Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 17:23:23 (6732)

2000-04-27 17:23:23# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[17:23]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Áður en ég kem mér beint að efninu sem hér er til umfjöllunar get ég ekki látið hjá líða að víkja að þeim umræðum sem hér hafa farið fram í dag. Þær voru að mínu mati með dálitlum ólíkindum. Hv. talsmaður Samfylkingar í sjútvn. hefur valið að setja þessa umræðu út um víðan völl og krafið Frjálslynda flokkinn og Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð um nákvæma útfærslu á sjávarútvegsstefnu sinni, sem alls ekki er hér til umræðu.

Það hvarflar að mér að mikil lifandis skelfing mundi mér líða vel í stjórn ef mér tækist að koma því þannig fyrir að stjórnarandstaðan sæi málum sínum best borgið með því að þar höggvi hver í annan varðandi tillöguflutning eins og hér hefur átt sér stað í mjög ríkum mæli í dag. (Gripið fram í.) Þetta er ámælisvert fyrir allra hluta sakir og sérstaklega ámælisvert af hálfu Samfylkingar að stilla málum upp á þennan hátt þegar það hefur komið fram og verið staðfest hér af hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni og hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn buðu Samfylkingunni til samstarfs um mótun á tillögum og tillöguflutningi um breytingar á sjávarútvegsstefnunni. En því var hafnað af hálfu Samfylkingar. Það er nauðsynlegt að þessir hlutir komi fram vegna þess hvernig talað hefur verið hér áður. Ég tel mjög slæmt að ekki skuli hafa verið flötur á því að fá sameiginlega niðurstöðu.

Tillögur Samfylkingar fæddust nú rétt fyrir lok tímamarka um að skila inn frumvörpum á þessu vori. Það var erfið fæðing að manni skilst en fullkomin. Síðan kemur fram hér þegar forsvarsmaður Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum er spurður örfárra spurninga um útfærslu á tillögunum, að það eigi að bíða síðari tíma. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon innti hv. þm. Jóhann Ársælsson eftir svörum og þá kom skýrt fram að þetta væri ekki útfært út í hörgul sem hann hafði þó tilburði til þess að krefjast af bæði Frjálslynda flokknum og Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að væri gert.

En sjávarútvegsstefna flokkanna er ekki hér til umræðu. Eins og margoft hefur komið fram hérna í umræðunni þá hafa bæði Frjálslyndi flokkurinn og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð valið að setja fram tillögur sem annaðhvort stöðva þróun í þá átt sem við viljum ekki hafa eða þá seinka málum sem gefa okkur tíma til að vinna að þeim stefnubreytingum sem hugur okkar stendur til.

Í því sambandi vil ég minna eða benda á grunninn, þ.e. till. til þál. sem hefur verið gerð allgóð skil hér. Ég vil benda á frv. til laga frá 8. mars --- það er þskj. 697, 429. mál --- um breytingar á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Talsmaður Frjálslynda flokksins í sjávarútvegsmálum, Guðjón A. Kristjánsson og áheyrnarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í sjávarútvegsmálum, Árni Steinar Jóhannsson, lögðu það frv. fram.

Miðað við þá tillögu sem hér er til umfjöllunar hljótum við flutningsmenn að þessu frv. til laga um breyting á lögum að vera ánægðir með þann árangur að hálfum mánuði eftir að við setjum fram tillögu okkar komi fram tillaga frá ríkisstjórninni um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Í öllum aðalatriðum, þó með undantekningum, er þessi tillaga ríkisstjórnarinnar samhliða tillögu frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði og Frjálslynda flokknum frá 8. mars árið 2000.

Nefndarálitið sem hér er til umfjöllunar um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, er frá meiri hluta sjútvn. Við, fulltrúi Frjálslynda flokksins og áheyrnarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, gátum ekki samþykkt nefndarálitið þó að margir kaflar í því væru okkur að skapi og við gætum skrifað undir þá. Það er staðreynd málsins. Við fögnum því að í þetta nefndarálit er komið ákvæði sem tekur á málum þeirra sem hafa gert ráðstafanir miðað við að breytingarnar yrðu nú í haust. Það er neglt fyrir þann leka. En mér skilst að 10--15 aðilar hafi gert ráðstafanir, efnahagsskuldbindingar o.s.frv., og þeirra staða samkvæmt þessu nefndaráliti er tryggð.

En við, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson og ég, veljum þá leið að gera brtt. við frv. og vonumst auðvitað til að þessar brtt. verði samþykktar. Í brtt. okkar hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar eru lagðar til breytingar á núgildandi lögum um stjórn fiskveiða sem teljast mjög brýnar. Markmið þeirra er m.a. að auðvelda útgerðinni, einkum kvótalitlum einyrkjum og útgerðarmönnum smærri skipa, að brúa bilið þar til heildarendurskoðun laganna um stjórn fiskveiða er lokið. Þær snúa m.a. að því að fresta kvótasetningu ýsu, ufsa og steinbíts í smábátaveiðikerfinu og lagfæra ákvæði sóknardagatalningar þannig að veiðitími úr höfn í höfn megi teljast í 12 klukkustunda tímabilum. Með því er verið að gera vinnutíma við þessar veiðar þannig að verjandi sé og samboðið þeim almennu reglum að hvíldartími verði eigi minni en átta klukkustundir á sólarhring. Kjósi sjómenn að veiðiferð þeirra sé lengri en 12 klukkustundir samfellt verður það þeirra eigin ákvörðun sem ekki er knúin fram með lögum og reglum stjórnvalda.

[17:30]

Þetta er talið mjög mikið hagsmunamál sjómanna og þess vegna leggjum við til að það sé tryggt og teljum að í nál. meiri hlutans sé alls ekki gengið nógu langt í þessum efnum.

Í brtt. er lagt til að við lögin bætist ný ákvæði til bráðabirgða. Í hinu fyrra er lagt til að steinbítur og ufsi verði á næsta ári tekinn út úr kvótasetningu á hvert fiskiskip. Til þess hníga fjölmörg rök. Í hinu síðara er lagt til að á meðan heildarendurskoðun laganna um stjórn fiskveiða stendur yfir verði 1,5% af heildaraflamarki þorsks og ýsu úthlutað sérstaklega til þeirra báta sem hafa litlar heimildir. Hér er um að ræða fiskiskip sem eru raunverulega í útgerð og hafa orðið að leigja til sín að stærstum hluta veiðiheimildir sínar af Kvótaþingi. Heimildin nær aðeins til fiskiskipa minni en 200 brúttórúmlesta sem stunda dagróðra og uppfyllt hafa skyldu sína samkvæmt núgildandi lögum.

Að lokum er lagt til að bátar undir 12 brúttólestum að stærð, sem eru með minna aflamark en 15 þorskígildistonn, geti fengið eitt tonn á móti hverju tonni þorskígildis sem skipið veiðir af þorskígildum sínum. Hámarksúthlutun er 15 þorskígildistonn. Hér er um að ræða fá skip og mjög lítið aflamark. Heildarúthlutun til þeirra skipa verður innan við 500 þorskígildistonn. Framangreindar ráðstafanir eru að mati flm. nauðsynlegar til að sporna við því að enn frekar verði gengið á hlut strandveiðiflotans en orðið er meðan á endurskoðun laganna stendur.

Við höfum sett fram athugasemdir við einstakar greinar, brtt. sem við teljum mjög mikilvægar og vonumst til að teknar verði til athugunar á milli umræðna. Um fyrstu greinina er það að segja að þar er lagt til að lagfært verði það stífa sóknarákvæði að hver af fáum veiðidögum krókabáta í dagakerfi skuli aðeins tekinn og talinn með samfelldri 24 klst. veiðiferð. Þarna er í raun verið að pína sjómenn, unga sem aldna, til þess að vinna óhóflega langan vinnudag sem fær ekki staðist lög og reglur um almenn hvíldarákvæði. Hér er því um þarfa leiðréttingu að ræða. Auk þess geta ákvæði eins og þessi stangast á við öryggissjónarmið. Sjómenn freistast til þess að fullnýta sóknardagana ef róður er hafinn á annað borð þegar þeir eru jafnfáir og raun ber vitni, jafnvel þótt veður versni, og getur slíkt skapað slysahættu. Þetta ákvæði getur einnig valdið lakari gæðum fiskaflans hjá krókabátum í dagkerfinu þar sem það knýr fram lengri sjóferðir en oft væri æskilegt.

Í seinni lið tillögunnar er lögð til sams konar breyting á heimild til 12 klst. veiðiferða sóknardagabáta sem veiðar stunda eftir ákv. til brb. sem lögð er til í 1. lið brtt. Einnig er lagt til að sóknardögum þeirra báta sem starfa eftir 6. og 14. mgr. ákvæðisins, sem er 8. mgr., verði fjölgað í hlutfalli við meiri heildarafla þorsks á næsta veiðiári, ef heildarþorskaflinn verði aukinn frá því sem nú er.

Síðan gerum við athugasemdir við 2. gr. Í annarri brtt. er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða um að kvótasetning á sérhvert fiskiskip verði afnumin í tveimur fisktegundum, steinbít og ufsa. Fjölmörg rök eru fyrir því að standa þannig að málum. Benda má á þá staðreynd að áðurnefndar fisktegundir hafa ekki veiðst á undanförnum árum að því marki sem leyft hefur verið án þess að um nokkurn viðkomubrest sé að ræða. Nýliðun í steinbít virðist góð og viðurkennt er að ufsi er flökkufiskur sem ferðast eftir árferði um lögsögur ríkja í Norður-Atlantshafi. Fá rök hníga því til þess að kvótasetja tegundina sérstaklega í íslenskri fiskveiðilögsögu. Einnig skal vakin athygli á því að í fskj. frá Fiskistofu með frv. til laga um breytingu á svokallaðri tegundatilfærslu, 229. mál, þskj. 275, kemur skýrt fram að áðurnefndar fisktegundir voru mjög notaðar í þeim óeðlilega tilgangi að búa til millifærslu og auka þannig veiðar á karfa og grálúðustofnum sem taldir voru fullnýttir. Því ber ekki nauðsyn til kvótasetningar þessara botnfisktegunda og að taka þær út úr kvóta getur beinlínis komið öðrum tegundum til góða.

Við gerum líka athugasemd við 3. gr. frv. og erum með tillögur til breytinga eins og fram hefur komið og dreift hefur verið í þremur brtt. Og það er um 3. gr.

Sá mikli niðurskurður sem ár eftir ár varð á þorskveiðiheimildum bitnaði harkalega á þeim bátum sem stundað hafa þorskveiðar á grunnslóð og flokkast flestallir samkvæmt stærð sem hefðbundnir vertíðarbátar. Bátar þessir eru yfirleitt í góðu ásigkomulagi og engin skynsamleg rök til þess að þeir hverfi úr rekstri nú, allra síst þar sem vel horfir með þorskstofninn og allar líkur eru til þess að hann muni stækka ört á næstu árum.

Í þeirri grimmu samkeppni sem ríkti, aðallega á fyrstu árunum eftir 1990, um kaup á ,,varanlegum veiðiheimildum`` átti þessi útgerðarflokkur mjög litla möguleika á móti stórum útgerðarfélögum sem öfluðu sér að stærstum hluta fjármagns til slíkra fjárfestinga með útgáfu nýrra hlutabréfa sem oft seldust á margföldu nafnverði.

Þvert á móti hafa margar útgerðir þessara báta, vegna vanskila sem þær hafa lent í, séð sig tilneyddar til að selja frá sér hluta af því litla sem til umráða er í veiðiheimildum. Niðurstaðan samkvæmt því sem að framan er rakið er sú að um langt árabil hefur ríkt algjör einstefna í tilflutningi varanlegra þorskveiðiheimilda. Veiðiheimildir sem upphaflega urðu til vegna veiðireynslu í strandveiðum eru nú í verulegum mæli nýttar af frystitogurum í úthafsveiðum. Slíkur stórfelldur tilflutningur hlýtur að teljast óæskilegur út frá sjónarmiðum um skynsamlega nýtingu auðlindarinnar.

Afleiðingar þessarar þróunar eru margþættar. Þær koma fram í vaxandi skorti á hráefni til fiskvinnslufyrirtækja víða um land. Þetta leiðir einnig til þess að ekki er hægt að anna eftirspurn á verðmætum afurðamörkuðum, svo sem í stórum saltfiski á Spánarmörkuðum, þannig að skaði hlýst af.

Þá er einnig ástæða til þess að benda á að bátar í þessari aðstöðu hafa ár eftir ár orðið að leigja til sín veiðiheimildir á okurverði sem myndast aðallega með samráði nokkurra ráðandi stórfyrirtækja á þessum markaði. Slík verðmyndun er með öllu óforsvaranleg og óviðunandi að kvótinn sé misnotaður á þennan hátt. Að öllu samanlögðu ber því brýna nauðsyn til að löggjafinn bregðist við á þann hátt sem lagt er til í tillögum okkar.

Loks er lagt til að bátur undir 20 brúttólestum að stærð með minna aflamark en 15 þorskígildistonn geti fengið í úthlutun eitt tonn á móti hverju veiddu tonni að hámarki 15 þorskígildistonn. Ekki er gert að skilyrði að þessi skip hafi leigt sér kvóta af Kvótaþingi. Þessi úthlutun er á milli 400 og 500 þorskígildistonn. Rétt er að þeir sem lítið hafa og reyna að lifa við það fái einnig nokkra leiðréttingu meðan á endurskoðun laganna stendur.

Þetta er úr grg. með frv. okkar til laga um breytingar á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. En gagnvart framkomnu frv. frá meiri hluta sjútvn. höfum við valið þá leið í samvinnu, Frjálslyndi flokkurinn og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, þ.e. fulltrúar flokkanna, að leggja fram brtt. við framkomna tillögu meiri hlutans.

Ég veit ekki hvort ég sé ástæðu til að fara í gegnum þessar brtt. vegna þess að Guðjón A. Kristjánsson hefur gert það svo myndarlega í framsögu sinni. Ég vil frekar nota tíma minn til að fara almennt yfir þær þáltill. sem við höfum lagt fram varðandi stjórn fiskveiða en byrja á því að segja að ég get tekið svo innilega undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni þar sem hann lýsti því yfir fyrr í umræðunni að auðvitað væri algjörlega nauðsynlegt fyrir okkur að gera brtt. og standa að málum þannig að við spilum með eins og málum er háttað í dag og reynum að koma hlutum þannig fyrir að okkur gefist tóm til þess að vinna að þeim breytingum sem hugur okkar stendur til. Það verður ekki gert með því að leggjast alfarið á móti mjög sterkum stjórnarmeirihluta --- þannig er staðan --- áður en menn hafa komið sér saman um niðurstöður.

Þess vegna tel ég mjög farsælt fyrir allra hluta sakir að leggjast ekki gegn tillögum sem nálgast kannski að langmestu leyti það sem hugur okkar stendur til meðan við erum að vinna tíma til að vinna breytingar sem fái meirihlutafylgi. Ég tel að sú frestun, sem er verið að tala um, sé algjörlega nauðsynleg í stöðu málsins. Ekki er forsvaranlegt að standa að öðru en að þessi frestun eigi sér stað og það eigi sér ekki stað þessi binding á kvóta í smábátakerfinu. Við þurfum a.m.k. ársfrest og eins og fram hefur komið í máli manna hér í dag þá eru allar líkur á því að það verði um tveggja ára frest að ræða vegna þess að það þurfi meiri tíma til þess að skoða málin. Sjútvrh. hefur sjálfur látið hafa það eftir sér að e.t.v. þurfi tvö ár til þess að ljúka dæminu.

Við höfum líka valið þá leið, í raun svipaða leið og varðandi þetta mál, varðandi norsk-íslenska síldarstofninn. Við vildum þar velja þá leið og lögðum til í brtt. að óbreytt ástand yrði í eitt ár eða þangað til við gætum sameinast um heildarstefnu, mótaða stefnu um fiskveiðistjórnarkerfið. Varðandi síldarstofninn hefði það verið langæskilegasta lausnin að mínu mati að geta sameinast um það. En eins og málin standa í þinginu í dag beitir stjórnarmeirihlutinn auðvitað meirihlutaafli til að knýja fram að nú er norsk-íslenski síldarsstofninn kominn í þetta kvótakerfi sem þeir verja með kjafti og klóm.

Ég tel að stjórnarmerihlutinn eigi miklu hægar um vik með því að knýja fram lausnir sínar á málum vegna þess hvernig stjórnarandstaðan hefur valið að standa að sínum málflutningi. Ég tel þá leið sem við höfum valið til fyrirmyndar þó hún hafi verið gagnrýnd mjög í dag og sérstaklega af hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, þ.e. sameiginlega till. til þál. um grundvöll nýrrar fiskveiðistjórnar. Við verðum öll að gera okkur grein fyrir því að það er ekki vænlegt til árangurs fyrir fimm stjórnmálaflokka, eins og menn hafa talað í dag, að ætla hver um sig að koma inn með fullmótað fiskveiðistjórnarkerfi og ætla að fá það samþykkt, bingó. Það er svo fjarri raunveruleikanum að það hálfa væri nóg.

Miklu fýsilegra er að leggja fram plan um aðferðina við að nálgast þau markmið sem flokkarnir setja sér, vera sammála um vinnuaðferðir og markmiðssetningu og ná síðan saman á þeim grundvelli.

[17:45]

Það liggur alveg ljóst fyrir að allir þeir flokkar og einstaklingar sem hér eru á þinginu hafa mismunandi sýn á þessi mál. Þetta mál, endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu, verður þannig aldrei unnið nema sem málamiðlun. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram og er m.a. drepið á í okkar þingflokksályktunartillögu að það er náttúrlega ekki vænlegt til árangurs og ekki sannfærandi, ef við tökum sem dæmi endurskoðunarnefndina sem sett hefur verið á laggirnar um endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða, að hafa eitt aflið í þinginu útundan. Það verður að segjast alveg eins og er. Það er ekki heppileg leið. Við verðum að horfast í augu við að einn stjórnmálaflokkur hér inni hefur ekki setu í þeirri nefnd. Það er vont mál.

Ég hef marglýst því yfir úr ræðustóli að öll framsetning málaflokkanna varðandi sjávarútvegsmál hlýtur að verða veganesti fyrir endurskoðunarnefnd á lögum um stjórn fiskveiða til að ná fram þeirri málamiðlun sem mönnum stendur hugur til. Það verður að takast á um þessa hluti. Þeir sem vilja breyta eiga að standa saman. Þeir eiga að setja sér meginramma. Ef þeir sem vilja breytingar ætla að vera sundraðir og velja þá vinnuaðferð sem Samfylkingin telur samkvæmt málflutningi hennar svo góða, þ.e. að koma með heilsteypta bestu og fínustu tillögu sem til er í heiminum og fá alla til þess að skrifa upp á hana, þá er það óraunsæi í stjórnmálum. Það er algert óraunsæi. Þetta gengur ekki fyrir sig á þann hátt. Forsvarsmenn Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum hafa ákveðið að gera lítið úr þeirri samvinnu sem við höfum valið okkur að viðhafa sem hefur leitt af sér till. til þál. sem er lögð fram snemma á árinu, 14. febrúar, ásamt mörgum öðrum tillögum bæði sem við höfum verið með sameiginlega og Frjálslyndi flokkurinn sér í öllu þessu ferli meðan þingið hefur verið starfandi í raun og veru. Þeir gera lítið úr þeim málatilbúnaði að setja sér niður verklagslínur, setja fram skýrt og skorinort stefnu flokkanna sem í mörgu fara saman sem er mjög fýsleg leið. Ég held þegar upp er staðið, vilji menn vera raunsæir, þá verði það einmitt leiðin sem farin verður ef hægt verður að knýja fram breytingar af stjórnarmeirihlutans hálfu í endurskoðunarnefndinni um stjórn fiskveiða. Auðvitað verður þetta verklag viðhaft, þ.e. að setja sér niður formúlu hvernig eigi að vinna verkið og síðan hafa að leiðarljósi áhersluatriði þeirra flokka sem eiga fulltrúa í þinginu. Þetta er brilljant leið sem við höfum farið og ég kann því illa að menn skulu velja það sem aðalskotspón hér í umræðunni að gera lítið úr þessari vinnu og hjálpa stjórnarmeirihlutanum í raun við að geta bara tekið því rólega í þessari umræðu og notið þess að sjá tvær fylkingar stjórnarandstöðunnar takast á og bítast um smáatriðaútfærslu varðandi fiskveiðistjórnarkerfi landsins í heild sinni þegar við erum að tala um í raun og veru bara eitt lítið mál, einn lítinn anga sem miðar að því að við sökkvum ekki enn þá dýpra í það fen sem við erum öll sammála um að við erum í. Þetta er mergurinn málsins, virðulegi forseti. Ég tel að framkomin meirihlutatillaga frá sjútvn. hafi marga augljósa kosti. Við erum stoltir af því báðir tveir, hv. flm. Guðjón A. Kristjánsson og ég, Árni Steinar Jóhannsson, að ríkisstjórnin ákvað í raun að taka mið af okkar tillögum frá 8. mars árið 2000 og gera þær í veigamiklum atriðum að sínum þó svo þeir hafi ekki treyst sér til þess að fara alla leið eða þá leið sem við völdum. Þess vegna eru hér framkomnar þrjár brtt. sem við höfum lagt fram sameiginlega og verða til umfjöllunar í sjútvn. milli umræðna. Ég er svo bjartsýnn að ég tel að ekki sé kannski öll von úti enn um að eitthvert tillit verði tekið til brtt. Annars verða þær að sjálfsögðu bornar upp í þinginu á eðlilegan hátt.