Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 15:37:45 (6672)

2000-04-26 15:37:45# 125. lþ. 102.94 fundur 463#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[15:37]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég fagna út af fyrir sig tvímælalausri niðurstöðu Hæstaréttar en ég sé reyndar ekki fyrir mér hvernig hún hefði getað orðið öðruvísi. Fiskveiðistjórnarkerfið er í samræmi við stjórnarskrána og það eru engar nýjar fréttir að útgerðirnar hafi ekki öðlast varanlegan eignarrétt á veiðiheimildunum. Þær fá árlega úthlutað heimild til að draga ákveðið magn úr sjó.

Fiskstofnarnir eru eign íslensku þjóðarinnar, ekki eign útlendinga. Það er mjög ítarlega skýrt í athugasemdum um 1. gr. frv. til fiskveiðistjórnarlaga, nr. 38/1990, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru langmikilvægasta auðlind íslensku þjóðarinnar og forsenda fyrir þeirri þróun íslensks efnahagslífs og íslensks samfélags er orðið hefur á þessari öld. Það hefur kostað Íslendinga mikla baráttu að ná forræði yfir þessari auðlind. Með fyrsta málslið greinarinnar er minnt á mikilvægi þess að varðveita fullt forræði Íslendinga yfir henni. Jafnframt felst í þessu sú sjálfsagða stefnumörkun að markmiðið með stjórn fiskveiða er að nýta fiskstofnana til hagsbóta fyrir þjóðarheildina. Enda þótt frumvarpið byggi á því að fiskstofnarnir verði skynsamlegast nýttir með því að fela þeim sem daglega starfa að fiskveiðum víðtækt ákvörðunarvald í þessum efnum má það ekki verða til þess að með því verði talin myndast óafturkallanlegt og stjórnarskrárvarið forræði einstakra aðila yfir auðlindinni. Það verður að vera ákvörðunarefni löggjafans á hverjum tíma hvaða skipulag teljist best henta til að nýta þessa sameign þjóðarinnar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.``

Þannig hljóðuðu athugasemdirnar og menn þurfa ekki að velkjast í vafa hvað Alþingi var að fara. Það var verið að lýsa eign Íslendinga á fiskstofnunum og taka það fram að það væru ekki útlendingar sem ættu þá. Fiskveiðieignarhaldið er þjóðarinnar og á að verða þjóðinni, íslensku þjóðinni til sem mestra hagsbóta. Fiskveiðistjórnarkerfið hefur sannarlega orðið þjóðinni til hagsbóta. Flestir fiskstofnar hafa vaxið síðan þetta kerfi var tekið upp.

En það er ekki sátt um þetta fiskveiðistjórnarkerfi, það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því. Kannski verður aldrei sátt um það. En við höfum verið að prófa okkur áfram að breyta og þróa fiskveiðistjórnarkerfið. Þróun skattalegrar meðferðar hefur að sumu leyti orðið önnur en við gerðum ráð fyrir við setningu þessara laga. Byggðaþróun á Íslandi hefur verið mjög óheppileg og sumir vilja kenna tilflutningi fiskveiðiheimilda milli byggðarlaga um einhvern hluta vandans. Ég tel nú of mikið gert úr því en þó kann það að vera að einhverjum hluta.

Ég tel að við eigum að íhuga gaumgæfilega hvort ekki sé skynsamlegt að binda einhvern hluta veiðiheimildanna við sjávarbyggðirnar. Ég vil fylgja fordæmi Skota, þeir úthluta hluta veiðiheimilda til sveitarfélaganna. Ég tel að ef t.d. aukningu fiskveiðiheimilda væri deilt niður á sveitarfélög sjávarbyggðanna og það væri skilyrt að aflinn yrði unninn í viðkomandi byggðarlagi mundi það verða þeim sveitarfélögum sjávarbyggðanna til verulegrar styrkingar. Sveitarfélögin gætu skipst á heimildum en mættu ekki selja úr byggðinni.

Ég er hins vegar algjörlega andvígur hugmyndinni um auðlindaskatt á fiskveiðar og þá þegar af þeirri ástæðu að það er fyrst og fremst landsbyggðarskattur.