Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 20:40:30 (6772)

2000-04-27 20:40:30# 125. lþ. 103.45 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[20:40]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Á venjulegum aðalfundum eru bornir upp ársreikningar og þeir sem mæta á aðalfundi hafa auðvitað áhrif á það hvort ársreikningar eru samþykktir eða athugasemdir gerðar við þá.

Ég vona að ég hafi ekki talað svo að það hafi mátt misskilja mig að tryggingafræðingurinn, hv. þm. Pétur H. Blöndal, þekkti ekki og skildi ekki eðli lífeyrissjóðanna. Ég dreg þau orð til baka ef mér hefur orðið fótaskortur á tungunni. Hitt er svo annað mál, eins og ég sagði hér áðan, að mér finnst bera allt of mikið á því í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að það sé ávöxtunin og það séu hin litlu áhrif sjóðfélaganna sem skipti öllu máli um framgang þeirra.

Ég nefndi örorkuþáttinn í lífeyrissjóðunum sem ég tel að eigi ekki að vera þar í svo ríkum mæli sem raun ber vitni í lífeyrissjóðunum. Ef hann væri ekki og honum væri fundinn staður annars staðar innan tryggingakerfisins, hvort sem það er á vegum ríkis eða tryggingafélaga, þá væru margir lífeyrissjóðir miklu betur staddir.

Og að það skipti öllu máli hve margir mæti á aðalfund til að hafa áhrif, ég sé það ekki í hendi mér í öðru formi en því sem ég gat hér um áðan, að það sé eðlilegt að menn mæti á aðalfundi til þess að hafa áhrif þar á. Hins vegar hafa svo sjóðfélagar í verkalýðsfélögunum auðvitað áhrif á kjör manna í stjórn lífeyrissjóðanna með því að hafa áhrif á hverjir eru kosnir í stjórn viðkomandi stéttarfélags.

Núna er þessi feiknarlegi áhugi stjórnvalda á lífeyrissjóðunum sem hafa nánast verið afskiptir í tvo áratugi eða á þriðja áratug þar sem menn hafa verið að berjast við verðbólgu og reyna að vinna af mætti að eiga fyrir skuldbindingum sínum. Núna allt í einu er þessi feiknaáhugi og að þeir standi bara sig ekki nógu vel að áliti margra. En það er rangt.