Þjóðlendur

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 12:58:18 (6653)

2000-04-26 12:58:18# 125. lþ. 102.16 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[12:58]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil staðfesta það hér að allt sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði um málflutning minn er satt og rétt. Hann hallaði hvergi réttu máli fremur en Brennu-Flosi í höll jarlsins þegar hann sagði frá brennumálunum. Málflutningur hans hér hefur því verið réttur. Ég stend við hvert orð sem ég hef sagt í þeim efnum.

Ég tel að nefnd hæstv. fjmrh. hafi því miður sett málið í nokkurt uppnám á fyrsta reit og tel að hyggilegra hefði verið að skoða hvort þessi nefnd ætti ekki að vera öðruvísi skipuð. Hún kæmi þá frá þremur ráðuneytum, t.d. einn til viðbótar frá landbrn. og annar frá félmrn., til að fá víðari sýn.

Hitt er annað mál að hv. þm. Jón Bjarnason gerir hér mikið úr málinu, telur að það sé komið á lokareit og að hér hafi land verið tekið af bændum. Það er alrangt. Hann vitnaði í þau orð mín að óbyggðanefndin hefði miklar skyldur. Hún hefur ekki bara skyldur til að úrskurða. Hún hefur líka skyldur til að setjast niður og leita sátta milli aðila. Hún hefur líka skyldur til að skoða öll þau gögn sem fyrir liggja í málinu, t.d. uppgjöri sem fór fram einhvern tíma á milli 1880 og 1890. Hún hlýtur að skoða þinglýst eignarmörk. Á þeirri nefnd hvílir því mikil skylda. Hún hlýtur í meginatriðum að hrekja margt af því sem kröfugerðarnefnd fjmrh. hefur sett fram.

Nú þýðir ekki fyrir hv. þm. Jón Bjarnason að tala um kröfugerðarnefnd hæstv. fjmrh. sem nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í: Jú, jú.) Hv. þm. veit það jafn vel og foringi hans sem nú situr hér einfættur, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að ríkisstjórn er ekki fjölskipað stjórnvald. Hver ráðherra fer með sinn málaflokk. Þetta var niðurstaða hæstv. fjmrh. Ég hef gagnrýnt hana en ég trúi því enn að óbyggðanefndin, sem mun nú fjalla um þessi mál, muni komast að skynsamlegri niðurstöðu í þessu máli og að friður verði um það í framtíðinni. (Gripið fram í.) En hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem setið hefur í ríkisstjórn veit að hann bar ekki ábyrgð á gjörð annarra ráðherra. Hann bar ábyrgð á sínum gjörðum.

Hæstv. forseti. Ég fagna því að vinstri grænir sem ég hélt að væru ríkiskapítalistar vilja líka verja eignarrétt manna. Ég hélt að þeir væru flokkur sem vildi að ríkið ætti allt landið. (SJS: Það er nú Sjálfstfl. sem vill það.)