Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 15:21:51 (6701)

2000-04-27 15:21:51# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sem betur fer sammála því að við erum sammála um mjög margt í því sem betur mætti fara við stjórn fiskveiða. Hins vegar finnst mér að kannski þurfi lengri umræðu til að menn átti sig á því hvað menn eru ekki sammála um. Mér finnst að þegar þingflokkar leggja saman stefnumótun á Alþingi þurfi það að vera svolítið skýrara hvað þeir eru sammála um en kemur fram í þáltill. vinstri grænna og frjálslyndra sem lögð var fram í vetur.

Ég segi það bara þrátt fyrir yfirlýsingu hv. þm. að miðað við það hvernig vinstri grænir hafa talað í vetur um uppboð veiðiheimilda langar mig til að fá yfirlýsingu frá þeim um að þeir séu sammála Frjálslynda flokknum um uppboð veiðiheimildanna því að þá þurfi að nálgast býsna mikið og miklu meira en mér hefur fundist að væri látið í veðri vaka frá hendi (Gripið fram í.) vinstri grænna hér í vetur. Það gefst nægur tími til andsvara frá hendi vinstri grænna (Forseti hringir.) seinna í dag.