Þjóðlendur

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 12:15:32 (6648)

2000-04-26 12:15:32# 125. lþ. 102.16 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[12:15]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Þetta frv. er til breytinga á í rauninni nýsettum lög, lögum sem voru sett árið 1998 og áttu fyrst að koma til framkvæmda nú á þessu ári. Það kom strax í ljós að lögin voru engan veginn einhlít í framkvæmd og þótti því ráð að flytja strax í upphafi tillögur til breytinga á ákveðnum þáttum þeirra.

Herra forseti. Í 1. gr. laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, segir, með leyfi forseta:

,,Eignarland: Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.``

En þjóðlendur, sem þessi lög eiga hins vegar að taka til eru landsvæði utan eignarlanda. Og ég legg áherslu á þetta, herra forseti:

,,Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda`` --- stendur skýrt í lögunum --- ,,þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.``

Herra forseti. Um þessa skilgreiningu laganna er deilt, þ.e. hvernig farið er af stað með hana í framkvæmd.

Fjmrh. er ætlað samkvæmt lögunum að setja fram kröfur fyrir hönd ríkisins eða skilgreina þær kröfur sem ríkið vill gera til þess að land megi kallast þjóðlenda. Fjmrh. fékk sér til aðstoðar nefnd sem hefur gengið undir nafninu kröfunefnd. Hún hefur skilgreint eða sett fram kröfur ríkisins. Strax og kröfunefndin lagði fram kröfur ríkisins í Árnessýslu kom í ljós að þær voru algjörlega úr takti við það sem bæði landeigendur töldu sig eiga von á samkvæmt lögunum og líka við það sem alþingismenn töldu sig vera að samþykkja í lögunum árið 1998. Þó að þá hafi verið lagt fram í skyndingu frv. það sem hér er til umræðu til þess að bæta úr meintum ágöllum laganna, var samt alveg ljóst að þær kröfur og þau vinnubrögð sem þarna var farið af stað með voru í engu samræmi við það sem löggjafinn bjóst við, þ.e. þingmenn og ráðherrar sem hafa tjáð sig um málið, og svo landeigendur.

Það er í sjálfu sér mjög alvarlegt mál að framkvæmd laga skuli ekki vera í takt við meintan tilgang þeirra. Ég leyfi mér, herra forseti, að vísa einmitt til ályktana um það. Ég vil leyfa mér að vísa til ályktunar búnaðarþings sem fékk málið til umfjöllunar á liðnum vetri. Þar eru gerðar mjög alvarlegar athugasemdir við lögin eins og þau birtast. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég vitna til hennar:

,,Búnaðarþing 2000 beinir því til Alþingis og ríkisstjórnar að:

a) Lögfest verði að ríkið hafi sönnunarbyrði fyrir eignarétti á landi, landsréttindum og hlunnindum.

b) Alþingi setji inn ákvæði í lög um þjóðlendur, sem kveði á um að þar sem fyrir liggja staðfest landamerki samkvæmt lögum þar um og þinglýsingar á tilteknum svæðum þá standi það. Þau lönd geti aldrei orðið þjóðlendur.``

Þetta er í samræmi við skilgreiningu hugtaksins þjóðlendu í 1. gr. laganna

,,c)Kröfur ríkisins í lönd í Árnessýslu verði dregnar til baka og endurskoðaðar, og verði aldrei gerð krafa um að eignarlönd, þar sem fyrir liggja staðfest landamerki, verði þjóðlendur.

d) Unnið verði að því að fjármálaráðherra leggi fram rökstuddar kröfur ríkisins til þjóðlenda fyrir landið allt, áður en óbyggðanefnd tekur einstök svæði til úrskurðar. Óbyggðanefnd leggi síðan fram áætlun um í hvaða röð verður fjallað um einstök landsvæði og á hvaða tíma.``

Í þessari ályktun sem var send hv. Alþingi og allshn. er einmitt kjarni þess máls sem tekist er á um í framkvæmdinni. Það var sátt um að þjóðlendur tækju til landa sem væru ekki innan skilgreindra eignarmarka. En það var aldrei meiningin að fara að takast á um land og lönd sem voru innan þinglýstra eignarmarka.

Eins og kröfugerðin hefur birst nú mega einstaka jarðir í Árnessýslu þola að ríkið geri kröfu til allt að 98% af landinu, þ.e. að ríkið eigi það land og aðeins sé um afnotarétt að ræða. Þetta sýnir á hvaða spori þessi kröfugerð er.

Á mjög fjölmennum fundi á Aratungu 25. janúar sl. var farið yfir þessi mál, bæði kröfugerð ríkisins og síðan hvernig landeigendur þar mátu sína stöðu. Líka var reifuð málsmeðferð eða farið ítarlega yfir málsmeðferðina. Þá kom einmitt fram að þarna er verið að gera kröfur í eignarlönd með aldagömlum þinglýstum eignarheimildum fyrir, þinglýstum landamerkjum. Þarna var vitnað til þess að seint á síðustu öld eða rétt um 1880--1882 að mig minnir voru einmitt sett lög hér á Alþingi sem skyldu taka af allan vafa og öll tvímæli um réttarstöðu eignarheimilda, bæði landamerkja og þinglýstra eignarheimilda, einmitt til þess að eyða þeim sama vafa og hér var verið að takast á um. En í þeirri kröfugerð sem nú hefur verið fram sett eru þessar þinglýstu heimildir, þessi lagalegi gjörningur Alþingis þá, dreginn í efa.

Þó svo að á þessum fundi og víðar í umfjöllun um þetta mál hafi komið fram að þetta sé aðeins kröfugerð og ríkinu beri að setja fram ýtrustu kröfur, en síðan eigi eftir að kanna hvaða meðferð málið fær hjá óbyggðanefnd og e.t.v. Hæstarétti, þá er svona löguð röksemd ekki samboðin stjórnvaldi, ríkisstjórnarvaldi, ríkisstjórn, Alþingi og framkvæmdarvaldi, þ.e. að hægt sé setja fram bara eitthvað og eitthvað og síðan meira eða minna gengið út frá því eða þess vænst að sé ekki fótur fyrir því. Herra forseti. Mér er sem ég sjái upplitið á framkvæmdarvaldinu og hæstv. fjmrh. sem fer með þetta mál fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, á ábyrgð hennar og í umboði, ef þessi kröfugerð sem hæstv. fjmrh. er ábyrgur fyrir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, er að meira eða minna leyti dæmd ómerk. Hvernig vinnubrögð eru það?

Slíkur málflutningur, að þetta séu bara kröfur, ýtrustu kröfur og svo fái þetta faglega umfjöllun og þar sé vænst að þetta allt saman sé brotið niður meira eða minna, er ekki samboðinn framkvæmdarvaldi Íslands. Ég er viss um að upplitið á hæstv. ríkisstjórninni yrði ekki beisið ef þessum körfum yrði að meiri hluta vísað til baka. Kröfurnar eins og þær núna liggja fyrir hljóta að vera að meira eða minna leyti stefna ríkisstjórnarinnar í þessum landamálum. Það er óeðlilegt að skoða og hlusta á þessar kröfur í öðru ljósi. Það er ekkert málþing í einhverjum skóla sem er að setja fram kröfur sínar.

Herra forseti. Ég leyfi mér líka að nefna það hér, af því að hæstv. landbrh. er viðstaddur umræðuna, að hann hefur tekið djúpt í árinni einmitt í þessu máli, a.m.k. þegar hann hefur fengið að tala frjálst, eins og á fundum á Suðurlandi þar sem enginn var að setja á hann neinar munnherpur. Þar talaði hann frjálst og talaði um þennan mótmælafund, þennan geysilega fjölmenna og sterka fund í Aratungu sem sigur bænda í málinu. Síðan reið hann til Alþingis aftur.

Herra forseti. Ég vil nú gefa hæstv. landbrh. tækifæri til þess hér að fara með sinn sterka og öfluga málflutning fyrir íslenska landeigendur, íslenska bændur, hingað inn á Alþingi. Ég minni á hinn mikla sigur sunnlenskra bænda. Hann var þar og þeir kepptust við, hann og 1. þm. Suðurl. --- er það ekki rétt hjá mér, herra forseti, að það sé Árni Johnsen --- hann kepptist líka við og gaf hástemmdar yfirlýsingar, en þingmenn norðan heiða sem mættu þarna héldu sig svona meira á jörðinni og biðu eftir afrekum þeirra frekar en orðum. En mér fannst þetta mjög góður fundur.

Herra forseti. Hæstv. landbrh. gefst líka tækifæri til þess hér að láta í ljós eða endurtaka það sem haft er eftir honum í fjölmiðlum. Ég minni á viðtal í Ríkisútvarpinu frá 13. mars sl. Þar sagði hæstv. landbrh. Guðni Ágústsson, og það er bein tilvitnun, með leyfi forseta:

,,Mér finnst að kröfugerðarnefnd sú sem fjármálaráðherra skipaði í málinu hafi gengið í allt aðra átt heldur en ætlunin var með lögunum eins og hún hefur teiknað upp verkin.``

Svo er önnur bein tilvitnun í hæstv. landbrh. sem hefur oft verið gunnreifur í málinu utan þings, með leyfi forseta:

,,Ja, það er nú komið frumvarp sem breytir ýmsu hvað þetta varðar. En þarna hafa menn ekki bakkað og ég veit ekki hvernig það fer.``

Hins vegar á hæstv. ráðherra trú:

,,Ég trúi því reyndar enn að þegar að óbyggðanefndin úrskurðar að þá muni hún vinna í anda laganna.``

En af hverju er ekki þegar í stað unnið í anda laganna? Og af hverju þurfum við að bíða í einhverri trú og von og leggjast á bæn um að einhverjir í stjórnsýslunni vinni frekar í anda laganna en eitthvert annað stjórnvald? Það er þá vonin og trúin. Ég skal ekki gera lítið úr trú manna því að trúin getur flutt fjöll. En til þess verður maður að hafa vilja til að fylgja henni eftir, herra forseti. (SJS: Spurning hvort hún geti flutt landamæri.) Já, það var einmitt það sem ég ætlaði að koma inn á.

[12:30]

Herra forseti. Ég vil ítrekað gefa hæstv. landbrh. tækifæri til að árétta það sem enn er haft eftir honum, með leyfi forseta:

,,Þetta hefur verið rætt í ríkisstjórninni og ég held að menn séu nokkuð sammála þar um hver andi laganna var. Það er ekki ásetningur eða ætlan ríkisstjórnar að fara að taka sannanlegt eignarland af mönnum.`` --- Sannanlegt? Ja, hvað er nú orðið sannanlegt þegar löglegir gjörningar, aldagamlir og nýir, standa ekki?

Herra forseti. Ég vil gefa hæstv. landbrh. tækifæri til að árétta það hvað honum hefur orðið ágengt í að bera þessi mál og sjónarmið sín inn í ríkisstjórnina, m.a. í framhaldi af hinum hástemmdu yfirlýsingum á þessum ágæta fundi í Aratungu þar sem sigurinn var básúnaður. Í útvarpi 17. mars var haft orðrétt eftir hæstv. landbrh., með leyfi forseta:

,,Mér finnst það óásættanlegt að fjármálaráðherra skipi alla nefndina`` --- hann er að tala um kröfugerðarnefndina --- ,,og í nefndinni séu skipaðir menn sem hafa staðið í illdeilum við bændur árum saman til að reyna að hafa af þeim land.`` Og bætti við að nú hefði hann sagt meira en hann vildi segja. --- Og nú hef ég kannski líka sagt meira en ég vildi segja.

Herra forseti. Ég er að hvetja hæstv. landbrh. til að fylgja þessum málum eftir af þeim dug og krafti sem hann hefur boðað og við viljum fá að sjá í verki, ekki bara að bíða í von og trú.

Ég vil líka, herra forseti, benda á að þetta er ekki bara bundið við einstaka hæstv. ráðherra og hv. þm. Ég vitnaði áðan til athugasemda sem búnaðarþing kom á framfæri. Ég vil fá að vitna í yfirlýsingu aðalfundar Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi, sem var haldinn á Kirkjubæjarklaustri 17.--18. mars 2000, með leyfi herra forseta:

,,Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi telur að kröfunefnd ríkisins hafi farið offari í kröfum sínum á hendur landeigendum í Árnessýslu. Markmið þjóðlendulaganna, þ.e. laga nr. 58/1998, er að skera úr um eignarhald á landi sem enginn geti sannað eignarrétt sinn á en með kröfugerð sinni gengur ríkisvaldið þvert á þinglýstar eignarheimildir og starfar þannig alls ekki í anda laganna. Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi skorar því á fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins að draga kröfulínu ríkisins út fyrir þinglýstar eignarheimildir þannig að óbyggðanefnd geti tekið til við að úrskurða um þau svæði sem henni er ætlað að fjalla um. Jafnframt leggur fundurinn til að þjóðlendunefndin verði endurskipuð og fleiri ráðuneyti komi að skipan nefndarinnar.``

Herra forseti. Er þetta ekki alveg í takt við yfirlýsingar hæstv. landbrh.?

Ég vil líka, herra forseti, minna á afar fjölmennan fund sem haldinn var í Víðihlíð í Vestur-Húnavatnssýslu 27. mars þar sem þessi mál voru líka til umræðu, með leyfi forseta:

,,Sameiginlegur fundur sveitarstjórna, landbúnaðarnefnda og stjórnar búnaðarsambanda á Norðurlandi vestra, haldinn í Víðihlíð í Vestur-Húnavatnssýslu 27. mars 2000, mótmælir harðlega þeim kröfum til eignarréttar á landi sem fram eru komnar af hálfu fulltrúa ríkisins á grundvelli laga um þjóðlendur. Fundurinn lýsir furðu sinni á því að fram skuli vera komnar kröfur um að þinglýst eignarlönd bænda, sveitar- og upprekstrarfélaga verði að hluta til eða að öllu leyti gerðar að þjóðlöndum og þar með eign ríkisins. Fundurinn krefst þess að þessar kröfur verði þegar í stað dregnar til baka og virtur verði eignarréttur aðila á því landi sem þinglýsingar og skráð landamerki taka til. Þá gerir fundurinn þá skýlausu kröfu til ríkisstjórnar og Alþingis að frekari aðgerðum um kröfur til þjóðlendna í Árnessýslu verði þegar í stað frestað þar til fyrir liggi heildarkröfur ríkisins til þjóðlendna yfir landið í heild þannig að heildarsýn fáist um þessa kröfugerð þess opinbera á hendur bændum og öðrum landeigendum.``

Þetta er meginþunginn í ályktun þessa fjölmenna fundar, þeirra sem eru í forsvari bæði fyrir sveitarstjórnir og landbúnaðarnefndir og búnaðarsambönd á þessu svæði. Enn og aftur er hvatt til að einmitt hæstv. ráðherrar og alþingismenn, sem hafa látið málið til sín taka utan þings í orðum, fylgi því eftir með gjörðum inni á Alþingi.

Herra forseti. Það er því alveg ljóst að framkvæmd þessara laga er alls ekki í neinni sátt. Hún er hvorki í sátt að því er virðist við einstaka ráðherra í hæstv. ríkisstjórn né í sátt við skilning allmargra þingmanna sem hafa tjáð sig um málið. Hún virðist í engri sátt við þá landeigendur sem hafa einmitt tjáð sig um málið eða eru þegar komnir inn í þær málaflækjur sem eru farnar af stað. Það var yfirlýst við setningu þessara laga að ekki væri verið að efna til stríðs eða illdeilna en mér sýnist, herra forseti, að það sé að takast að efna til allsherjardeilna og átaka á milli landeigenda og landumráðenda og ríkisins í þessu máli og kannski mest fyrir óvandaða vinnu og óvönduð vinnubrögð. Hafi lögin um þjóðlendur einhvern veginn skort skýrari ákvæði um verksvið framkvæmdarvaldsins, um verksvið fjmrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, um verksvið óbyggðanefndar, þá ber að endurskoða það, því tekist er á um verksviðið. Það er gott og blessað að setja inn í lögin ákvæði um kostnað, það er mjög fallega hugsað og fallega gert að ríkið skuli bera kostnað af málarekstri eða sönnunarvinnunni í upphafi en málið snýst bara ekki um það, málið snýst um stöðu eignarheimilda.

Ég vil láta í ljós þá skoðun mína, herra forseti, að sé ástæða, sé lagaleg forsenda og séu lagaleg rök fyrir því að vefengja eignarheimildir jarða og landa, þó svo þau eigi lönd að einhverju hálendi eða ám, séu rök og séu forsendur fyrir því að 95 eða 98% af jörðinni Úthlíð eigi að teljast þjóðlenda og það liggi við að mörkin fari í gegnum íbúðarhúsið, hvar eru þá eignarlönd? Engin rök eru fyrir því að segja að eignarhaldssamningar og landamerki fyrir jörð sem á land að fjalli eða slíkt séu nokkuð veikari eða sterkari en eignarhaldsheimildir fyrir landi hvar sem er á landinu, því deilt er um hina réttarfarslegu og löglegu stöðu þeirra málsskjala sem fyrir hendi eru. Ekki er verið að deila um landið sjálft, ég bið, herra forseti, þingheim að átta sig á því, ekki er verið að takast á um landið sem var skilningur margra varðandi setningu þjóðlendulaganna, að væri landið utan eignarlanda. Nei, málið snýst núna um það að verið er að takast á um réttarfarslega stöðu eignarheimilda og landamerkja og þeir samningar, þeir lagalegu gjörningar eru ekkert formlegri eða betri hvort þeir eru á Álftanesi eða í Bessastaðahreppi, á Reykjanesi eða Kjalarnesi, í nágrenni Reykjavíkur eða hvar sem er á landinu. Ekki er hægt að láta bjóða sér það að landamerki og eignarhaldssamningar njóti ekki sama réttar og sama vafa hvar sem er á landinu. Deilt er um réttarfarsstöðu þeirra en ekki landið sjálft.

Herra forseti. Það er þetta sem mér finnst vera hinn alvarlegi hlutur í þessu máli öllu. Úr því að svo bratt er af stað farið í þessu máli, eins og kröfugerð fjmrh. sýnir fyrir hönd ríkisins hefði verið hreinlegra og eðlilegra og skiljanlegra frá sjónarmiði held ég allra að ríkið gerði bara kröfu um allt Ísland og væri ekkert að skipta því niður í búta og velja einstaka aðila út úr til að verja eignarrétt sinn. Það ætti bara að taka allt Ísland fyrir og fara í gegnum það með sama hætti og verið er að fara í gegnum eignarlönd þeirra sem eiga lönd í Árnessýslu. Þá kæmist á hreint hvort eignarhaldssamningar, hvort sem þeir eru á Seltjarnarnesi eða í Biskupstungum eða í Skagafirði, standist þær kröfur sem þarna er verið að gera um lagalega stöðu þessara lögformlegu gjörninga. Það hefði verið hreinlegt.

Ég er ekki í sjálfu sér fylgjandi því að skrá eigi allt land sem þjóðareign en ekki má mismuna þegnum þjóðfélagsins varðandi lagalega stöðu þeirra eða eignarheimildir sem þeir hafa á sinni hendi. Það er ósanngjarnt. Það, herra forseti, er verið að gera í framkvæmd þessara laga. Verið er að mismuna mönnum eftir því hvar þeir búa, hvar land þeirra er staðsett, a.m.k. eins og það birtist, það er verið að mismuna þeim í kröfugerð ríkisins á hendur landi. Látum þá það sama ganga yfir alla þegna þjóðfélagsins, yfir alla landeigendur hvar sem þeir eru, hvort sem þeir eru til sjávar eða sveita, inn til dala eða út til stranda. Þá væri einhver rökvísi í þessu.

Herra forseti. Sé það ekki gert væri ástæða til að Alþingi kanni að setja inn í lögin um þjóðlendur skýrt ákvæði um að þinglýst landamerki og þinglýstar eignir standi og það eigi ekki að vera að elta upp hinn vefengda rétt því eignarnámsheimildir eru hvort sem er fyrir hendi. Ríkið getur meira að segja heimilað sveitarfélögum og opinberum aðilum að taka land eignarnámi þegar almenningsheill krefst þess og sú heimild er gild og er þá hægt að beita henni þegar almenningsheill varðar, bæði í takmörkuðu og ótakmörkuðu tilliti. Réttur almennings og okkar allra og ríkisins er því fyrir hendi og hægt er að beita honum.

[12:45]

Herra forseti. Öll rök eru fyrir því að frekari framkvæmd, aðgerðum og kröfugerð af hálfu ríkisins, verði slegið á frest á meðan verið er að vinna upp nýja aðferðafræði, nýjar verklagsreglur sem njóta trausts og trúnaðar þeirra sem að málinu eiga að koma. Það er óhugsandi að ætla sér að þetta mál gangi þannig áfram að tekinn verði landshluti eftir landshluta og efnt þar til ... (HjálmJ: Óvinafagnaðar.) Óvinafagnaðar, já. Ég tek undir það með hv. þm. Hjálmari Jónssyni. Það var ekki tilgangur laganna. Því erum við þá að hleypa framkvæmdarvaldinu út í óvinafagnað sem ekki var ætlun löggjafans að efnt yrði til?

Það er ástæða til að skoða vandlega hvert á að vera verksvið þessar kröfugerðarnefndar. Hvert á að vera verksvið þessarar óbyggðanefndar? Ég minnist þess, herra forseti, að fulltrúar óbyggðanefndar komu á fund allshn. sem ég sat. Aðspurðum fannst þeim ekkert óeðlilegt að taka að sér að vera umboðsmenn alls landsins, ekki bara óbyggða. Enda, hvað eru óbyggðir? Mér finnst þetta nafn á óbyggðanefnd, sem farin er að takast á um land í byggð, vera rangnefni. Hreint rangnefni. (Landbrh.: Óbyggðanefnd er ekki að takast á um neitt.) Nei, en henni er falið að úrskurða um málefni. Hvað á hún að gera ef hún fær það verkefni að úrskurða um land í byggð? Hún á bara að vera úti í óbyggðum og halda sig þar, samkvæmt orðanna hljóðan og nafni hennar. Hún á ekki að úrskurða um land í byggð því hún er óbyggðanefnd. Hún ætti því aðeins að fjalla um lönd í óbyggðum en ekki lönd í byggð, það væri rökrétt.

Herra forseti. Þessi lög eru greinilega ekki vel samin. Þau bjóða upp á rangtúlkanir. Þau bjóða upp á að framkvæmdarvaldinu finnist það geta farið þannig fram að nánast enginn þeirra sem þar kemur að ber traust og trúnað til þeirra vinnubragða. Því skora ég á hæstv. landbrh., sem verður að segja til hróss að er þó sá ráðherra sem hefur tekið hvað dýpst í árinni varðandi þetta mál, að fylgja þessu eftir og láta jafnt yfir alla landeigendur ganga óháð því hvort þeir búa í Árnessýslu, í Skagafjarðarsýslu, í Bessastaðahreppi, á Reykjanesi eða hvar sem er. Ég skora á hann að stöðva þetta mál og ríkið skilgreini síðan kröfur sínar í heilu lagi fyrir allt landið og fari þá undir friðarmerki til þess verks.