Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 17:21:23 (6731)

2000-04-27 17:21:23# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[17:21]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. E.t.v. er það á þessum nótum sem við eigum að ræða þessi mál í stað þess að vera með útúrsnúninga og rangfærslur, hvert í annars garð.

Staðreyndin er sú að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn einnig, því að við höfum í sameiningu sett fram þessar hugmyndir, hafa sett fram tillögur um leiðir, um hvernig við eigum að bera okkur að til að ná niðurstöðu í þessum efnum. Ég er sammála hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur um að það er grundvallarskilyrði að það sé staðfest hver sé eigandi þessarar auðlindar, þ.e. þjóðin.

Við viljum að sjálfsögðu einnig tryggja jafnræði með aðilum um aðgang að þessari auðlind. En vandinn sem við viljum alls ekki horfa fram hjá er sá að ýmislegt ræður því hvað skapar jafnræði með aðilum. Þar á meðal er fjárhagsleg staða fyrirtækja. Þar standa smá veikburða fyrirtæki ekki hinum stóru á sporði. Það er staðreynd. Þetta eru flókin mál og erfið sem við viljum setjast yfir. Við auglýsum eftir samstarfi um þessi mál en ekki sundrungu. Til þess eru okkar tillögur fram settar.