Þjóðlendur

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 12:01:30 (6639)

2000-04-26 12:01:30# 125. lþ. 102.16 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[12:01]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt sem kemur fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals að í 1. gr. kemur skýrt fram að þjóðlendurnar skuli undanþegnar öllum gjöldum og sköttum. Þetta þótti eðlileg ráðstöfun þegar litið var til þess að hið opinbera hefur engar slíkar tekjur haft af þeim svæðum hingað til, hvorki ríki né sveitarfélög, það kemur alveg skýrt fram.

Einnig kemur skýrt fram í grg. með frv. að slík undanþága nær eingöngu til landsvæðanna, eingöngu til landsins sem slíks en ekki til þeirra mannvirkja eða mannvirkjagerðar sem þeim kunna að fylgja, þannig að þau gjöld verða eftir sem áður.