Þjóðlendur

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 12:55:41 (6652)

2000-04-26 12:55:41# 125. lþ. 102.16 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[12:55]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ekki rétt að blanda viðkvæmni inn í þessa umræðu og þess vegna sé betra að taka landið fyrir í bútum, höggva það niður í búta. Þetta er réttarfarslegt mál og ef það er svo illa unnið í byrjun að menn þurfi að þreifa fyrir sér í kjölfarið þá er bara eitthvað að lögunum. Á löggjafinn að þurfa að bíða eftir einhverjum dómum í svona stóru máli? Löggjafinn á að setja reglur um hvernig svona lagað skuli unnið. Hann gat sett sér það mark að land, t.d. í 400 til 600 metra hæð yfir sjávarmáli yrði þjóðlenda eða einhver önnur skýr mörk. Þannig að fram kæmi vilji löggjafans á því hvað gerði land að þjóðlendu. Hann væri ekki að velta fyrir sér eignarheimildum þó að það sé mál út af fyrir sig. Eignarheimildirnar eru þær sömu, réttarstaða þeirra er sú sama hvar sem er á landinu og engin ástæða til að taka ákveðinn hóp manna út og þreyta með því að takast á um eignarheimildir þeirra á landinu.

Málið snýst ekki um það. Málið snýst um þjóðlendur, það sem Alþingi taldi sig sammála um að ættu að vera þjóðlendur, en ekki stríð um eignarheimildir. Það vil ég hér ítreka. Framkvæmd ríkisstjórnarinnar á þessu máli stríðir gegn þeirri sýn sem allmargir þingmenn og aðrir landsmenn hafa haft á þessu máli og báru væntingar til.