Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 19:22:19 (6750)

2000-04-27 19:22:19# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[19:22]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Sjálfsagt þykir einhverjum nóg kveðið. Ég vil taka fram að mér er ljúft að staðfesta að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir getur mjög vel verið og sennilega er upphafsmaður að því að flytja inn á þing hugmyndir um einhvers konar meðaflareglur. A.m.k. get ég staðfest að ég hygg að ég hafi fyrst tekið þátt í rökræðum um einmitt slíka möguleika á heimili hv. þm. að Sognstúni 4 á Dalvík forðum daga.

Varðandi það sem hefur stofnað til þeirrar miklu umræðu sem hér hefur orðið, þ.e. ummæli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur í sjónvarpsþætti í gærkvöldi, þá liggur það fyrir sem staðreynd sem verður ekki hrakin að hv. þm. fór þar ekki rétt með og tók ekki ábendingum eða leiðréttingum um að það væri ekki rétt að þingmenn Frjálslynda flokksins eða þess vegna Vinstri hreyfingar -- græns framboðs hefðu eingöngu flutt tillögur um enn eina nefnd í sjávarútvegsmálum. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir átti þess síðan kost í dag að leiðrétta sig en kaus að gera það ekki og þvert á móti. Ég tel að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefði með einfaldri og þess vegna óbeinni afsökunarbeiðni getað eytt þessu máli og sennilega stytt þingfundinn um eina fjóra klukkutíma. Það gerði hv. þm. ekki og því fór sem fór.

Að lokum vil ég leiðrétta þann misskilning að ég geri meiri siðferðiskröfur til Samfylkingarinnar en annarra flokka, það geri ég ekki.