Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 20:53:15 (6779)

2000-04-27 20:53:15# 125. lþ. 103.45 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[20:53]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ekki sé til nein patentlýsing á því hvernig er tekið á mistökum innan verkalýðshreyfingar fremur en að slík lýsing sé til á viðbrögðum ársfunda eða hluthafa eða eigenda fyrirtækja. Ég held að allur gangur sé á því og líka hinu hvernig menn fara að því að skilgreina mistök.

En hv. þm. innir mig eftir því sem ég sagði að fjármálafyrirtæki hefðu að mínum dómi sýnt óábyrga afstöðu. Hv. þm. minnist þess eflaust að tekist var á um það fyrir fáeinum árum hvernig bæri að skilgreina lífeyrissjóði og lífeyrisréttindi og hvar mörkin ættu að liggja, hve mikið ætti að renna til samtryggingar sjóða. Þar tókust á annars vegar hinir hefðbundnu lífeyrissjóðir og hins vegar fjármálafyrirtæki sem vildu komast yfir þennan sparnað og voru jafnvel farin að vísa til lífeyrissjóða, kalla lífeyrissjóði sparnaðarform, sem í reynd var ekkert annað en bankabækur eða einstaklingsreikningar. Menn tókust á um það hér í þessum sal og mér fannst það óábyrg afstaða að reyna að draga úr samtryggingarkerfinu sem lífeyrissjóðirnir hafa byggt upp og vilja standa vörð um og treysta til framtíðar.