Svör við fyrirspurnum og viðvera ráðherra

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 13:47:53 (6686)

2000-04-27 13:47:53# 125. lþ. 103.97 fundur 469#B svör við fyrirspurnum og viðvera ráðherra# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Mér finnst læknar vel komnir að launum sínum og mér finnst hjúkrunarfræðingar vel komnir að launum sínum en ég vil vita hver þau eru. Ég sætti mig ekki við það þegar fjmrn. eða pólitískir stuðningsmenn ráðherrans reyna að koma í veg fyrir að upplýsingar af þessu tagi séu birtar.

Ég vil vita hvaða launakjör eru hjá öðrum stéttum innan sjúkrahúsanna, sjúkraliða og ófaglærðs starfsfólks. Það sem við vitum er að það er að gliðna þar í sundur á milli þeirra annars vegar sem hafa hærri tekjurnar og hinna sem hafa lægri tekjurnar. Ég spyr: Er það þetta sem fjmrn. vill fela og stuðningsmenn þess hér í þingsal?

Ég bendi hæstv. forseta á að það er rétt að þau svör sem hér berast eru á ábyrgð viðkomandi ráðherra. En ég beindi spurningu minni til þingsins og yfirstjórnar þingsins um hvað þingið hygðist gera þegar ráðherra svarar út í hött eða eins hroðvirknislega og hér hefur gerst.

Ég mun ekki sætta mig við að þetta mál verði látið kyrrt liggja.