Lausafjárkaup

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 19:36:49 (6755)

2000-04-27 19:36:49# 125. lþ. 103.12 fundur 110. mál: #A lausafjárkaup# (heildarlög) frv. 50/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[19:36]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég skrifa undir þetta nefndarálit með fyrirvara og reyndar einnig hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson.

Ég tel að þær brtt. sem hv. formaður nefndarinnar hefur mælt hér fyrir séu allar til bóta og að þetta frv. sé í það heila tekið gott og styrki neytendavernd í landinu. En ég taldi ástæðu til þess að taka upp tvær brtt. sem Neytendasamtökin hafa lagt verulega áherslu á. Það náðist ekki samstaða um þær í nefndinni, en ég tel að þær séu vel rökstuddar og bæti frv. enn frekar. Þær eru um hvernig fara skuli með óbeint tjón þegar það kemur upp og hin tillagan varðar skaðabætur. Ég geri tillögu um breytingu, með leyfi forseta:

,,Við 2. mgr. 11. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sé ekki samið um hver skuli greiða sendingarkostnaðinn ber seljanda að greiða hann.``

Um þetta hafa Neytendasamtökin sagt að óbeint tjón geti verið mikið í neytendakaupum og jafnvel meira en kostnaðurinn við að lagfæra hlutinn. Þetta getur t.d. átt við flutningskostnað, en Neytendasamtökin fóru í prófmál fyrir þó nokkrum árum síðan þar sem þau létu reyna á það hvort fyrirtæki gæti með ábyrgðarskírteini kveðið á um að seljandi væri undanþeginn bótaskyldu vegna flutningskostnaðar. Slíkt taldi Hæstiréttur ekki geta staðist, enda var talið að slíkt væri ekki samrýmanlegt þágildandi lögum um verðlag og samkeppnishömlur þar sem ábyrgðarskírteini veitti neytanda lakari rétt en samkvæmt lögum um lausafjárkaup. Neytendasamtökin höfðu sigur í því máli fyrir neytandann og því telja samtökin fráleitt að hægt sé að semja sig undan þessu. En með því að lögfesta þær heimildir er opnað fyrir leið hjá seljendum að semja sig undan slíku.

Ég tek undir þessi sjónarmið og rök sem hér hafa verið færð fram og flyt brtt. til þess að færa þetta í þann búning sem Neytendasamtökin telja eðlilegri og réttlátari.

Hin brtt. lýtur að því að Neytendasamtökin telja fráleitt að heimilt sé að semja um það í neytendakaupum að ekki skuli greiða skaðabætur vegna óbeins tjóns og leggja því til þá breytingu á 4. mgr. 67. gr. frv. að hún verði felld út og það kemur einnig fram í þeirri brtt. sem ég flyt á sérstöku þingskjali.