Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 17:54:18 (6735)

2000-04-27 17:54:18# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[17:54]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var mjög gott að fá þetta fram. Þetta lýsir einmitt því sem ég þóttist lesa út úr öllu saman. Þetta var aldrei alvörutilraun til þess að ná saman um leiðir. Þetta var tilraun til þess að ná saman um einhvers konar tillögu í þinginu, þáltill. um það að setja málið í nefnd, en ekki alvörutilraun til að ræða sig til niðurstöðu um leiðir.

Við teljum einfaldlega að þessi umræða um stjórn fiskveiða hafi staðið svo lengi að tími sé kominn til að menn taki afstöðu til þess hvaða leiðir eigi að fara. Við kölluðum eftir því af sjálfum okkur að ganga það til enda hvaða leiðir við teldum heppilegastar og skila því af okkur. Það höfum við gert hér á þingi. Ég er út af fyrir sig ekkert að skammast yfir því þó að aðrir hafi ekki gert þetta nákvæmlega eins. En mér finnst að menn þurfi ekkert að vera að kvarta undan því þó að bent sé á að þeim hafi ekki tekist að komast það langt.