Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 15:52:55 (6675)

2000-04-26 15:52:55# 125. lþ. 102.94 fundur 463#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. þm. Sverrir Hermannsson spyr um þær málefnalegu forsendur sem lágu til grundvallar úthlutuninni 1984. Þær málefnalegu forsendur voru veiðireynsla þriggja ára þar á undan. Það er út frá þeim forsendum sem Hæstiréttur dæmir að fiskveiðistjórnin standist stjórnarskrána því þar væri um að ræða málefnalegar forsendur.

Hann segist ekki hafa getað séð fyrir þá hvernig mál mundu þróast og hvernig þau mundu skipast varðandi þau réttindi sem verið var að veita og byggðu á veiðireynslunni. Hann segir líka að það hafi ekki verið skammsýni að taka þær ákvarðanir sem teknar voru á þeim tíma og hann átti þátt í að taka.

Það held ég að sé alveg rétt hjá honum. Það var ekki skammsýni. Það var framsýni. En þeir sem ekki sáu að þarna var verið að úthluta réttindum sem gátu orðið verðmæt, þeir voru glámskyggnir á það hvernig mál gætu þróast.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson hefur vitnað talsvert í minni hluta Hæstaréttar og reyndar hafa aðrir hv. þm. gert það líka. Sumir hafa reyndar reynt að draga þá ályktun að allur rétturinn telji að fiskveiðistjórnarkerfið sé óalandi og óferjandi.

Ég veit út af fyrir sig ekkert um það hver skoðun dómaranna í Hæstarétti er á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er ekki það sem skiptir máli hér því þeir voru ekki valdir, hvað þá kjörnir, til þess að hafa sérstaka skoðun á því. Þeir eiga hins vegar að hafa skoðun á því hvort lög frá Alþingi standist stjórnarskrána. Og um það hafa þeir dæmt og þeir hafa dæmt á þann hátt, fimm dómarar, að lögin standist stjórnarskrána. (Gripið fram í: Fjórir.) Um það þarf ekki að deila, hv. þm., það voru fimm sem töldu lögin standast stjórnarskrána.

Auðvitað skipti þessi dómur sköpum. Úr hefðu orðið stór vandamál hjá útgerðinni og í þjóðfélaginu öllu ef dómurinn hefði fallið á annan veg. Þess vegna er það ekkert skrýtið, miðað við niðurstöðu dómsins, að hv. þingmenn sem hafa byggt málflutning sinn á því að lögin stæðust ekki stjórnarskrána eru nú á hlaupum frá þeim skoðunum sínum. Besta dæmið um það var hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, en í umræðu um þetta sama mál fyrr í vetur hélt hann nákvæmlega þveröfugri skoðun fram. Skoðun hans byggðist þá á því að ekki væri hægt að láta lögin standast jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar nema þau væru á þann veg sem hann hélt fram. Hann hefur því hlaupið frá þeirri sannfæringu sem hann boðaði þá og nú segir hann að það, hvort lögin standist stjórnarskrána, skipti engu máli og hafi aldrei skipt máli. En hann getur bara flett upp í sínum eigin ræðum í þingtíðindum til þess að sjá hver skoðun hans á því var áður.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson gagnrýnir dómarana og telur sér það heimilt, jafnvel skylt. Ekki ætla ég að hafa á móti því að hann gagnrýni dómarana. En hvað segir hann þegar hæstv. forsrh. gagnrýnir dómara? Þá er hæstv. forsrh. að beita þrýstingi. Hann má það ekki. En hv. þm. Jóhann Ársælsson má gagnrýna og hann má hafa skoðun hvar sem er og hvenær sem er, en hæstv. forsrh. má það ekki. (JÁ: Hann talaði um ...) Röksemdarfærslan er mjög sterk.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson segir að kerfið sé ekki fullkomið. Það er alveg hárrétt hjá honum. Það eru engin mannanna verk. Hv. þm. hefur áhyggjur af skuldaaukningu greinarinnar. Sú skuldaaukning byggist að miklu leyti á innri hagræðingu sem erlendis er fjármögnuð úr ríkissjóði, en greinin hér á landi fjármagnar sjálf, og hún byggist á fjárfestingum greinarinnar. En á sama tíma og þetta hefur verið að gerist hefur eiginfjárstaða greinarinnar batnað mjög.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur líka áhyggjur af arðsemi greinarinnar, að arðsemin sé ekki nægjanlega góð. Ég hef það að vissu leyti líka, sérstaklega þegar menn hafa uppi miklar hugmyndir um gjaldtöku af greininni.

Hann hefur áhyggjur af nýliðuninni og það get ég út af fyrir sig tekið undir að miklu leyti. En ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að í grein þar sem aðgangurinn er takmarkaður hlýtur nýliðunin alltaf að vera erfið.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir talar um að verið sé að ýta því á undan sér að taka ákvarðanir og taka á vandanum, taka á deiluefninu. En hún er búin að sitja tvö ár í auðlindanefnd sem talsmaður hennar pólitísku fylkingar var upphafsmaður að með flutningi tillögu. Þessi nefnd hefur ekki skilað af sér enn þá, m.a. vegna þess að þrír dómar hafa fallið í þessu máli sem hafa tafið störf nefndarinnar.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur áhyggjur af því að hæstv. sjútvrh. hafi bætt við ári þar til hugsanlega endurskoðuð löggjöf gæti tekið gildi. En það vill bara þannig til að þessir dómar hafa tafið störf tveggja nefnda og þannig veltur þetta á því hvenær þingstörfum lýkur á vorin og hvenær fiskveiðiárið tekur gildi. Það gæti því gerst að endurskoðuð fiskveiðistjórnarlög tækju gildi ári seinna en sjútvrh. hafði ætlað. Það kemur þá til vegna þeirra tafa sem hafa orðið vegna dómsins. Það er ekki með vilja gert því eins og kynnt var upphaflega var markmiðið að það næðist að ný lög tækju gildi haustið, 1. september, 2001.

Það er hins vegar líka að miklu leyti undir hv. Alþingi komið hvernig það verk vinnst. En ég stefni að því að leggja fram frv. til laga um stjórn fiskveiða á næsta þingi. Hvort tekst að afgreiða það þá, er Alþingis en ekki ráðherrans að ákveða.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi nokkur af hinum pólitísku álitaefnum sem uppi eru í sambandi við fiskveiðistjórnina. Hann fór yfir það að ekki væri á þeim tekið í dómnum og dómurinn leysti ekki úr þeim.

Það er alveg hárrétt hjá honum. Enda stóð það heldur ekki til. Það sem stóð til var að skera úr um hvort lög um stjórn fiskveiða stæðust stjórnarskrána eða ekki. Þau gera það og því getum við stjórnmálamennirnir haldið áfram okkar vinnu við að reyna að gera fiskveiðistjórnarkerfið fullkomnara.

Ég held að það sé hollt fyrir okkur að hafa sérstaklega tvennt í huga, tvennt sem skiptir mestu máli þó að önnur atriði skipti að sjálfsögðu líka máli. Það er að úthlutun aflaheimildanna sé á varanlegum grunni þannig að hagsmunir þeirra sem gera út séu varanlegir til þess að við getum búið við sjálfbært fiskveiðistjórnarkerfi, að sjálfbærnin verði innifalin í hagsmunum þeirra sem gera út og að framsalið verði frjálst til þess að við frystum ekki atvinnugreinina á einum punkti í tíma og hún geti síðan ekkert breyst, ekki með breyttum utanaðkomandi aðstæðum, ekki með breyttum hugmyndum þeirra sem eru í greininni. Greinin þarf stöðugleika og hún þarf sveigjanleika til þess að geta blómstrað og staðið undir betri þjóðarhag í framtíðinni.