Íslensk málnefnd

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 21:39:57 (6791)

2000-04-27 21:39:57# 125. lþ. 103.14 fundur 501. mál: #A Íslensk málnefnd# (tengsl við Háskóla Íslands, forstöðumaður) frv. 44/2000, Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[21:39]

Frsm. menntmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 2/1990, um Íslenska málnefnd, með síðari breytingum.

Með frv. er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um Íslenska málnefnd er varða ráðningu forstöðumanns og rekstrargrundvöll stofnunarinnar. Þannig er lagt til að menntmrh. skipi forstöðumann til fimm ára í senn í samræmi við meginreglu laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og jafnframt er gert ráð fyrir að Íslensk málstöð verði sjálfstæð stofnun og ekki rekin í lögbundinni samvinnu við Háskóla Íslands.

Fram kom í máli forsvarsmanna Íslenskrar málnefndar og Háskóla Íslands að sátt ríkir um frumvarpið, enda er hér einungis um tæknilegar breytingar að ræða en ekki efnislegar, og jafnframt var lögð áherslu á áframhaldandi tengsl stofnananna.

Nefndin tekur undir framangreindan skilning gesta. Nefndin er sammála um að breyta þurfi orðalagi 2. gr. og leggur til að frv. verði samþykkt með breytingu sem kynnt er í nál. Breytingin varðar 2. gr. frv. og er þar lagt til að 4. gr. laganna orðist svo:

,,Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Íslenskrar málstöðvar til fimm ára í senn. Forstöðumaður skal hafa lokið meistaraprófi eða jafngildu prófi í íslenskri málfræði. Leita skal álits Íslenskrar málnefndar um umsækjendur um stöðu forstöðumanns áður en skipað er í stöðuna.

Forstöðumaður ræður annað starfsfólk. Hann stjórnar daglegum rekstri málstöðvarinnar og gefur ráðherra árlega skýrslu um starfsemi stöðvarinnar.``

Hér er ekki um að ræða ýkja efnismiklar breytingar. Ég verð þó að segja eins og er, af því að sá sem hér stendur er einn af nefndarmönnum sem skrifar undir þetta nál., að sennilega hefði nefndin mátt sitja lengur yfir þessu litla frv. Hér spunnust áðan nokkrar umræður um málfar á lagatextum og játaði hv. þm. Margrét Frímannsdóttir að stundum væri svo komið fyrir þingmönnum, þegar þeir væru búnir að sitja klukkustundunum saman yfir texta, að þeir yrðu sáttir við texta sem þeir upphaflega hefðu alls ekki skilið.

Þegar ég les nú þetta frv. þá tek ég eftir setningu í 1. gr. laganna sem er svo: ,,Íslensk málnefnd er málræktar- og málverndarstofnun ...`` Það væri nú nokkuð hastarlegt ef það kæmi svo í ljós í 2. gr. frv. að þar væri einhver málfarslegur hortittur. En þegar ég les 2. gr. þá sé ég að þar stendur: ,,Leita skal álits Íslenskrar málnefndar um umsækjendur um stöðu forstöðumanns áður en hann er skipaður í stöðuna.``

Það er mjög mikilvægt að það sé ekki gert eftir að hann er skipaður í stöðuna. Reyndar er það nú svo að eftir að búið er að skipa forstöðumann þá er hann ekki lengur umsækjandi heldur er hann orðinn forstöðumaður og það ekki bara venjulegrar stofnunar heldur forstöðumaður Íslenskrar málnefndar, sem er skv. 1. gr. málræktar- og málverndarstofnun.

Nú hefur þessu reyndar verið breytt en ekki mikið til batnaðar þó. Því að í brtt. stendur: ,,Leita skal álits Íslenskrar málnefndar um umsækjendur um stöðu forstöðumanns áður en skipað er í stöðuna.``

Þetta hefði góður lærifaðir minn, Gísli Jónsson magister, sagt mér að héti á fræðimáli ,,pleonasmi`` en það er einhvers konar ofhlæði eða þegar menn stunda þá íþrótt að bera í bakkafullan lækinn. Væntanlega er nóg að segja: ,,Leitað skal álits Íslenskrar málnefndar um umsækjendur um stöðu forstöðumanns.`` Punktur. Ef menn vilja stunda mikla nákvæmnisvinnu í lagatextum þá hefði kannski líka þurft að taka fram að það ætti að leita álits áður en forstöðumaður er skipaður en eftir að umsóknarfrestur væri runninn út.

Ég held að rétt væri að hv. menntmn. gæfi sér tíma til þess að fara yfir málfarið á þessu frv. til breytingar á lögum um Íslenska málnefnd milli 2. og 3. umr. og mun ég jafnvel taka að mér að hafa forgöngu um það.