Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 20:28:21 (6769)

2000-04-27 20:28:21# 125. lþ. 103.45 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[20:28]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Umræða þeirra félaga minna í hv. efh.- og viðskn. hér í andsvörum er kannski komin nokkuð víðs fjarri frv. sjálfu. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið en leggja hér nokkur orð í belg.

Ég hygg að öll meginatriðin séu komin fram en rétt að minna á það að sú var tíðin að lífeyrissjóðir höfðu afskaplega lítið svigrúm til að fjárfesta og ávaxta sitt pund, ef svo má segja, meðan skorður hér á peningamarkaði voru mjög þröngar. Þróunin á síðustu árum hefur verið sú að peningamarkaður hefur verið að opnast. Sú hugsun hefur verið að færast inn í lífeyrissjóðina og þeir í vaxandi mæli verið að fjárfesta til að verja sig til framtíðar, má segja, einkum hér innan lands. Ég hygg að lífeyrissjóðirnir eigi drjúgan þátt í því mikla uppbyggingarstarfi sem fram hefur farið í íslensku þjóðlífi á undanförnum árum og jafnvel áratugum.

Hins vegar er íslenskur fjármagnsmarkaður afskaplega lítill í raun og veru og lífeyrissjóðirnir saman lagðir mjög digrir, eins og hér hefur komið fram. Þetta frv. gengur í raun ekki út á annað en að opna möguleika eða auka möguleika lífeyrissjóðanna á því að hafa heiminn undir, ef svo má segja, að geta fjárfest í enn meiri mæli erlendis og þar með dreift áhættu. Það er að sjálfsögðu aðalatriði og lykilatriði í þessu að hér er um það að ræða að dreifa áhættu fyrir lífeyrissjóði þannig að þeir styrki sig betur til framtíðar.

[20:30]

En það er rétt, herra forseti, sem hefur verið bent á að þessi skref þarf að stíga varlega. Ég hygg að sú reynsla sem fengist hefur af lífeyrissjóðunum og stjórnun þeirra á síðustu árum sýni að þeim sé fyllilega treystandi til þess og með því að hafa í rauninni heiminn undir eru þeir að auka öryggi sitt til framtíðar litið. Einnig er rétt að vekja athygli á því að hér er lagt til að upplýsingagjöf til sjóðfélaga sé efld og tilfinning þeirra fyrir lífeyrissjóðum sínum þar með aukin.

Hvað varðar þær deilur sem fóru fram í andsvörum á milli ágætra hv. félaga minni í efh.- og viðskn. skiptir miklu máli hvort menn beri traust til stjórna lífeyrissjóðanna og starfsmanna þeirra og hvernig þeir véla með þá dýrmætu sjóði sem þeim er trúað fyrir. Ég hef enga ástæðu til að vantreysta þeim og ítreka að aðalatriðið í þessu er að styrkja lífeyrissjóði íslenskra launþega til framtíðar. Þess vegna er ég hlynntur frv.