Endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 15:55:23 (6712)

2000-04-27 15:55:23# 125. lþ. 103.94 fundur 467#B endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur# (umræður utan dagskrár), Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. skýrði þó a.m.k. einn hlut í umræðunni. Hann telur ofureðlilegt að ríkisfyrirtækið Landssími Íslands haldi áfram að kaupa upp fyrirtæki á þessum markaði, þ.e. framtíðarsýn hans á þessum markaði er sú að þegar fyrirtækið verður selt í heilu lagi þá sé í raun verið að selja atvinnugreinina í heild. Það er vert að hugleiða það á þessari stundu af því að fyrir liggur að ætlunin er að selja símann: Hverjir skyldu fá? Hverjir skyldu fá þegar þar að kemur að síminn verður seldur í heilu lagi og heil atvinnugrein verður seld? Og núna er verið að nota fjármagn sem hefur verið skilgreint sem ríkisstuðningur í því skyni að kaupa upp önnur fyrirtæki sem eru að reyna að sprikla á þessum markaði, eru í raun að sprikla í skugga Landssímans.

Landssíminn hefur um margt staðið sig vel sem fyrirtæki. En á hinn bóginn er alveg ljóst að framtíðaratvinnugrein sú sem við Íslendingar verðum að treysta á er í fjarskipta- og tölvumálum. Það liggur fyrir og við þurfum því að hugleiða mjög vandlega hvernig umhverfi í þeirri grein við viljum skapa. Það liggur fyrir að hæstv. samgrh. hefur a.m.k. svarað hvað sig varðar: ,,Óbreytt ástand. Afhendum greinina í heilu lagi þegar við seljum símann.`` Mér finnst hæstv. samgrh. satt best að segja draga upp hryggileg mynd. Það kemur mér kannski ekkert á óvart að í þessu máli þramma í takt vinstri grænir og Sjálfstfl. Það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart því það er alltaf að skýrast betur og betur að þegar í harðbakkann slær og menn fara að tala af einhverri alvöru um uppbyggingu og samkeppni og jöfn tækifæri, þá hefur Sjálfstfl. ekkert til þeirra mála að leggja.