Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 18:01:41 (6741)

2000-04-27 18:01:41# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[18:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel að frv. það sem hér er flutt af hæstv. sjútvrh. um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem varða t.d. fyrst og fremst tiltekinn hluta smábátaflotans séu skynsamleg viðbrögð við þeim aðstæðum sem eru uppi í öllum aðalatriðum, þ.e. að fresta um sinn kvótasetningu þess hluta smábátaflotans sem þarna á í hlut og ýmsum tengdum málum.

Ég tel sömuleiðis að sú brtt. sem meiri hlutinn leggur til og snýr að því að koma til móts við þá aðila sem hafa í góðri trú skipt um báta á þessu tímabili sé nauðsynleg og óumflýjanleg til að menn verði ekki harkalega fyrir barðinu á tilvonandi lagabreytingum sem taka áttu gildi eða koma til framkvæmda 1. september nk. Þá þætti málsins styð ég og tel að þeir séu í aðalatriðum, eins og ég segi, skynsamleg viðbrögð við aðstæðum sem eru uppi í þessum efnum. Reyndar voru þau efnisatriði reyndar nánast öll fram komin í frv. hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar og Árna Steinars Jóhannssonar. Í frv. þeirra var hins vegar að finna fjölmargar aðrar tillögur, bæði sem taka á ýmsum þáttum sjávarútvegsstefnunnar eða fiskveiðistjórnarinnar almennt en koma einnig til móts við stöðu annarra hluta bátaflotans sérstaklega. Það tel ég sömuleiðis skynsamlegt og rétt að gera og ég hvet hv. þm. til að skoða brtt. þingmannanna af velvild því að ég er sannfærður um að skynsamlegt væri að koma þannig til móts við þennan hluta flotans eins og málum er nú háttað.

Í sjálfu sér, herra forseti, hefði ég ekki þurft að segja öllu meira um það dagskrármál sem hér er á ferðinni hefðu ekki komið til nokkrar umræður sem hér hefur verið stofnað til í dag að frumkvæði formanns þingflokks Samfylkingarinnar, hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, í sjónvarpsþætti í gærkvöldi. Ég sé mig tilknúinn að gera að umtalsefni þessa óvenjulegu framgöngu félaga okkar í stjórnarandstöðunni, þingmanna Samfylkingarinnar, fyrst hv. þm. og formanns þingflokksins Rannveigar Guðmundsdóttur og síðan í kjölfarið einnig hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og nú upp á síðkastið einnig í umræðunni hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. Þannig tók formaður þingflokks Samfylkingarinnar, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, til orða í sjónvarpsþætti í gærkvöldi samkvæmt útskrift sem ég hef frá stjórnanda þáttarins eftir að hafa verið spurð út í utandagskrárumræður um sjávarútvegsmál sem hér höfðu þá farið fram í þinginu sama dag að athygli vekti að Frjálslyndi flokkurinn, eins og þar segir, með leyfi forseta, ,,hefur ekki flutt beinar tillögur um úrbætur í þessu stóra máli sem þeir voru kosnir inn á þing út af. Vissulega hafa þeir ásamt vinstri grænum flutt tillögu um enn eina nefnd.`` Hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem var í þættinum, greip þá fram í og sagði: ,,Nei, þetta er rangt hjá þér, Rannveig.`` Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hélt áfram: ,,Þið hafið flutt tillögu um að nefnd yrði sett á laggirnar.`` Hv. þm. Ögmundur Jónasson aftur: ,,Þú ferð ekki með rétt mál.``

Síðan hóf hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir að ræða tillöguflutning Samfylkingarinnar. Nokkru síðar í þættinum reyndi hv. þm. Ögmundur Jónasson að koma á framfæri leiðréttingum með svofelldum hætti: ,,Má ég aðeins leiðrétta eitt vegna þess að það er ekki rétt að það hafi ekki komið fram frumvörp og tillögur um lagabreytingar frá þessum þingflokkum, Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði eða Frjálslynda flokknum. Báðir þessir aðilar hafa sett fram slíkar tillögur.`` Þá grípur hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir fram í og segir: ,,um að nefnd skoði`` og hv. þm. Ögmundur Jónasson segir áfram: ,,Það er rangt. Það eru tillögur og frumvarpsbreytingar sem fram hafa komið.`` Eftir þetta fór umræðan út í aðra sálma.

Ég held, herra forseti, að þetta sé eins skýrt og nokkuð getur verið. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hélt því blákalt fram að Frjálslyndi flokkurinn og þess vegna einnig þingflokkur Vinstri hreyfingar -- græns framboðs hefðu ekki flutt önnur mál á sviði sjávarútvegsmála en tillögu um enn eina nefnd. Ítrekað var þessu haldið fram þrátt fyrir tilraunir þingflokksformanns Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem var í þættinum til að leiðrétta þetta.

Öllum getur að sjálfsögðu orðið á, herra forseti, og ég hygg að þetta hefði ekki dregið stóran dilk á eftir sér --- vissulega má deila um orðalagið sem þarna er á ferðinni og hvað fyrir hv. þm. vakti en svona var þetta orðað --- ef hv. þm. hefði valið þann kost í umræðunni í dag, til þess að fyrirbyggja misskilning, að taka það fram að ekki hefði verið ætlun hennar að gera lítið úr tillöguflutningi og frumvarpsflutningi sem hér hefur fram komið. En því er ekki að heilsa heldur hefur hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og flokkssystkin hennar forherst í þeirri afstöðu sinni í dag í umræðunum að gera nákvæmlega þetta. Þau neita e.t.v. ekki lengur tilvist frumvarpa og tillagna sem fela í sér efnislega hluti á sviði sjávarútvegsmála en gera þá í öllu falli lítið úr þeim. Þetta kalla ég að hafa ekki stærð í sér til að biðjast afsökunar ef mönnum verður á. Hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur varð á í þessum sjónvarpsþætti. Hún hélt því ranglega og ómaklega fram að t.d. Frjálslyndi flokkurinn hefði ekki lagt fram til umræðna um sjávarútvegsmál á þessu þingi frumvörp og tillögur um efnislega hluti á sviði sjávarútvegsmála. Því verður ekki á móti mælt. Það er rangt. Það liggur svo rækilega skjalfest fyrir í formi ekki bara eins heldur líklega þriggja eða fjögurra þingmála, þriggja frv. og einnar þáltill. a.m.k., að augljóslega væri það, herra forseti, vænlegasti kosturinn fyrir hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að koma og biðjast velvirðingar á því að hafa orðað hlutina svona óheppilega. Ég mundi þá ekki erfa þetta frekar eða gera þetta frekar að umtalsefni.

Um málin efnislega að öðru leyti er óhjákvæmilegt að fara aðeins betur fyrir þau. Nú er það að sjálfsögðu þannig að Samfylkingin má hafa þá skoðun sem þingflokkur og einstakir þingmenn þar að málflutningur þeirra á sviði sjávarútvegsmála sé merkilegri en annarra, að málafylgja þeirra í þinginu, tillöguflutningur eða frumvarpsflutningur standi öllum öðrum framar. Hins vegar á að vera óþarfi eftir sem áður, þó að menn hafi slíka skoðun, að gera beinlínis í því að gera tillöguflutning og málflutning annarra ótrúverðugan eða tortryggilegan. Það harma ég að þingmenn Samfylkingarinnar hafa hver á fætur öðrum reynt að gera talandi svo í hinu orðinu um vilja til þess að reyna að ná samstöðu um þessi mál.

Mér finnst þetta, herra forseti, svo ég orði það bara eins og það kemur mér fyrir sjónir sem þingmanni og persónu, sérstaklega ómaklegt í garð Frjálslynda flokksins. Eða er það ekki þannig að menn gætu viðurkennt að þar eiga í hlut tveir þingmenn, tveggja manna þingflokkur. Þó að hann hafi vissulega verið kosinn og ekki síst út á málflutning sinn á þessu sviði, þá geri ég ráð fyrir að þeir einstaklingar sem þar eiga í hlut hafi að sjálfsögðu einnig átt ýmis önnur mál á stefnuskrá sinni. Eftir sem áður er feiknarlega ósanngjarnt að reyna að gera lítið úr því framlagi sem sá flokkur, skipaður tveimur þingmönnum, hefur þrátt fyrir allt náð að leggja af mörkum á þessum þingvelli í formi eins og áður segir nokkurra frumvarpa og tillagna gagngert um sjávarútvegsmál.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson var svo óheppinn þegar hann var að afsaka eða útskýra að málatilbúnaður Samfylkingarinnar var heldur seint fram kominn, rétt náði inn áður en fresti til að leggja fram þingmál á þessum vetri lauk, að gefa þá skýringu á að Samfylkingin væri nýr flokkur. Gott og vel. En þau muna stundum eftir því, herra forseti, hv. þm. Samfylkingarinnar að þau séu hvorku meira né minna en 17. Þarna á hins vegar í hlut tveggja manna þingflokkur og ætli það sé ekki þannig að vinnan að þessu leyti hafi mest mætt á hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni einum. Mér finnst þetta lítið, herra forseti, ef ég má leyfa mér að sletta þannig, ,,solidaritet`` í stjórnarandstöðunni að fjalla um hlutina með þessum hætti. Ég verð að segja það alveg eins og er. Öðruvísi mér áður brá hjá þessum köppum.

Ég ætla ekki, herra forseti, að rekja í sjálfu sér efnisatriði þeirra frumvarpa sem liggja fyrir í þinginu og eru sönnun þess að bæði þingflokkur Frjálslynda flokksins og einnig þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefur með fullgildum hætti og ítrekað lagt efnislega hluti inn til umfjöllunar um sjávarútvegsmál. Ég vísa til þess aftur að auðvitað geti menn þar haft sínar skoðanir á því hvert framlag hvers eins sé og hversu mikilvægt og merkilegt það sé. Menn geta að sjálfsögðu lengi gefið sjálfum sér þá einkunn, eins og mér sýnist Samfylkingin vera að gera, að hún sé best. En það hefur þótt frekar sandkassalegur málflutningur að byggja á einkunnum um eigið ágæti í svona hlutum. Er það ekki pínulítið holt undir að standa í því að gefa sér fyrstu ágætiseinkunn fyrir tillöguflutning sinn? Á hann ekki að tala þannig máli sínu að ekki þurfi höfundana til þess að hæla honum og um leið gera lítið úr málflutningi annarra eins og við höfum orðið vitni að í dag? Það mundi ég ætla.

Í ljós kemur að hin mikla smíð, frv. Samfylkingarinnar, er í sjálfu sér ekki frumlegri hugmynd en að stofni til meira en áratuga gamlar hugmyndir um leiguuppboð á kvóta. Það er það sem þar er á ferðinni. Langt frá því neinar nýjar hugmyndir eða sérstaklega ferskar hafa verið viðraðar í ræðu og riti og jafnvel í þingmálum aftur og aftur í ýmsum útgáfum. Ég minni t.d. á tillögu hv. þáv. þm. Ágústs Einarssonar þar sem gefnir voru ekki færri en sex valmöguleikar á því hvernig mætti hugsa sér að reyna að taka auðlindagjald í sjávarútvegsmálum.

Ég neyðist til þess, herra forseti, --- mér þykir eiginlega miður að þurfa að standa í því hér en ég held að ég verði að gera það til þess að jafnt sé á klyfjunum --- að fara aðeins í aðalatriðum yfir tillögur Samfylkingarinnar, sérstaklega vegna þess hvernig hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur hamast á þingmálum og stefnumótun annarra flokka í dag. Hann hefur gert það að aðalerindi sínu í ræðustólinn ítrekað að reyna að sjá veikleika í framsetningu eða nálgun annarra manna. Mér sýnist, burt séð frá pólitískum ágreiningi um einstaka þætti eða afstöðu, frv. Samfylkingarinnar harla götótt. Mér sýnast vera í því hlutir sem séu harla lítil framför frá núverandi ástandi.

Því er t.d. haldið fram í 1. tölul. í grg. með frv., þar sem að sögn höfunda er farið yfir meginatriði frv. eins og þar stendur, að úthlutun aflahlutdeildar án endurgjalds verði afnumin í 10 áföngum á 10 árum en útgerðum fiskiskipa þess í stað gefinn kostur á öflun aflahlutdeilda til fimm ára í senn á markaði þar sem öllum útgerðum sambærilegra fiskiskipa er fenginn jafn réttur og nýliðun þar með auðvelduð. Eru innstæður fyrir þessari fullyrðingu? Hvar er hún rökstudd? Er sjálfgefið að uppboð veiðiheimilda þar sem hæstbjóðandi fær auðveldi nýliðun? Eru það nýliðarnir sem eru í sterkastri stöðu til að kaupa sér veiðiheimildir á markaði? Er líklegt að þeir hafi betur í keppni um veiðiheimildir en rótgrónar útgerðir sem eiga öll tækin sem til þarf til að sækja aflann? Liggur það þannig? Hefur kvótakerfið í landbúnaði auðveldað nýliðun? Hefur það að þurfa að kaupa kynslóðirnar út eða borga endurgjald fyrir framleiðslurétt þar reynst sérstaklega hvetjandi til nýliðunar? Ó ekki. Það er akkúrat þvert á móti. Slíkir þröskuldar sem myndast fyrir innkomu í greinina eru auðvitað hamlandi. Réttilega geta menn bent á að ástandið í dag sé líka slæmt. Það er alveg hárrétt. Þar er auðvitað ekki nýliðun. En það er ekki víst að menn væru að fara í betra ástand með þessu. Það er ósannað mál og mér sýnist það að mestu leyti órökstutt í þessari tillögu.

[18:15]

Ég tel sömuleiðis, herra forseti, að það sé mikill veikleiki í þessu frv. Samfylkingarinnar að áfram er gert ráð fyrir að leigja megi veiðiheimildir innan ársins. Það er í áherslum okkar flokks að reyna að losna við það, sem ég hef lengi talið vera mesta siðleysið í núverandi ástandi, þ.e. að menn geti fénýtt þennan afnotarétt af miðunum ár eftir ár án þess að nota hann sjálfir. Sá er munur á slíkri fénýtingu á grundvelli leiguveiðiréttinda innan ársins að það getur þess vegna orðið að eilífðarvél í höndum manna og skapað þeim gróða um ókomin ár ef slíkt er áfram leyft. En varanlega selja menn sig þó ekki út úr greininni eða öðrum rétt sinn nema einu sinni, þá eru þeir líka farnir og hafa misst þá aðstöðu sem þeir voru í. Ég hefði talið, út frá réttlætis- og siðferðissjónarmiðum ef menn vilja sérstaklega leggja þau til grundvallar í nálgun sinni, að það væri einna erfiðast að horfa upp á í þessum efnum.

Sömuleiðis verð ég að segja að frv. Samfylkingarinnar er í reynd í aðalatriðum skrifað upp á óbreytt kvótakerfi að öðru leyti, með þeim frávikum þó sem sótt eru í smiðju til annarra, að flotanum eigi að skipta upp í flokka --- atriði sem lá fyrir í tillögum fluttum af þingflokkum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Frjálslynda flokksins mörgum vikum áður en frv. Samfylkingarinnar kom fram og ég tel, herra forseti, það að sjálfsögðu góðra gjalda vert --- og að reynt verði að útfæra einhvers konar meðaflareglu í aflamarkskerfinu. En í aðalatriðum er skrifað upp á óbreytt kerfi, þ.e. sem slíkt, sem fiskveiðistjórnarkerfi.

Það er reyndar gaman að því, herra forseti, að meðaflareglan, þ.e. sú hugmynd að menn geti landað afla utan kvóta og fengið fyrir hann eitthvert mjög hóflegt endurgjald en hann sé að öðru leyti fénýttur í þarflega hluti, er heldur ekki ný undir sólinni. Ætli sá sem hér talar hafi ekki endurtekið flutt tillögur um nákvæmlega þetta á þingi, gott ef ekki ég og hv. þm. Jóhann Ársælsson einhvern tíma sameiginlega. Þannig að Samfylkingin hefur ekki heldur í þessu tilfelli fundið upp hjólið. Það var búið að því áður. Þess vegna verð ég að segja það, herra forseti, að þó að ég virði rétt Samfylkingarinnar til að vera ánægð með eigin tillöguflutning --- það er allt í góðu lagi af minni hálfu að Samfylkingin hrósi eigin frv., geri hún það bara sem oftast og þeim mun meiri þörf á því sem aðrir gera minna af því --- þá ættu menn samt að hafa í hyggju að það er ekki endilega víst að þeir hafi höndlað hinn endanlega sannleika í þessum efnum og þeir hafi einir fundið upp hjólið.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson fór fram á það við mig að ég skilgreindi viðhorf mín og Vinstri hreyfingar -- græns framboðs til veiðiréttindanna og hvernig við litum á þau mál. Það er sjálfsagt að verða við því. Reyndar gerði hv. þm. Ögmundur Jónasson það ágætlega og ég get í aðalatriðum vísað til þess sem hann sagði. Það er alveg hárrétt að við teljum mjög mikilvægt að skýrt verði að lögum hvers eðlis réttindin eru sem mönnum er úthlutað eða menn fá í hendur. Þá gildir í raun einu hvort þeir hafa leigt þau til sín, keypt þau eða fengið þeim úthlutað án endurgjalds. Eftir sem áður þarf að vera lagalega skýrt hvers eðlis fyrirbærið er. Það held ég að allir hljóti að geta verið sammála um og í þeim efnum nægir að vísa til deilna um nákvæmlega þetta atriði, hvers eðlis kvótinn væri samanber t.d. deilur um veðsetningu eða ekki veðsetningu veiðiheimilda, skattalega meðferð veiðiheimilda, eignfærslu eða ekki eignfærslu í bókhaldi, fyrningu eða ekki fyrningu o.s.frv. Vonandi er öllum hugsandi mönnum ljóst að frá upphafi hefur þetta verið mikill veikleiki í frágangi málsins, að þarna var ekki kveðið skýrt á í lögum um hvers eðlis fyrirbærið væri og hvað fyrir löggjafanum vekti með þessari tilhögun. Þess vegna hafa sprottið deilur, af því hafa orðið dómsmál o.s.frv. Það hefur reyndar aðallega orðið hlutskipti dómstóla að þróa réttinn eða túlka í þessum efnum.

Grundvallarviðhorf okkar er augljóslega og kemur skýrt fram í tillögum okkar og stefnumótun að hér eigi að vera um afnotarétt að ræða. Við teljum fiskstofnana sameign þjóðarinnar en það sem handhafar nytjaréttar hafi í höndum sé afnotaréttur. Í samræmi við það er afstaða okkar sú að menn eigi ekki að geta leigt öðrum réttinn, þeir eigi að nota hann sjálfir. Í kerfinu á ekki að vera sá möguleiki að menn fái fyrst réttinn í hendur en láti síðan aðra um að nota hann og fénýti með þeim hætti. Það rímar við nafnið og orðið, afnotaréttur. Ég hef þar af leiðandi verið þeirrar skoðunar að á þessu mætti taka og þessa lagalegu eða réttarfarslegu stöðu veiðiheimildanna mætti einnig undirstrika, t.d. með því að fyrna frá handhafanum að tilteknum hundraðshluta ónýttar veiðiheimildir á hverju ári. Það er býsna skyld nálgun þeirri sem Samfylkingin er núna að ramba á, að trappa kerfið út í áföngum. Menn hefðu í gegnum tíðina getað náð sambærilegum árangri t.d. með slíkri fyrningarreglu. Samtök sjómanna hafa lagt hliðstæða hluti til um árabil, að það mætti taka ónýttan rétt eða lesa raunverulega veiðireynslu undanfarinna ára sem tæki þá tillit til þeirra veiðiheimilda sem menn hafa fengið frá öðrum og endurúthluta á grundvelli hennar. Allt eru þetta leiðir að því marki að innbyggja með tilteknum hætti raunveruleikann eða þróun inn í sjálfa nýtingu veiðréttindanna í staðinn fyrir að hin upphaflega úthlutun ein ráði endurúthlutun ár eftir ár. Þar af leiðandi tel ég að þetta mundi styðji hvað annað þegar svona er frá þessu gengið.

Varðandi það sem að öðru leyti stendur um úthlutunina í samþykktum okkar geri ég ráð fyrir því að hv. þm. Jóhann Ársælsson geti lesið það eins og aðrir. Þar er tekið nákvæmlega þannig til orða. Ég held að ég muni það orðrétt að á meðan við lýði sé úthlutun varanlegra veiðiheimilda eins og er til staðar í dag þá sé beitt m.a. skattalegum aðferðum til þess að gera gróða, sérstaklega af fiskveiðistjórnarkerfinu sem slíku, upptækan í gegnum skattkerfið.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson saknar þess mjög að sá sem hér talar eða aðrir á hans vegum skuli ekki hafa flutt um þetta frv. á þessum vetri. Það hef ég ekki gert, það er hárrétt. Það getur hv. þm. talið til dugnaðarleysis af minni hálfu ef honum sýnist svo. Slíkar tillögur liggja að vísu fyrir í eldra frv., líklega tveggja ára gömlu, og til viðbótar liggur fyrir mikil vinna sem m.a. ég hef staðið fyrir að væri unnin og embætti ríkisskattstjóra lagði í fyrir um einu og hálfu ári síðan. Til er frá ríkisskattstjóraembættinu sjö blaðsíðna greinargerð þar sem farið er yfir álitamál sem þessu tengjast. Þetta mál er þó ekki meira einkamál mitt en svo að nærri lætur að sjálfur Framsfl. hafi gert þetta að kosningastefnuskrá sinni fyrir síðustu alþingiskosningar, að m.a. þetta ætti að skoða.

Ég spyr hv. þm. Jóhann Ársælsson á móti: Af hverju ekki? Sakar að fara yfir það hvort hægt væri að beita þessum aðferðum á meðan þetta ástand varir? Eða finnst mönnum hitt betra að koma með upphlaup ár eftir ár í hvert skipti sem einhver selur sig út úr greininni, hneykslast á gróðanum, hvort sem það eru Guðbjargarmenn í dag eða Samherjafrændi í gær og gera svo ekki neitt? Þannig hefur ástandið verið. Má ég biðja um skilning á því að þó sé virðingarvert að reyna eitthvað í þessum efnum eða er ekki svo? Er betra að láta sitja við upphlaupin ein? Ég hef þó lagt vinnu í, sem er meira held ég en aðrir geta sagt, að skoða hvort þarna væru færar leiðir. Ég hef aldrei haldið því fram að þetta væri einfalt. Það gerir enginn maður. Það hefur heldur enginn, nema þá hv. þm. Jóhann Ársælsson, sérfræðingur í skattarétti, haldið því fram að þetta væri ómögulegt. Ríkisskattstjóraembættið og sérfræðingar þess halda því ekki fram. Þeir benda á ákveðin vandamál. Þeir benda á að tilteknir hlutir séu flóknir en í greinargerð þeirra er hvergi sagt að það sé óyfirstíganlegt vandamál.

Hvað þýðir svo þetta orðalag af okkar hálfu til að útskýra það nú ,,á meðan þetta ástand varir``? Það þýðir augljóslega, og er á tærri íslensku, að með þessu sé ekki skrifað upp á þetta fyrirkomulag til frambúðar. Það gerum við ekki, þannig að hv. þm. Jóhann Ársælsson og aðrir tilheyrendur hafi það á hreinu. Það gerum við ekki. Við höfum þvert á móti víða reifað hugmyndir um að reyna að komast frá þessu með ýmsum hætti. Þar eru ýmsar leiðir mögulegar. Við höfðum ekki lokað neinum dyrum í því efni þó að það sé ekki sérstakt sáluhjálparatriði okkar nema síður sé að þetta gerist í gegnum leiguúthlutun eða einhverjar slíkar aðferðir. Við höfum ekki hafnað því.

Við höfum ekki hafnað því að skoða neinar mögulegar leiðir til að ná betri árangri í þessum efnum. Það virðist mér hins vegar ýmsir þingmenn Samfylkingarinnar gera, a.m.k. núna í umræðunni. Þeir tala af hroka um þessi mál eins og þeir séu einir orðnir handhafar hinnar fullkomnu leiðar í þessum efnum. Ég held að það sé misskilningur. Mér liggur við að segja því miður, því ef svo væri þá væru Íslendingar aldeilis á grænni grein, ef Samfylkingin hefði bara fundið stórasannleik. Menn töldu sig austar á jarðkúlunni stundum hafa fundið stórasannleik fyrir nokkrum áratugum. Ég hélt að sá tími væri liðinn nema hann sé upprunninn á nýjan leik í herbúðum Samfylkingarinnar, að þar gangi nú stórisannleikur í sjávarútvegsmálum ljósum logum. Það væru mikil tíðindi.

Ég verð að lokum að segja fyrir mitt leyti, herra forseti, að ég hef aldrei getað skrifað upp á þá uppgjafarleið sem mér finnst fólgin í þeirri trú að markaðurinn leysi þetta mál í eitt skipti fyrir öll, sem í raun er útgangspunktur málflutnings Samfylkingarinnar ef ég má leyfa mér að túlka það. Það er vissulega mín túlkun á því samlagi og skal tekið fram. Mér finnst satt að segja sögulega séð dálítið athyglisvert að nú skulum við eiga orðaskipti, ég og félagi minn fyrrum, hv. þm. Jóhann Ársælsson, undir þessum formerkjum. Vissulega heyrði ég fyrirvarana sem hv. þm. hafði eða mér liggur við að orða það á minn hátt, þær afsakanir sem hv. þm. hafði uppi gagnvart því að gefast upp fyrir því að markaðsöflin ein gætu þarna komið til bjargar.

Ég hef t.d. ekki séð það sem sérstaklega geðfellt fyrirkomulag ef við hugsum okkur nú að smábáta- og bátaflotinn yrði sérstakur hópur innan fiskveiðistjórnarkerfisins, síðan yrði þeim aðilum, einyrkjum og fjölskylduútgerðum sigað saman í uppboði á veiðiheimildum. Ég get hugsað mér margar geðfelldari aðferðir til að reyna að jafna þeim réttindum á slíkan hóp og tryggja atvinnuréttindi manna, stöðugleika og góða afkomu en að siga markaðinum á þá. Ég hygg að til þess geti ýmsar leiðir verið færar. Hvers vegna skyldi Ísland ekki geta skoðað leiðir sem farnar eru víða annars staðar? Það sé litið til þess að tryggja ákveðið jafnræði, ekki í skilningi þess að þær geti keppt á markaði því að það sigra ekki allir á markaðnum. Það vinna ekki allir í því lottói. Það verða líka einhverjir undir. Hvar er jafnaðarstefnan gagnvart þeim? Það er líka hægt að hugsa sér að einhver jöfnuður sé ástundaður í því að úthluta tilteknum réttindum þannig að sæmileg afkoma fyrir viðkomandi útgerð, einyrkja eða fjölskylduútgerð sé tryggð, t.d. í því að hverjum aðila sé tryggt eitthvað af ákveðnu lágmarki.

Einhvern tíma hefði mönnum dottið það í hug í pólitískum umræðum, sérstaklega þeim sem kenna sig við jafnaðarstefnu eða vinstrimennsku, að kannski mætti hugsa sér að reyna að útdeila takmörkuðum gæðum þannig að allir fengju eitthvað en ekki sumir allt og aðrir ekkert. En það er einu sinni eðli uppboða og markaðarins að sú verður iðulega niðurstaðan. Ég held að þessi aðferð sé miklu sanngjarnari þegar í hlut eiga orðið stærri fyrirtæki og öflugri sem standa þó jafnar að vígi og hafa yfir meira fjármagni að ráða til að keppa um gæðin en t.d. þessir minni aðilar. Er endilega víst að ástandið í sjávarplássunum batni jafnvel þó að sveitarfélögin eða byggðarlögin fengju með einhverjum hætti hlutdeild í þessum réttindum til úthlutunar ef þeim verður svo sigað saman sem búa innan byggðarlagsins á uppboði til að keppa þannig að sumir fá en aðrir ekki o.s.frv.?

[18:30]

Og hverjir bjóða í í næstu umferð? Halda menn að þegar réttindunum er úthlutað til fimm ára, ef menn fá þetta stóran hlut til langs tíma á hverju ári, að þeir sem engum réttindum náðu í tvö, þrjú ár og sátu uppi veiðiheimildalausir, bjóði í eftir tvö ár, þrjú, fimm ár eða tíu ár? Nei, þeir verða ekki til því að þeir verða augljóslega að hætta rekstri ef þeir fá engar veiðiheimildir. Og hverjir eru líklegastir til að fá ekki í fyrstu umferð? Það eru þeir sem eru fjárhagslega veikastir. Því að jafnvel möguleikar manna til þess að sækja síðan á grundvelli hagkvæmni ráða ekki einir ferðinni í útboði í upphafi. Þá getur sú aðstaða sem menn eru í í augnablikinu ráðið mestu um hverjir fá og hverjir ekki.

Ætli það sé tilviljun að t.d. það fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi sem fyrst tók undir hugmyndir um uppboð á veiðiheimildum og auðlindaskatt er ríkasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins eða var a.m.k. þá, Grandi hf. í Reykjavík? Gæti verið að Grandi hafi hugsað sem svo: Jú, við verðum alltaf ofan á. Það er allt í lagi með okkur þó tekinn verði einhver auðlindaskattur og gildir einu hvernig það verður því að við höfum fjármagnið á bak við okkur. Það verða aðrir sem tapa. (Gripið fram í.) Það kann að vera að það hafi ekki verið uppboð en hitt er rétt, það man ég, að þetta fyrirtæki eða forráðamenn þess urðu fyrstir manna held ég í íslenskum sjávarútvegi --- og tiltölulega einir hingað til --- til þess að taka undir það að þetta kynni nú að vera athugandi kostur og ýmsum fannst það ekki tilviljun. Það voru ekki einyrkjar eða kvótalitlar fjölskylduútgerðir sem sjá ljósið í því að láta markaðsöflin ein ráða útdeilingu þessara réttinda.

Hitt er auðvitað rétt að við lifum í markaðsvæddu þjóðfélagi og alltaf sækir meira og meira í þá áttina. Þess vegna er ósköp eðlilegt að menn spyrji: Verður undan því komist að einnig á þessu sviði verði þau lögmál að einhverju leyti ríkjandi? Og auðvitað eru þau það í dag, bara á annan hátt en þann að veiðiréttindin sjálf sem slík séu keypt á uppboði. Ætli markaðslögmálin hafi nú ekki sitt að segja í þeim sviptingum í atvinnulífinu og í sjávarútveginum sem ræður lífi og dauða fyrirtækja í dag, flytja til veiðiheimildir, sameina og sundra fyrirtækjum o.s.frv.? Það er mér nær að halda.

Að lokum, herra forseti, þá finnst mér það þurfi kannski að koma aðeins inn í umræðuna, og það á erindi við frv. hæstv. sjútvrh., hvernig staðan nákvæmlega er hvað varðar vinnu að sjávarútvegsmálum og þá viðleitni sem við skulum vona að sé uppi og vilji sé til af allra hálfu að ná einhverjum árangri í því efni, að sætta þjóðina betur við þá sjávarútvegsstefnu sem hér er framfylgt. Jú, það er þannig að nú ættu að vera að baki þau málaferli sem að ýmissa sögn hafa truflað vinnuferlið fram á síðustu daga og menn geta þá snúið sér að því verkefni sem til hefur staðið að vinna, annars vegar í sérstakri nefnd, að fara yfir alla þessa auðlindagjaldsþætti málsins í svonefndri auðlindanefnd. Sú nefnd var sett á laggirnar á grundvelli tillögu sem talsmaður Samfylkingarinnar svonefndur flutti. Og ég veit ekki betur en þeir flokkar sem að Samfylkingunni standa eigi þar frekar þrjá en tvo fulltrúa. Sjónarmið þeirra ættu því að vera sæmilega dekkuð þar á bæ. Mér er ekki kunnugt um annað en að Samfylkingin taki áfram þátt í því nefndarstarfi. Ég hlýt því að líta svo á að í því felist stuðningur við það að að því sé verið að vinna á þeim vettvangi af hálfu Samfylkingarinnar.

Í öðru lagi er að störfum sérstök nefnd skipuð af sjútvrh. með fulltrúum fjögurra af fimm þingflokkum, þar með talið fulltrúum Samfylkingarinnar, að vinna að endurskoðun á heildarlögum um stjórn fiskveiða. Gildir þá ekki sama um það að einnig að því leyti til er Samfylkingin þátttakandi, samþykkur þátttakandi í vinnuferli sem er í gangi? Þetta eru staðreyndir á málinu, herra forseti, en ekki uppdiktun af minni hálfu.

Auðvitað ber að skoða málflutning og tillöguflutning þingmanna og þingflokka í ljósi m.a. þessara upplýsinga sem liggja fyrir. Og í samræmi við það er að sjálfsögðu að nokkru leyti tillöguflutningur okkar, bæði þingflokkanna eða þingmanna sitt í hvoru lagi í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði og Frjálslynda flokknum, og eins það sem þessir þingflokkar hafa sameinast um. Hann tekur að sjálfsögðu mið af staðreyndum málsins og þeim veruleika sem uppi er og því vinnuferli sem í gangi er. Nema hvað? Við erum þátttakendur í því að hluta til, höfum fallist á að skipa fulltrúa okkar í endurskoðunarnefnd laga um stjórn fiskveiða þar sem er hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson. Ég hélt satt best að segja að sama ætti við um þingflokk Samfylkingarinnar.

Að sjálfsögðu er ekkert við það að athuga eftir sem áður og fagnaðarefni að Samfylkingin sýni sig og geri í frumvarpsformi útfærðar tillögur sínar um ákveðna þætti málsins. Það er bara hið besta mál. Það hefur ekki staðið til og mun ekki standa til af minni hálfu að amast við því sem slíku. En ég get að sjálfsögðu farið út í að segja á þeim kost og löst ef eftir því er sérstaklega óskað, eins og hér var reyndar gert. Ég tel það frv. götótt og langt frá því að ná utan um málið í heild sinni og langt frá því að vera nokkra patentlausn. Ég sé í því ákveðna þætti sem ég er ekki sammála og sé ekki sem mikla framför frá núgildandi ástandi satt best að segja, herra forseti. Sérstaklega er það í raun, svo ég ítreki það og undirstriki, sú útfærsla sem mér kom mjög á óvart, að Samfylkingin gerir ráð fyrir áframhaldandi leigufyrirkomulagi og að því ég fæ best séð fullkomlega frjálsum eftirmarkaði með leiguheimildir í kjölfar uppboðanna innan hvers árs. Það hélt ég að væri hlutur sem menn vildu koma út úr heiminum og öllu því sem leigunni hefur fylgt, því braski, þeim deilum sjómanna og útvegsmanna o.s.frv. sem eins og kunnugt er hafa einkum og sérstaklega tilheyrt því fyrirkomulagi og ég held að mestur ófriður hafi staðið um í raun og veru innan kerfisins allt frá því að þau mistök voru gerð að setja þann möguleika inn í lögin.

Herra forseti. Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa um þetta fleiri orð. Mér hefur komið málflutningur þingmanna Samfylkingarinnar á óvart, já, það er rétt, undir forustu hv. þingflokksformanns Rannveigar Guðmundsdóttur. Það er frekar óvenjulegt og óhefðbundið að stjórnarandstöðuflokkar geri sérstaklega út á það og geri sér far um að gera lítið úr tillöguflutningi og málflutningi annarra þingmanna eða þingflokka í stjórnarandstöðunni. Auðvitað hafa menn fullan rétt til að gagnrýna það sem þeim finnst vera gagnrýnivert en það hefur vakið athygli mína, og ég tel að ég geti talað þar af nokkurri reynslu, að það er nokkuð óvenjulegt hvernig þingmenn Samfylkingarinnar hafa talað hér í dag og hv. formaður þingflokksins í sjónvarpinu í gær. Oftar en hitt hefur verið venjan að þingmenn stjórnarandstöðu snúi frekar bökum saman og beini kröftunum að því að gagnrýna framgöngu stjórnvalda eftir því sem hún er gagnrýniverð og láti frekar kyrrt liggja í málflutningi eða tillöguflutningi félaga sinna í stjórnarandstöðunni þar sem þeir eru þá kannski ekki fullkomlega sáttir við.

Ég minni t.d. á að með afar fáum undantekningum sitja menn hjá í atkvæðagreiðslum við brtt. eða málflutning annarra stjórnarandstöðuþingmanna eða flokka nema sérstök tilefni eða ástæður gefist til þess að beita sér sérstaklega gegn þeim.

Allt er þetta auðvitað breytingum undirorpið og kannski erum við að einhverju leyti að upplifa í þessum efnum nýja tíma og þá það. Þá mæta menn því eins og öðru sem á vegi manna verður. En ég verð að segja, herra forseti, að ég átti ekki von á þessu og hefði talið að hitt væri skynsamlegra og þarfara að menn leituðu meira að hinu sem menn gætu sameinast um. Það er þrátt fyrir allt ýmislegt eins og hér hefur verið bent á og væri ágætt veganesti, held ég, í talsverða málefnalega samstöðu þó að vissulega greini menn á um ýmislegt. Einhvern veginn hefur þjóðinni og okkur stjórnmálamönnunum ekki tekist svo vel á þessum hátt í 17 árum sem liðin eru frá því að svokallað kvótakerfi var hér innleitt að ná samstöðu um það og betrumbæta eða finna annað í staðinn sem menn væru ánægðari með, að auðvelt sé að rökstyðja með vísan til sögunnar að skortur sé á því að menn lesi í sundur ágreininginn um hlutina, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson gerði sér sérstaklega far um að gera í máli sínu hér fyrr í dag.