Endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 15:45:28 (6707)

2000-04-27 15:45:28# 125. lþ. 103.94 fundur 467#B endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[15:45]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Þegar litið er til þess að meta jafnstórt og öflugt fyrirtæki og Póstur og sími var og er, er ekki óeðlilegt að upp komi mismunandi skoðanir á því hvaða aðferðum skuli beitt við að fá niðurstöður. Upphaflega matið miðaðist við þekktar aðferðir eignamatsaðferðar, en vegna ábendingar Samkeppnisstofnunar sem taldi eigið fé vantalið hefur nú verið beitt nýrri aðferð og eigið fé núvirt. Reyndar er ágreiningsefni hvaða áhrif hvor aðferð um sig hefur á samkeppnismarkaðinn í bráð og lengd. En það er mikilvægt að ná sem nákvæmastri niðurstöðu í matið, ekki síst vegna hagsmuna ríkissjóðs og almennings í landinu. Meginmálið er að nú er beitt þeirri aðferð sem menn þekkja best og mun gilda nú um stundir.

Það er gífurlega mikilvægt að sem mest verð fáist þegar fyrirtækið verður selt. Við munum nota það fé sem fæst fyrir sölu Landssímans til mikilvægra verkefna fyrir þjóðarhag við að styrkja innviði þjóðfélagsins á samgöngusviði. Það er mikilvægt að koma þeim verðmætum sem við eigum í Landssímanum í önnur verkefni sem nýtast landsmönnum öllum. Það er mikilvægt að koma Landssímanum á almennan markað og breyta þeim stofnanabrag sem því miður þekkist þar enn og er enn að finna í fyrirtækinu. Fyrirtækið þarf að leita í samkeppnisstöðu á almennum markaði.