Lagaskil á sviði samningaréttar

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 21:16:38 (6786)

2000-04-27 21:16:38# 125. lþ. 103.13 fundur 70. mál: #A lagaskil á sviði samningaréttar# frv. 43/2000, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[21:16]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nál. efh.- og viðskn. við frv. til laga um lagaskil á sviði samningaréttar. Þetta er heilmikill bálkur sem fjallar um lög hvaða lands gilda þegar það er ekki ljóst í viðskiptum sem gerð eru milli landa. Frv. hefur afmarkað gildissvið og þar eru kaflar um meginreglur, um sönnunarbyrði o.fl.

Nefndin sendi málið til umsagnar og fékk á sinn funda fulltrúa ýmissa aðila eins og fram kemur í nefndaráliti

Hugmyndin með frv., að búa til nýjan lágabálk á þessu sviði, er að bæta úr brýnni nauðsyn á því að í lögum sé að finna skýrar reglur um það hvaða lög eigi að leggja til grundvallar í viðskiptum tveggja aðila sem ekki eru búsettir í sama ríki. Þetta er byggt á samningi um lagaskil sem aðildarríki Evrópusambandsins undirrituðu 1980, á sjálfan kvennadaginn. Sá samningur er kallaður Rómarsamningurinn, en er hins vegar ekki stofnsamningur Evrópusambandsins.

Nefndin ræddi sérstaklega 6. gr. frv. um vinnusamninga og dvaldist dálítið lengi við það mál. Málið var í rauninni afgreitt út úr nefndinni fyrir alllöngu síðan en af ýmsum ástæðum hefur það ekki komið inn í þingið fyrr en nú þar sem verið var að fjalla um þetta eina atriði, þ.e. spurninguna um hvort eðlilegt væri að setja einhver tímamörk á hugtakið tímabundið í a-lið 2. mgr. 6. gr. sem fjallar um vinnusamninga. Nefndin ákvað eftir ítarlega skoðun að leggja það ekki til þar sem rétt er að dómstólar taki ákvörðun um það á grundvelli málsatvika hverju sinni. Þá er þetta hugtak ekki tímabundið í neinu af ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, þ.e. það er ekki niðurneglt hvað tímabundið nákvæmlega þýðir langan tíma heldur fer það eftir ýmsum ástæðum sem geta verið mjög misjafnar í hverju tilviki. Nefndin leggur þó áherslu á það í sínu nefndaráliti að að jafnaði eða almennt verði hugtakið tímabundið í þessu sambandi ekki látið ná til lengri tíma en tveggja mánaða.

Nefndin gerir ýmsar tillögur um breytingar á frv. og eru þær í ellefu liðum.

Í 1. lið brtt. er orðalagsbreyting.

Í 2. lið brtt. er gerð tillaga um breytingu á 3. mgr. 3. gr., þ.e. að endurorða greinina þannig að hún verði til samræmis við þann texta sem í hinum alþjóðlega samningi gildir.

Í 3. lið brtt. eru gerðar orðalagsbreytingar við 4. gr. frv.

Í a-lið 4. liðar brtt. er orðalagsbreyting við b-lið 4. mgr. 5. gr. frv. en í b-lið 4. liðar brtt. er verið að bæta við 5. gr. frv. nýrri málsgrein, svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. eiga ákvæði þessarar greinar við um samning um kaup á ferð þegar gisting er innifalin í kaupverði.``

Ákvæði þessa efnis eru í samningi þeim sem frv. byggir á og rétt að það sé líka í lagatextanum ef frv. verður samþykkt.

Í 5. lið brtt. er gerð tillaga til breytinga á 6. gr. frv. Ég fjallaði reyndar aðeins um 6. gr. hér fyrr. Í a-lið 5. liðar er gert ráð fyrir því að hugtakið vernd verði notað í stað réttarstöðu. Í b-lið er verið að bæta inn, í stað 2. mgr., tveimur málsgreinum, með leyfi forseta, svohljóðandi:

,,Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. skulu eftirfarandi lög gilda um vinnusamninga sem ekki hafa ákvæði að geyma um lagaval:

a. lög þess lands þar sem launþegi starfar að jafnaði, enda þótt honum hafi tímabundið verið falin störf í öðru landi, eða

b. ef launþegi starfar að jafnaði ekki í neinu tilteknu landi gilda lög þess lands þar sem sú starfsstöð er sem réð hann til starfa.

Ákvæði 2. mgr. eiga ekki við ef annað leiðir af aðstæðum í heild eða samningurinn hefur meiri tengsl við annað land en það sem a- og b-liðir vísa til. Í því tilviki gilda lög þess lands.``

Þetta eru breytingar á uppsetningu og orðalagi.

Í 6. lið brtt. er gerð tillaga til breytingar á 9. gr. frv. þar sem eru orðalagsbreytingar.

Í 7. lið er enn fremur lögð til orðalagsbreyting á 10. gr. frv. Ástæða þessarar breytingar er að bætur vegna vanefnda, sem þar er fjallað um, eru ekki alltaf byggðar á settum lögum heldur eru þær alloft byggðar á öðrum réttarheimildum, svo sem dómafordæmum og óskráðum meginreglum laga. Það er líka verið að taka tillit til þess í þessu orðalagi, þ.e. að vísað sé í lagareglur en ekki beint í lög.

Í 8. lið brtt. er lagt til að orðalag 12. gr. frv. verði lagfært til samræmis við Rómarsamninginn.

Í 9. lið brtt. er lögð til orðalagsbreyting á 14. gr. frv.

Í 10. lið brtt. er lagfæring á orðalagi í 17. gr. frv.

Síðan er í 11. lið brtt. lögð til breyting 18. gr. frv., þ.e. endurorðun á greininni til þess að gera hana skýrari og markvissari.

Þá telur nefndin að frágangur málsgreina í frumvarpinu sé ekki í samræmi við þá meginreglu í frágangi frumvarpa að hafa málsgreinar ónúmeraðar. Ekki er rökstutt sérstaklega af hvaða ástæðu málsgreinar eru númeraðar og því verða númer málsgreina felld niður og stafliðum breytt í töluliði í lokafrágangi verði frv. samþykkt.

En nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum og undir þetta nefndarálit rita allir hv. nefndarmenn.