Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 17:14:04 (6727)

2000-04-27 17:14:04# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, RG (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[17:14]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í gær var utandagskrárumræða í tvo og hálfan tíma. Í dag er umræða búin að standa hér í einhverja tíma þar sem flokkar geta nákvæmlega útskýrt hvað fyrir þeim vakir, hvað þeir vilja ræða í sambandi við sjávarútvegsmál, hvort þeir hafi flutt tillögur um tilflutning á afla frá eða til úthafsveiðiflotans o.s.frv. Þar kemur ekkert fram af þeirri umræðu og af þeim orðum sem ég lét falla í gær. Menn geta hér komið sjónarmiðum sínum á framfæri, hér geta menn flutt tillögur sínar, þeir geta komið öllu á framfæri sem þeim býr í brjósti. Það breytir því ekki að það getur verið skoðun mín og fleiri að hafa átt von á beittari beinum tillögum frá Frjálslynda flokknum. Og að ég hafi verið með röng ummæli eða ósannindi er bara eitthvað sem ég sætti mig ekki við, herra forseti, og ber af mér hér og nú.