Þjóðlendur

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 12:51:44 (6650)

2000-04-26 12:51:44# 125. lþ. 102.16 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[12:51]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég ítreka að Alþingi setur lög. Dómar gera það ekki. Falli dómar þannig að það er ekki í samræmi við sýn eða vilja meginþorra þjóðarinnar þá þarf Alþingi að setja lög, en ekki að bíða bara eftir fleiri dómum.

Hver trúir því að 95% eða 98% af landi jarðar Úthlíðar í Biskupstungum sé þjóðlenda? Hver trúir því? Því trúir heldur enginn að sú krafa sé sett fram af einhverju kæruleysi. Því mun enginn trúa að fjmrh. eða kröfunefnd í ábyrgð fjmrh. setji fram þá körfu bara að gamni sínu. Enginn getur reynt að fá landslýð til að trúa því. Þetta er stefna framkvæmdarvaldsins eins og hún birtist.

Ég er sammála hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um að eignarhaldsheimildir geti sjálfsagt verið vefengjanlegar. En þær eru jafnvefengjanlegar hvar sem er á landinu. Á það er vil ég leggja áherslu. Það hlýtur að verða að gera sömu kröfur til eignarhaldsheimilda hvar sem er á landinu og ríkinu ber þá jafnmikil skylda til að kanna réttarstöðu þeirra eignarheimilda og eignarheimilda einstakra landeigenda í Árnessýslu. Á það er vil ég einmitt leggja áherslu. Eignarhaldið og krafa til rétts eignarhalds verður að vera sú sama hvar sem er á landinu.