Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 15:11:44 (6696)

2000-04-27 15:11:44# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[15:11]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kem reyndar í andsvar við hv. þm. út af því að hann hefur orðið fyrir einhverjum ama af orðum formanns þingflokks Samfylkingarinnar í Kastljósþætti í gær þar sem við sem þar vorum vorum innt eftir viðbrögðum við utandagskrárumræðu sem Frjálslyndi flokkurinn stóð fyrir á Alþingi í gær. Þau voru eitthvað á þá lund að margir furði sig á því að Frjálslyndi flokkurinn hafi ekki flutt tillögur um grundvallarbreytingar á lögum um stjórn fiskveiða með tilliti til tilurðar flokksins.

Nú hefur þingmaðurinn talið upp hver þingmál þeirra eru og mér finnst sú upptalning staðfesta orð mín. Hins vegar snýst þetta ekkert um mat mitt á því sem stendur andspænis því sem þingmanninum sjálfum finnst um tillögu þeirra heldur meginatriðið sem er að við vorum spurð um viðbrögð vegna utandagskrárumræðu sem Frjálslyndi flokkurinn stóð fyrir án þess að þeir ættu fulltrúa á staðnum. Á þessa staðreynd benti ég í þættinum og við því var hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson að bregðast í upphafi með athugasemd um störf þingsins.

Hins vegar vil ég benda á að Vatneyrardómurinn beindist að úthlutun veiðiheimilda og ranglætinu sem hefur þróast í kjölfar þess. Það hefur því ekki verið óeðlilegt að reikna með því að Frjálslyndi flokkurinn kynnti tillögur um grundvallarbreytingar hvað það áhrærir. Það er stóra málið.

Þetta er skoðun mín og viðbrögð mín sem ég sýndi í gær mjög kurteislega um leið og ég benti á að þarna vantaði fulltrúa eins þingflokks.