Viðskiptabankar og sparisjóðir

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 21:29:06 (6789)

2000-04-27 21:29:06# 125. lþ. 103.44 fundur 489. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (póstþjónusta) frv. 48/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[21:29]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Við í stjórnarandstöðu eða minni hluta höfum undirritað þetta nál., þó einn fulltrúi, hv. þm. Ögmundur Jónasson, með fyrirvara. Þarna er um það að ræða að viðskiptabönkum og sparisjóðum sé heimilt samkvæmt sérstökum samningi að taka að sér að veita póstþjónustu fyrir hönd aðila sem leyfi hefur til að veita slíka þjónustu. Til framangreindrar starfsemi þarf samþykki Fjármálaeftirlitsins og það þurfti lagabreytingu til þess að þessi breyting væri heimilt.

Það hefur gerst í þó nokkrum tilvikum að bankar hafa tekið að sér að sjá um póstþjónustuna fyrir Íslandspóst og það færist í vöxt á landsbyggðinni þar sem um smærri póststöðvar er að ræða að verið sé að loka þeim, leggja niður starfsemi þeirra og færa þjónustuna yfir í viðskiptabanka sem staðsettur er á viðkomandi svæði.

[21:30]

Fyrir stuttu síðan var tekin ákvörðun um að loka fjórum póststöðvum á Suðurlandi: í Vík, á Klaustri, Flúðum og Laugarvatni. Í gangi voru samningaviðræður um að færa þessa þjónustu yfir í verslanir á staðnum, sjoppur eða bankana. Ég tel að ef niðurstaðan verður að leggja af sérstakar póstþjónustustöðvar þá sé skömminni skárra að færa þjónustuna yfir í bankana en í næstu verslun eða sjoppu. Þarna er um að ræða þjónustu þar sem m.a. er trúnaðarskylda á starfsmönnum, sem hlýtur að reynast erfitt að framfylgja þegar búið er að setja póstþjónustuna í næstu sjoppulúgu eða í næstu verslun.

Við hljótum að vekja athygli á því að þarna eru lögð niður kvennastörf. Bara í þessum fjórum póststöðvum sem þarna um ræðir, er líklega verið að leggja niður sjö eða átta stöðugildi sem allt eru kvennastörf. Konur hafa unnið þarna árum saman og þær munu eiga erfitt með að fá aðra vinnu. Þetta er allt saman gert í hagræðingarskyni hjá Íslandspósti sem um leið auglýsir ókeypis pakkadreifingu hér í Reykjavík, pakkaþjónustu og heimkeyrslu. Á meðan er á vissan hátt dregið úr þjónustunni úti á landi.

Fyrir stuttu var rætt um það í sölum Alþingis að fá fimm daga póstdreifingu í dreifbýlið, að það væri mikið sanngirnismál fyrir dreifbýlið. En ég efast um, virðulegi forseti, væri það sett í atkvæðagreiðslu í dreifbýlinu að velja milli þess að loka póststöðvunum og þeirri þjónustu sem veitt er á póststöðvum og þess að fara í fimm daga dreifingu á pósti, að menn veldu fimm daga dreifinguna. Það kostar sitt en væri gert á kostnað þess að vera með sérstakar póstþjónustustöðvar. Þó væri alla vega skárri kostur að færa póstþjónustuna yfir í viðkomandi viðskiptabanka en í næstu sjoppulúgu.