Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 16:49:58 (6721)

2000-04-27 16:49:58# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[16:49]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Braska í tíu ár, sagði hv. þm. Það er ekki þannig. Tillaga okkar gengur út á að veiðiréttindin verði innkölluð jafnt á tíu árum og að þau fari á leigumarkað. Menn hafi síðan möguleika á að leigja frá sér helminginn af aflamarkinu innan ársins. Ekki er þá lengur fyrir hendi að famselja nein önnur veiðiréttindi en þau. Framsalið mun því jafnt og þétt minnka. Þegar þessum tíu árum er að ljúka verði einungis um að ræða þessi 50% sem megi framselja innan ársins. Þannig er það nú. Menn hljóta síðan að horfa á þetta og skoða eftir því sem líður á þetta tímabil og þegar aðlögunartímabilinu er lokið hljóta menn að taka afstöðu til þess hvernig þetta eigi svo að vera til frambúðar. (Gripið fram í.) Mér finnst hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon óþolinmóður, hann vill gefa sér að við höfum fundið þann stóra sannleika sem hann spurði eftir áðan (SJS: Þú talar þannig.) en við höfum ekki talið að við höfum fundið hinn endanlega stóra sannleika. En við teljum okkur hafa fundið ágæta leið til að fara út úr eignarhaldinu á veiðiheimildunum. Við höfum bent á hana með frv. okkar og við teljum að við höfum lagt í það það mikla vinnu að við vitum nokkuð vel hvað við erum að leggja þarna til.

Mér finnst nú nokkurrar afbrýðissemi gæta hjá hv. þm., félögum okkar í stjórnarandstöðunni, gagnvart okkur hvað þetta mál varðar. Ég er a.m.k. á þeirri skoðun að við séum með ágæta tillögu og mér finnst að við þurfum að ræða tillögur okkar í fullri einurð og menn eigi ekki að vera neitt fyrtnir yfir því þó verið sé að kalla eftir skýringum á hvaða stefnu menn vilji hafa í þessu. Mér finnst það vera röng skilaboð þegar menn tala og hafa gert hér í allan vetur eins og að frjálslyndir og vinstri grænir séu með sömu stefnu í sjávarútvegsmálum.