Endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 15:35:27 (6704)

2000-04-27 15:35:27# 125. lþ. 103.94 fundur 467#B endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur# (umræður utan dagskrár), samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[15:35]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er mjög fróðlegt að hlusta á ræðu hv. málshefjanda, ekki síst með tilliti til þess hver yfirskrift þessarar utandagskrárumræðu er annars vegar og svo hins vegar þeirra spurninga sem lagt er upp með, en útgangspunktur umræðunnar var ríkisstuðningur og endurmat fyrirtækisins. Fyrir nú utan það að það er einnig mjög skemmtilegt að fylgjast með því þegar hv. þm. gerir tilraun til þess að veðra sig upp við annan stjórnarflokkinn sérstaklega og eigna sér stefnu hans í einhverjum atriðum.

Burt séð frá því er rétt að koma inn á þessi mál sem hér eru til umræðu. Til upprifjunar er nauðsynlegt að minna á að í ársbyrjun 1997 tók Póstur og sími hf. til starfa sem hlutfélag. Síðan var þessu mikilvæga íslenska fyrirtæki skipt upp í Landssíma Íslands hf. og Íslandspóst og það gerðist 1. janúar 1998.

Í samræmi við lögin um Póst- og símamálastofnun hf. var gert ráð fyrir því að meta stofnefnahag fyrirtækisins og til þess var kallaður á grundvelli laganna hópur manna, margnefnd matsnefnd, og hún komst að ákveðinni niðurstöðu um mat á eignum fyrirtækisins. Það kom skýrt fram og það er nauðsynlegt að því sé haldið til haga að matsnefndin sem hafði mjög skamman tíma haustið 1996 til þess að vinna verk sitt, tók það sérstaklega fram að matsaðferðin, eignamatsaðferðin, væri notuð. En vakin var athygli á þeirri aðferð, núvirðisaðferðinni, sem síðan hefur orðið ofan á og er notuð við endurmat á Landssímanum hf. Upphaflega matsnefndin dró því ekki fjöður yfir það að þarna var um tvær leiðir að ræða.

Ég vil líka minna á að endurmatið gerir ráð fyrir 3,8 milljörðum sem er hækkun á mati, en upphafið, sem Samkeppnisstofnun nefndi, var að það þyrfti að hækka matið um 10 milljarða. Það er nauðsynlegt að halda því til haga.

Eins og fram kom hjá málshefjanda setti ég á laggirnar starfshóp til þess að skoða athugasemdir Samkeppnisstofnunar. Niðurstaða þess starfshóps var sú að eðlilegt væri að endurmeta efnahag fyrirtækisins. En ekki var tekið undir það að um ríkisstuðning væri að ræða vegna meðferðar á lífeyrisskuldbindingum fyrirtækisins, lífeyrisskuldbindingum sem tilheyrðu og voru vegna gamla fyrirtækisins Pósts og síma. Það er alveg nauðsynlegt að minna á það.

Til að ljúka þessu verki var síðan skipaður hópur sem hefur nú verið gerður að sérstöku fréttaefni af hálfu málshefjanda. En hv. þm. nefndi það ekki í þessari umræðu. Hann hefur talið skynsamlegt að draga í land. Sá hópur vann sitt verk hratt og vel og komst sem sagt að þeirri niðurstöðu að það væri eðlilegt að hækka mat símans um 3,8 milljarða.

Það er alveg hárrétt hjá hv. málshefjanda að eftir sem áður kann vel að vera að ESA geri athugasemdir. Það er auðvitað ekkert við því að segja og það verður að bíða síns tíma. Ég á ekki von á því að það valdi neinum sérstökum vandræðum fyrir Landssímann.

Vegna fyrirspurnar sem hv. þm. bar fram vil ég í fyrsta lagi segja að ég tel fullkomlega eðlilegt og í rauninni skyldu símans, þessa stóra og öfluga fyrirtækis, að vera þátttakandi í markaði, ganga til samstarfs við lítil fyrirtæki sem eru að hasla sér völl á hugbúnaðarsviðinu. Ég tel að fremur væri ástæða til þess að gera athugasemdir við það ef síminn ætti ekki samstarf við önnur fyrirtæki. Að gera það tortryggilegt er því ekki skynsamlegt að mínu mati hjá þeim sem á annað borð vilja veg og hag símans sem mestan.