Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 20:50:06 (6777)

2000-04-27 20:50:06# 125. lþ. 103.45 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[20:50]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Gegn hverjum hefur verkalýðshreyfingin varið lífeyrissjóðina? Það hefur hreyfingin þurft að gera gagnvart ríkisvaldi, t.d. þegar kom fram frv. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. (Gripið fram í.) Fjölmörg dæmi má nefna um þá staðreynd að verkalýðshreyfingin hafi þurft að standa í fæturna fyrir hönd lífeyrissjóðanna gagnvart ríkisvaldinu og lagasetningu sem hér hefur átt að knýja í gegn. Þetta er staðreynd.

Ég skal nefna annan aðila. Það er úr heimi sem hv. þm. þekkir ágætlega, það er úr fjármálaheiminum. Fjármálafyrirtækin hafa ásælst lífeyrissparnaðinn og því miður verið mjög óábyrg í því efni; lagt minna upp úr samtryggingu margvíslegri en verkalýðshreyfingin hefur lagt áherslu á hana. Ef verðbréfafyrirtækin og fjármálafyrirtækin hefðu haft sitt fram, værum við ekki með eins traust samtryggingarkerfi í lífeyrismálum og við þó búum við. Það er skoðun mín að svo sé.

Hvernig yrði farið með einstaklinga sem brjóta af sér í starfi eða standa ekki sína plikt í stjórnum lífeyrissjóðanna? Ég geri ráð fyrir að það eigi við í því eins og öðrum trúnaðarstöðum sem verkalýðshreyfingin velur fulltrúa sína til, ef menn ekki rísa undir þeirri ábyrgð sem þeim er ætlað að axla, þá eru að sjálfsögðu valdir aðrir fulltrúar sem eru líklegir til að gera slíkt.