Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 14:03:34 (6690)

2000-04-27 14:03:34# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[14:03]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það frv. sem lagt er fyrir þingið er um frestun á lögum sem áttu að taka gildi 1. september um krókabáta. Ég hef stutt það mál og geri. En mig langaði til að fá frekari útskýringu á því frá formanni sjútvn. Ég greip ekki nákvæmlega hverju verið er að velta upp gagnvart þeim bátum eða þeim einstaklingum sem hafa fjárfest í skipum með tilliti til þess að breytingin hefði náð fram að ganga eins og lögin gerðu ráð fyrir. Menn hafa farið út í verulegar fjárfestingar en sitja uppi núna sumir hverjir með það að þurfa jafnvel að fjárfesta í mjög dýrum úreldingarbátum sem hafa hækkað í verði vegna þess að verið er að fresta lagasetningunni um eitt ár. Þetta hefur valdið mörgum erfiðleikum. Ef formaðurinn hefur tíma til að hlusta á þetta vildi ég gjarnan fá að vita hvort þetta mál hafi ekki komið til sérstakrar umræðu í nefndinni og hvernig nefndin hafi afgreitt það vandamál sem kom augljóslega upp og kemur upp með tilkomu þessarar frestunar.