Þjóðlendur

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 12:02:27 (6640)

2000-04-26 12:02:27# 125. lþ. 102.16 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[12:02]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í tengslum við þetta frv. á sínum tíma var skylda sveitarfélaga víkkuð út til þess að skipuleggja allt hálendið og olli það miklum deilum. Það er ný kvöð á sveitarfélögin og ég hélt að þeim yrði séð fyrir tekjum til að standa straum af því með því að leggja skipulagsgjald á það landsvæði sem þeir ætluðu að skipuleggja. Eða hvaðan eiga tekjurnar að koma til þess?

Enn fremur finnst mér óeðlilegt að veita svona almenna undanþágu frá öllum sköttum og gjöldum vegna þess að ég er á þeirri skoðun að ríkið eigi að borga skatta nákvæmlega eins og allir aðrir þó að þeir skattar renni í hring, inn til ríkisins og út aftur, til þess að sýna hver kostnaður ríkisins er af viðkomandi svæði umfram önnur svæði og til þess að sýna hvernig þau svæði eða það sem veitt er skattfrelsi af stendur sig í samkeppni við einkaaðila og einkaland sem er skattað að fullu. Þess vegna hélt ég að hv. nefnd hefði rætt þetta almennt séð hvað þýðir að veita slíkt skattfrelsi.

Og ég ítreka spurninguna: Hvaðan eiga sveitarfélögin að fá tekjurnar til að standa undir skipulagningu hálendisins og þjóðlendnanna þar með ef ekki koma til tekjur?