Þjóðlendur

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 12:53:31 (6651)

2000-04-26 12:53:31# 125. lþ. 102.16 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[12:53]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að hv. þm. Jón Bjarnason gerir sér grein fyrir hlutverki Alþingis, en það er einmitt löggjafarvaldið.

Honum hefur verið tíðrætt um að ríkið ætti að gera kröfu til alls landsins í heild. Við ræddum þetta mál líka í allshn. og komumst að þeirri niðurstöðu að það væri bæði viðkvæmt og of umfangsmikið að gera körfu til alls landsins í heild, alls á einu bretti. Því er um leið ákveðið hagræði í því að taka einn landshluta fyrir í einu. Það getur orðið fordæmisgefandi og um leið samræmt kröfur ríkisins til síðari landsvæða. Ríkið kemur því væntanlega til með að byggja kröfur sínar á því sem kemur út úr þeim kröfum sem viðhafðar eru á Suðurlandi.

Ég vil ítreka þá skoðun mína sem ég gat um áðan að kröfugerðin varðandi Suðurland er mjög víðfeðm. Það kom líka fram á fundum nefndarinnar að nokkuð ljóst sé að kröfugerð ríkisins á ákveðnum landsvæðum verði hnekkt. Henni verður breytt. En það er ekki okkar að segja til um það.

Vissulega setjum við lögin. En lögin eru grundvöllur þess að óbyggðanefndin í þessu tilviki og síðan dómstólar geti dæmt á grundvelli þeirra, að þar verði tekið tillit til þeirra laga sem við setjum hér.

Einnig mætti segja að með setningu þjóðlendulaga á sínum tíma, fyrir rúmum tveimur árum hafi verið brugðist við þeirri réttaróvissu sem ríkti m.a. í ljósi síðara Landmannaafréttardómsins þar sem sagt var að ríkið ætti ekki beinan eignarrétt en gæti gert tilkall til hans. Það þurfti að koma til lagasetning til að bregðast við þeim dómi. Þess vegna erum við að ræða þessi mál hér í dag.