Þjóðlendur

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 11:59:36 (6638)

2000-04-26 11:59:36# 125. lþ. 102.16 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[11:59]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði til að beina spurningu til hv. frsm. um skattalegan hluta þessa frv. í 1. gr. þess. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þjóðlendur skulu undanþegnar öllum sköttum og gjöldum.``

Mig langar til að spyrja hv. þm. hvort ekki hafi verið sett út á þetta í umsögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og hvort fulltrúar sem mættu á fund nefndarinnar hafi kvartað undan því að vera falið að skipuleggja allar þjóðlendur en geta ekki lagt skipulagsgjöld á viðkomandi svæði eins og á önnur svæði. Hafa þessir fulltrúar frá samtökum sveitarfélaganna hafi ekki kvartað undan því?

[12:00]

Enn fremur vil ég spyrja hv. þm. hvort nefndin hafi rætt almennt um það hvað þýðir að veita slíka almenna undanþágu frá öllum sköttum og gjöldum. Hvernig t.d. samkeppnisstaða landsins breytist þar sem öðrum megin í dalnum er þúfa sem þarf að borga af skatta og gjöld, eignarskatta og fasteignagjöld, skipulagsgjald o.s.frv., og hinum megin í dalnum er þúfa sem ekki þarf að greiða neitt af. Segjum að einhver kaupi eða byggi sumarbústað eða eitthvað slíkt á þessum þúfum, hver er samkeppnisstaða milli þeirra aðila þar sem annar er algjörlega undanþeginn gjöldum af landi því sem hann byggir á? Hefur nefndin rætt um þann þátt í þessu ákvæði?