Þjónustukaup

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 20:58:01 (6782)

2000-04-27 20:58:01# 125. lþ. 103.10 fundur 111. mál: #A þjónustukaup# frv. 42/2000, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[20:58]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. við frv. til laga um þjónustukaup. Þetta er ný löggjöf og kveður á um réttindi og skyldur aðila að þjónustukaupum. Nefndin sendi þetta mál til umsagnar og fékk á fund sinn allmarga aðila sem getið er um í nál. Nefndin hefur fjallað um þetta á fyrri þingum þar sem málið var til umfjöllunar bæði á 122. og 123. löggjafarþingi. Málið er þess vegna nokkuð vel þekkt í þinginu en engu að síður gerir efh.- og viðskn. tillögu til breytinga á málinu í einum 11 liðum. Fyrst og fremst eru þessar brtt. vegna orðalags eða tæknilegra atriða. Ég vil þó geta um nokkrar þessara brtt.

Í fyrsta lagi er tekið fram að ef til riftunar samnings kemur geti seljandi aðeins krafist greiðslu fyrir ógallaða vinnu og þannig er tekinn allur vafi af um að neytanda sé ekki skylt að greiða fyrir gallaða vinnu. Þetta er í 5. lið brtt.

Síðan er lagt til að tekið verði upp sérstakt bráðabirgðaákvæði um kærunefnd sem er sambærilegt eða sams konar og það bráðabirgðaákvæði sem fjallað er um í brtt. í lögum um lausafjárkaup. Þetta er sama nefndin sem á að fjalla um bæði lausafjárlögin og þjónustukaupalögin. Gert er ráð fyrir því að þessi nefnd starfi frá gildistöku laganna út árið 2005. Það eru þrír nefndarmenn og niðurstöðum þessarar kærunefndar verði ekki skotið til annarra stjórnvalda, en aðilar geti að sjálfsögðu lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti. Gert er ráð fyrir því að viðskrh. setji með reglugerð nánari ákvörðun um valdsvið og verkefni kærunefndar og málsmeðferðarreglur og störf að öðru leyti. Síðan er gert ráð fyrir því í tillögu efh.- og viðskn. að lögin taki gildi 1. júní 2001 og það verði þá bæði lausafjárkaupalögin og þessi lög sem taki gildi á sama tíma. Virðulegi forseti. Undir þetta rita allir nefndarmenn efh.- og viðskn.