Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 15:32:14 (6671)

2000-04-26 15:32:14# 125. lþ. 102.94 fundur 463#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[15:32]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Skoðun okkar jafnaðarmanna á stjórnkerfi fiskveiða hefur verið þekkt í mörg ár. Sú skoðun hefur aldrei byggst á því hvort stjórnkerfi fiskveiða samrýmdist stjórnarskrá eða ekki. Málflutningur okkar hefur aldrei verið sá að það væri Hæstaréttar að skera úr um það.

Ég minni hins vegar hv. þingheim á að einn alþingismaður og ráðherra hafði þau orð að ef Hæstiréttur dæmdi ekki eins og hann svo gerði þá væri Íslendingum eins hollt að fara að búa sig undir að flytja sig til Kanaríeyja því að þá væri íslenska þjóðfélagið hrunið. Þetta var formaður Sjálfstfl. og forsrh. sem sagði þetta. Hafi þannig einhver flokkur og einhver stjórnmálamaður sagt að dómur Hæstaréttar í þessum efnum skipti sköpum var það formaður þess flokks sem síðasti ræðumaður tilheyrir. Hann getur sótt á eigin heimavígstöðvar til að fá skýringu á því.

Það er líka undarlegur málflutningur að sömu einstaklingar og segja að úthluta eigi lifandi auðlindum sjávar ókeypis til þeirra sem byggja rétt sinn til veiða á hefðarréttindum vegna sóknar skuli á sama tíma flytja þingmál á þessu þingi þar sem þeir segja að fyrir afurðir úr dauðum fiski, sem unnar eru á hafsbotni, skuli koma fullt gjald. Þeir sem hafa nýtt þær undanfarin ár eða jafnvel áratugi, t.d. þeir sem nýta sér skeljasandsnámur, eiga ekki að njóta neinna hefðbundinna réttinda til þess að fá að nýta þá auðlind ókeypis. Það eiga með öðrum orðum að gilda önnur lögmál um að nýta afurðir úr dauðum fiski en þau sem gilda um að nýta afurðir úr lifandi fiski.

Svona flókinn hugsanagang skil ég ekki, herra forseti. Það þarf mjög flókinn hugsanagang til að geta leitt svona rök fram.

Kjarni þessa máls hefur aldrei snúist um hvort afgreiðsla Alþingis hafi verið lögleysa, stangist á við stjórnarskrá eða eitthvað. Hæstiréttur hefur nú hreinsað þetta borð. Hann hefur ýtt því deiluefni út af borðinu svo eftir stendur aðeins eitt. Það er hið pólitíska viðfangsefni okkar alþingismanna. Við getum ekki lengur skotið okkur á bak við úrskurð Hæstaréttar, kominn eða ókominn, í því efni. Hið pólitíska deilumál sem stendur eitt eftir á borðinu er þetta: Er það í samræmi við réttarfarskennd Íslendinga, réttlætishugsjónir okkar og jafnrétti, að úthluta ókeypis aðgangi að takmarkaðri náttúruauðlind til fámenns hóps manna, ekki bara aðganginum að auðlindinni heldur ráðstöfunarrétti til að versla með hann að eigin geðþótta? Er þetta réttlátt kerfi og sanngjarnt eða ekki, frá sjónarmiði okkar sem hér erum sem aðilar að löggjafarsamkundu Íslendinga? Menn geta ekki skotið sér á bak við Hæstarétt eftir að hann hefur hreinsað borðið.

Þó fagna ég því að hann tekur af öll tvímæli um tilgang 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Hann tekur af öll tvímæli um að ákvæði 1. gr. um að þjóðin eigi þessar auðlindir sameiginlega standist. Hann tekur af öll tvímæli um að það standist líka sem sett var í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, að úthlutunin skapi ekki óafturkræft forræði eða aðstöðu til þess að menn geti krafist bóta vegna breytts kerfis.

Það er satt sem hér hefur verið sagt að það eru fáir þingmenn eftir á Alþingi Íslendinga sem komu að þessari lagasetningu. Hér stendur sá sem réð mestu um þessi tvö ákvæði í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Mér er vissulega ánægjuefni að Hæstiréttur skuli komast að þeirri niðurstöðu að bæði þessi ákvæði haldi fullu gildi þannig að Alþingi sé frjálst, án þess að eiga skaðabótakröfu yfir höfði sér, að breyta stjórnkerfi fiskveiða til jafnréttisáttar eins og þjóðin vill.

Herra forseti. Nú geta menn ekki skotið sér á bak við neinn hæstarétt. Nú verða menn að takast á við þetta pólitíska úrlausnarefni og Samfylkingin er eini þingflokkurinn sem lagt hefur til breytingar á þessu kerfi í formi frv. í þá átt sem 70% þjóðarinnar hafa viljað sjá.