Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 15:10:45 (6667)

2000-04-26 15:10:45# 125. lþ. 102.94 fundur 463#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[15:10]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Frá því að lög um svokallað kvótakerfi voru sett árið 1983 hefur þeim verið breytt hér á hv. Alþingi 17 sinnum, eða að meðaltali einu sinni á ári frá því að upphaflegu lögin voru sett, með þátttöku í rauninni fulltrúa allra þeirra flokka sem sitja á Alþingi og sitja sumir þeirra enn á þingi þó að þeir hafi tekið sér hlé. Hvað þýðir þetta, herra forseti? Af þessu má draga margvíslegar ályktanir. Meðal annars þýðir þetta að menn hafa ekki treyst sér til að koma fram með aðra heildstæða lausn en þau grundvallarsjónarmið sem núv. lög um stjórn fiskveiða byggja á og hins vegar hafa menn verið að bæta þau mannanna verk sem lagasetning er.

Um flestar breytingarnar hafa verið deilur og hefur mönnum sýnst sitt hvað um þær, en ég hygg að þær deilur séu í sjálfu sér ekki bundnar við kvótakerfið svokallaða og eins og menn þekkja væntanlega af Íslandssögunni, þá hafa deilur um sjávarútveg ávallt fylgt íslensku þjóðinni frá því menn hófu hér útræði og nægir að vísa þar til ágætrar lýsingar hjá nóbelsskáldinu, í því ágæta verki sem fjallar um Sölku Völku. Þar hét útgerðarmaðurinn Bogensen og heitir.

En það hefur engin heildarlausn verið kynnt. Þær breytingar sem gerðar hafa verið alls 17 sinnum frá 1983 hafa auðvitað sína kosti og galla. Kostirnir eru þeir að menn eru með því að þróa kerfi, menn eru að laga og sníða af vankanta sem augljóslega blasa við og er liður í þróunarstarfi. Hins vegar eru gallarnir þeir að með sífelldum breytingum er verið að skapa óöryggi fyrir þá sem standa í þeim rekstri sem tengist sjávarútvegi og er óhætt að segja að þeim aðilum sem standa í sjávarútvegi er alls ekki búið mjög öruggt rekstrarumhverfi þegar aldrei er vitað hvenær næsta holskefla ríður yfir, en 17 sinnum frá 1983 segir heilmikið.

Herra forseti. Nú er dómur fallinn. Og hvað svo? Af ræðum manna virðist mega halda að nú vilji menn rjúka til, og gera hvað? Það hefur ekki komið fram hér í umræðunni hvaða heildstæðu lausnir menn hafa í þessu og meðan menn hafa ekki slíkar lausnir tel ég það fullkomið ábyrgðarleysi að ætla að rjúka til og gera eitthvað. Enda hjó ég eftir því að hv. málshefjandi fjallaði mun meira um forsendur minni hluta dómenda Hæstaréttar en meiri hlutans. Ég hjó líka eftir því að hv. málshefjandi vék sér alveg hjá því að fjalla um hlut fiskifræðinga, vísindamanna í fiskveiðiráðgjöf eða um hvernig afkastageta og tæknivæðing hefur aukist í sjávarútvegi, sem auðvitað skiptir mjög miklu máli þegar verið er að fjalla í sögulegu samhengi um þróun sjávarútvegs. Ég tek líka eftir því að engar heildarlausnir hafa komið hér til umræðu, en gallarnir þeim mun fleiri sem dregnir hafa verið fram. Jafnvel hafa komið fram vonbrigði yfir því að meiri hluti Hæstiréttar hafi komist að niðurstöðu.

Það sem skiptir mestu máli, herra forseti, er að tvær þverpólitískar nefndir eru að störfum. Og til upprifjunar, sem ekki virðist veita af, er önnur þeirra að frumkvæði hv. talsmanns Samfylkingarinnar. Þá hlýtur maður að spyrja, hvers vegna er verið að leggja til á hv. Alþingi að skipa þverpólitískar nefndir til að fjalla faglega og yfirvegað um mikilvæg mál ef þær eiga síðan ekki að fá starfsfrið? Og þá má spyrja: Meina menn ekkert með því sem hér er sagt? Það sem skiptir mestu máli er að gefa þessum nefndum starfsfrið. Við munum í fyllingu tímans fá tillögur til umfjöllunar á hv. Alþingi um þetta mikilvæga mál. Það er mikilvægt að nefndirnar fái starfsfrið til þess að skoða málið yfirvegað en ekki með upphlaupum eða taugaveiklun og æðibunugangi eða jafnvel beiskju ýmissa stjórnmálamanna. Þetta eru viðkvæm mál, þetta eru mikil hagsmunamál, þau þarf að vinna faglega og hv. Alþingi mun fá hinar þverpólitísku tillögur til umfjöllunar.