnuleysinu með markvissum aðgerðum í fyrirtækjaumhverfi er eitt af því jákvæðasta sem hefur náðst fram á síðustu árum og það gerir það að verkum að menn lenda ekki undir hæl vondra atvinnurekenda, því þeir eru til, því miður. Og þeir blómstra þegar atvinnuleysið vex.

Sama gerist líka þegar atvinnuleysið minnkar eða hverfur. Þá koma nefnilega upp vondir launþegar sem hóta að segja upp stöðugt og endalaust í krafti þess að fólk vantar. Slíkir öfgar koma upp bæði þegar um er að ræða mikið atvinnuleysi og eins þegar mikill skortur er á fólki.

Ég tók einnig fram að fyrirtæki eru nú farin í auknum mæli að líta á starfsfólkið sem verðmæta eign sína og að mjög mikilvægt sé að senda starfsfólkinu góð merki um það hvernig fyrirtækið bregst við. T.d. með uppsögnum, t.d. með því þegar einhver er veikur heima. Og fyrirtækin gera þetta. En að bjóða þetta með lögum ofan frá er ekki rétt, því þá fær starfsfólkið það ekki á tilfinninguna að fyrirtækið sé að senda því merki heldur er þetta lögboð sem fyrirtækið verður að hlíta hvort sem það vill eða ekki og þá getur maður ekki séð hvaða fyrirtæki hugsa í rauninni vel um starfsmenn sína og er annt um þá og hvaða fyrirtæki hugsa ekki um starfsmenn sína, þ.e. þegar búið er að lögbjóða þetta ofan frá.