Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 11:33:27 (6631)

2000-04-26 11:33:27# 125. lþ. 102.14 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[11:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal minnir stundum á ónefndan fjármálaráðherra í nágrannaríki sem að sögn starfsbræðra spurði alltaf sömu spurningarinnar þegar rætt var um breytingar: ,,Hver á að borga?`` Það er auðvitað ágætt að hafa einhverja sem spyrja: ,,Hver á að borga?`` Það er gott að hafa menn sem sýna fyrirtækjunum umhyggju. En ég leyfi mér að halda því fram að það sé mikil oftúlkun að láta sér detta í hug að þessi tiltölulega mjög litla vörn sem verið er að setja með þessu lagaákvæði fyrir því að fólki sé sagt upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar sem það ber, að í henni sé fólginn þvílíkur útgjaldaauki fyrir atvinnulífið að það geti jafnvel leitt af sér fjöldaatvinnuleysi eins og hv. þm. sagði.

Ég held líka að sú kenning að beittasta vopnið við að útrýma atvinnuleysi sé að innleiða frumskógarlögmál á vinnumarkaðnum sé sem betur fer víða að afsannast um þessar mundir. Vissulega gengur vel í amerísku atvinnulífi. En það hefur líka tekist að vinna bug á atvinnuleysi eða stórminnka það, t.d. annars staðar á Norðurlöndunum. Ég nefni sem dæmi Danmörku og Noreg, og hefur þó í engu verið dregið úr réttindum starfsmanna í því sambandi.

Í Evrópu eru aðrar hefðir í þessum efnum svo ekki sé minnst t.d. á Japan þar sem fyrirtækin annast mjög vel um starfsmenn sína eftir að þau hafa einu sinni ráðið þá og sjá gjarnan um hag þeirra alveg til lífstíðar.

Á Íslandi er staðan hins vegar sú eða hefur verið að réttindi starfsmanna eru mjög takmörkuð. Þeim hefur verið hægt að segja upp og er hægt að segja upp án þess að gefa nokkrar skýringar. Hér er eingöngu verið að taka mjög lítið skref að mínu mati. Þetta er lítils háttar réttarbót eða vörn starfsmanna fyrir því að þeir séu meðhöndlaðir alfarið að geðþótta vinnuveitenda.