Lagaskil á sviði samningaréttar

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 21:24:18 (6787)

2000-04-27 21:24:18# 125. lþ. 103.13 fundur 70. mál: #A lagaskil á sviði samningaréttar# frv. 43/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[21:24]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er enn eitt frv. sem við fáum þar sem fjallað er um verslun og viðskipti. Hér er þó fyrst og fremst verið að tala um verslun og viðskipti milli landa. Aukið viðskiptafrelsi milli landa hefur kallað á lagasetningu eins og þessa sem er frekar flókin. En eftir alla þá vinnu sem efh.- og viðskn. lagði í frv. erum við að skila sameiginlegri niðurstöðu.

Ég bendi á það enn og aftur --- þetta er þriðja eða fjórða frv. frá efh.- og viðskn. sem ég kem hér til þess að ræða --- að stærstur hluti brtt. felst í orðalagsbreytingum. Brtt. sem getið er um í nefndarálitinu eru í 11 liðum. Af þessum 11 liðum eru líklega einir sjö eða átta þar sem um er að ræða orðalagsbreytingar, þ.e. eins og segir lagfæringu á orðalagi, breytingar á uppsetningu og orðalagi og smávægilegar orðalagsbreytingingar, lagfæringar á orðalagi, lagfært orðalag, lagfæring á orðalagi, þá er lögð til lagfæring á orðalagi og lagðar til breytingar til að gera greinina skýrari og markvissari.

Svo virðist vera æðioft að við erum að fá til okkar frv. þar sem ekki er eingöngu um að ræða beinar efnislegar breytingar heldur er fyrst og fremst verið að laga orðalag til þess að gera frv. sem verða að lögum skiljanlegri fyrir þá sem þau snerta.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna hvað þetta varðar. Ég vil aðeins ítreka að þarna hefur náðst mjög gott samstarf og ég vil, virðulegi forseti, þakka hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni formanni efh.- og viðskn. --- við erum hér með þó nokkuð mörg mál á dagskránni í dag --- og fyrir þá góðu samvinnu sem er í þessari ágætu nefnd og hefur verið um þau mál sem við erum hér að klára frá okkur.