Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 17:17:18 (6729)

2000-04-27 17:17:18# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[17:17]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Í þeim tillögum til þingsályktunar sem við höfum lagt fram eru hugmyndir um hvernig menn skuli bera sig að í þessari vinnu. Við setjum þar fram hugmyndir og markmið um byggðatengingu kvótans, um skiptingu flotans í útgerðarflokka og þar fram eftir götunum.

Það er alveg rétt að það er álitamál hvernig eigi að standa að því að úthluta takmörkuðum gæðum. Við stöndum vissulega frammi fyrir því innan byggðanna eins og við gerðum gagnvart landinu öllu og miðunum öllum. Það er alveg rétt. Við höfum ekki útilokað eitt eða neitt í þeim efnum.

En við viljum byrja á að safna liði um þessi meginsjónarmið, þ.e. að standa vörð um einstakar byggðir og tengja hluta fiskveiðanna a.m.k. einstökum byggðarlögum. Við höfum ekki lokað neinum dyrum varðandi það hvernig staðið yrði að úthlutun veiðiheimilda.

Við erum andvíg braski með kvóta. Við viljum banna leigu á kvóta. Sjálfum finnst mér hið eðlilega og eina eðlilega að nýti sá sem fær úthlutað eða hefur á hendi veiðiheimild hana ekki þá skili hann henni að sjálfsögðu til eigandans sem er þjóðin. Það er hið eina eðlilega.

Brask með kvóta, hagnaður af kvótasölu, gengur að mínum dómi ekki upp, gengur aldrei upp, hvorki nú né síðar.