Lausafjárkaup

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 19:29:13 (6754)

2000-04-27 19:29:13# 125. lþ. 103.12 fundur 110. mál: #A lausafjárkaup# (heildarlög) frv. 50/2000, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[19:29]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um lausafjárkaup. Frv. þetta er mikið að vöxtum og er hátt í 100 greinar enda er þessi lagabálkur einn af grundvallarlögum viðskipta. Núgildandi lög eru frá árinu 1922.

Frv. þetta sem er til umfjöllunar er byggt á norrænni vinnu í meginatriðum og fyrirmyndin er einkum fengin frá Noregi. Einnig hefur frv. verið aðlagað að svokölluðum CISG-samningi Sameinuðu þjóðanna frá 1980 um sölu á vörum milli ríkja og þá var höfð til hliðsjónar við samningu frv. tilskipun Evrópusambandsins nr. 99/44/EB.

[19:30]

Nefndin fjallaði um þetta mál á allmörgum fundum og sendi málið til umsagnar. Hún fékk umsagnir frá ýmsum aðilum, kallaði þá til fundar og þess er getið í nefndaráliti hverjir það voru.

Nefndin leggur til ýmsar breytingar á frv. Breytingarnar eru á þskj. 1049. Þær eru í einum 29 liðum. Flestar þessar breytingar eru reyndar orðalagsbreytingar. Efnisbreytingarnar eru einkum sjö. Það er fyrst við 8. gr. frv. þar sem þess er getið að ef söluhlutur sé ekki tryggður í flutningi þá skuli seljandi tilkynna kaupanda um það. Ástæðan fyrir þessu er að það þarf að taka þarna af öll tvímæli um hver beri ábyrgð á því að það sé upplýst eða komi fram hvernig flutningar eru tryggðir.

Síðan eru á ýmsum stöðum tekin af tvímæli, þ.e. að þar sem kemur fyrir að heimilað er að semja um að víkja frá efni laganna um neytendakaup, þá þurfi það að vera skilyrði að slíkir samningar séu kaupanda í hag.

Í þriðja lagi er lögð til breyting á 25. gr. sem felur í sér ákveðna viðbót þannig að kaupandi geti rift kaupum meðan viðbótarfrestur er að líða og ljóst er að seljandi muni ekki efna sinn hluta samnings.

Í fjórða lagi er lögð til breyting á 3. mgr. 32. gr. þar sem fjallað er um byggingarefni. Lagt er til að málsgreinin orðist svo, með leyfi forseta:

,,Við sölu á byggingarefni, sem ætlaður er verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti, er frestur til að bera fyrir sig galla fimm ár frá því að efninu var veitt viðtaka.``

Um þetta atriði var nokkuð mikið rætt í nefndinni. Það þykir ástæða til þess að hlutir, byggingarefni, sem ætlað er að endast áratugum ef ekki öldum saman þurfi að sæta því að lengri frestur sé varðandi þá til að tilkynna galla en almennt tíðkast um söluhluti sem hafa miklu skemmri endingartíma. Niðurstaðan varð sú í nefndinni að skilgreina það hugtak að byggingarefni þyrfti að hafa verulega lengri endingartíma til þess að þessi fimm ára regla ætti við. Nú mun eflaust þurfa að þróast einhvers konar dómsvenja um það hvað teljist vera verulega lengri endingartími og það mun væntanlega skilgreinast í tímans rás og einnig geta tekið breytingum eftir því hvernig efni sem notuð eru til bygginga breytast.

Í fimmta lagi er lagt til varðandi 2. mgr. 48. gr. að auk greiðslu í reiðufé sé kaupanda heimilt að inna greiðslu af hendi með öðrum viðurkenndum greiðslumiðlum. Þetta er gert með tilliti til þess að greiðslumiðlarnir geti breyst eins og við höfum öll orðið vör við, virðulegi forseti.

Í sjötta lagi er lagt til að kveðið verði skýrar á um greiðsluskyldu skuldara. Þar er verið að bæta við greinina upptalningu eins og t.d. á vaxtafæti, upphafstíma vaxta og útreikningi vaxta.

Síðasta efnislega breytingin sem nefndin leggur til er bráðabirgðaákvæði sem er ætlað að gilda út árið 2005. Í því felst að viðskrh. skipi kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa. Miðað er við að nefndarmenn séu þrír og að ráðherra skipi einn nefndarmanna eftir tilnefningu Neytendasamtakanna, annan eftir tilnefningu Verslunarráðs Íslands og þann þriðja skipi ráðherra án tilnefningar og skuli hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Sá skal fullnægja skilyrðum til að vera dómari. Kostnaður af störfum þessarar nefndar greiðist úr ríkissjóði. Hlutverk hennar er að greini aðila að lausafjárkaupum á um réttindi sín og skyldur samkvæmt lögum þessum geti þeir, einn eða fleiri, snúið sér til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa og óskað eftir álitsgerð nefndarinnar um ágreiningsefnið. Niðurstöðum kærunefndar verður ekki skotið til annarra stjórnvalda en aðilar geta að sjálfsögðu lagt ágreining sinn fyrir dómstól með venjulegum hætti. Viðskrh. skal síðan með reglugerð setja nánari ákvæði um valdsvið og verkefni kærunefndar, málsmeðferðarreglur fyrir nefndina og störf hennar að öðru leyti.

Virðulegi forseti. Undir þetta nefndarálit rita allir nefndarmenn, en þrír nefndarmenn, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson, hafa fyrirvara sem væntanlega verður gerð grein fyrir.