Endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 15:52:55 (6711)

2000-04-27 15:52:55# 125. lþ. 103.94 fundur 467#B endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það kom fram í svari hæstv. samgrh. áðan að frummatsnefndin hafi upplýst hann um að tvær aðferðir væru til þess að meta þetta fyrirtæki. Hún valdi þá aðferð sem gaf lægra mat en gat ekki um matið ef hún hefði valið hina. Í sporum hæstv. samgrh. hefði ég ekki verið ánægður með þetta. Ég hefði krafist þess af nefndinni að hún léti mig hafa í hendurnar niðurstöðu af báðum aðferðunum svo að ég gæti ... (Gripið fram í: Það var annar samgrh.) Það var annar samgrh., segir hæstv. ráðherra. Þarna er nefnilega lykillinn að málinu. Þá sat annar samgrh. og hann gerði enga athugasemd við það þó að frummatsnefndin sem hann skipaði, hefði valið þá matsaðferð sem gaf ríkinu minna í aðra hönd. Það er akkúrat það sem við samfylkingarmenn höfum verið að gagnrýna, að þarna er verið að undirbúa gjafasölu á verðmætu fyrirtæki. En ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það var annar ráðherra Sjálfstfl. sem tók þessa ákvörðun.

En það er annað sem ég hef áhuga á því að fá að vita hjá hæstv. ráðherra. Nú kemur í ljós að stefna Framsfl., annars stjórnarflokksins, er nokkuð önnur en stefna Sjálfstfl. í málinu. Samt sem áður hefur hæstv. samgrh. falið nefnd, einkavæðingarnefnd, að undirbúa sölu Landssímans. Ég spyr: Sölu á hverju? Sölu á fyrirtækinu eins og það er eða sölu á þeim hluta fyrirtækisins sem Framsfl. virðist vera reiðubúinn til að selja? Það er auðvitað algjör forsenda þess að undirbúningur að sölu geti farið fram að nefnd sem er falið það verkefni fái að vita hvað eigi að selja. Ég spyr hæstv. samgrh.: Hver voru fyrirmæli hans til einkavæðingarnefndar sem hann fól að undirbúa sölu símans? Hvað var einkavæðingarnefnd falið að selja?